Fara í efni  

Samstaða einkenndi fund um samgöngumál á Vesturlandi

Fundargesti risu úr sætum og tóku undir áskorun til samgönguyfirvalda. 
Ljósmynd: Jónas Ottósson.
Fundargesti risu úr sætum og tóku undir áskorun til samgönguyfirvalda. Ljósmynd: Jónas Ottósson.

„Opinn fundur um samgöngumál á Vesturlandi skorar á samgönguyfirvöld og Alþingi að bregðast tafarlaust við ótryggu og hættulegu ástandi Vesturlandsvegar á Kjalarnesi með nauðsynlegum framkvæmdum og tryggi jafnframt að tvöföldun Vesturlandsvegar frá Hvalfjarðargöngum til Reykjavíkur verði lokið innan þriggja ára.  Skoðaðar verði allar leiðir sem flýtt geti þeim framkvæmdum enn frekar til að auka umferðaröryggi og greiða för.“  

Á þessum kröftugum orðum sleit Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi fundi um samgöngumál á Vesturlandi sem haldinn var í gær þann 24. janúar í Tónbergi á Akranesi af frumkvæði bæjarstjórnar Akraness. Gestir fundarins risu allir úr sætunum og tóku undir áskorunina sem Sævar Freyr afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Yfir 200 manns sóttu fundinn og var einnig hægt að fylgjast með honum í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum. Fundurinn hófst kl. 18:00 og var það Páll S. Brynjarsson framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi sem stýrði fundi.

Rakel Óskarsdóttir bæjarfulltrúi á Akranesi setti fundinn undir orðunum samstaða sem er táknrætt fyrir þá samstöðu sem hefur myndast meðal sveitarfélaga, íbúa og fyrirtækja á Vesturlandi um brýna nauðsyn til vegaúrbóta á vegkafla Vesturlandsvegar við Kjalarnes. Eyjólfur Árni Rafnsson formaður starfshóps um möguleika á framkvæmdum á stofnleiðum í nágrenni Reykjavíkur og fjármögnun þeirra, tók næst til máls og flutti erindi undir heitinu Flýting vegaframkvæmda og fjármögnun þeirra. Eyjólfur fór þar yfir skipun starfshópsins og þau álitamál sem ráðherra fól hópnum að skoða. Á eftir Eyjólfi steig á svið Geirlaug Jóhannsdóttir sveitarstjórnarfulltrúi í Borgarbyggð og flutti erindi undir heitinu „Lífæð Vesturlands“. Erindi Geirlaugar einkenndist af ákveðni og kom skýrt fram í hennar framsögu til ráðherra að vegaframkvæmdir á Vesturlandi hafa setið eftir. Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar tók næst til máls og fór yfir brýnustu úrbætur í vegamálum fyrir Vesturland. Á eftir Kristni steig Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á svið og fór yfir framtíðaráform ríkisstjórnar í samgöngumálum en þau skipa að hans sögn stóran sess í núverandi stjórnarsáttmála ríkisstjórnar. Þá fór hann inn á hvað væri búið að leggja til vegaframkvæmda á Vesturlandi á síðustu árum og hvað væri framundan. Hann tilkynnti formlega að gjaldtöku yrði hætt í Hvalfjarðargöngunum á þessu ári og að ef gjaldtaka ætti að halda áfram þá yrði það skoðað út frá jafnréttissjónarmiði hvað varðar aðrar stofnleiðir til Höfuðborgarsvæðisins. Undirbúningur að samgönguáætlun til 12 ára er í bígerð og mun líta dagsins ljós í lok þess árs sagði ráðherra að lokum.

„Einbreiður, mjór, óupplýstur, ótal gatnamót, djúp hjólför, há tíðni slysa og óhappa, vegabætur vanræktar árum og áratugum saman, fjárveitingar brandari og veðravíti“ Þetta sagði Bjarnheiður Hallsdóttir í erindi sínu sem hún flutti fyrir hönd baráttuhóps um öruggt Kjalarnes. Bjarnheiður færði ráðherra að lokinni framsögu undirskriftarlista þar sem 5.500 manns höfðu skrifað undir áskorun til samgönguyfirvalda um bættar samgöngur á Kjalarnesi. Magnús Magnússon ritstjóri Skessuhorn færði þá næst Bjarnheiðni skóflu sem hann hafði fengið afhenta þegar Reykjanesbrautin var opnuð á sínum tíma eftir að hafa verið tvöfölduð. Skóflan var táknræn um að nú væri komið að öðrum stofnleiðum sem liggja að Höfuðborgarsvæðinu. Vert er að minnast á það að afhendingin var árið 2008 og því 10 ár síðan og engar útbætur hafa verið gerðar á þessum umrædda vegkafla.

Fundurinn fór afar vel fram og voru málefnalegar umræður í sal undir lok fundar. Akraneskaupstaður vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem komu að undirbúningi fundar sem og gestum fyrir komuna. Kynningar, myndir og upptaka af fundinum má nálgast hér fyrir neðan. 

"Opin fundur um samgöngumál"


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00