Fara í efni  

Guðlaug - Gudlaug Baths

Á Langasandi er hægt að baða sig í sjónum og njóta útsýnisins í Guðlaugu sem er heit laug staðsett í grjótgarðinum á Langasandi. Guðlaug er á þremur hæðum. Þriðja hæðin (næst áhorfendastúku) er útsýnispallur, þar undir (á annarri hæð) er heit setlaug og sturtur ásamt tækjarými og á fyrstu hæð er vaðlaug. Á milli hæðanna eru tröppur sem einnig mynda tengingu á milli bakka og fjöru.
Guðlaug er skilgreind sem náttúrulaug/afþreyingarlaug sem er opin árið um kring. Búningsklefar eru á staðnum.

Vakin er athygli á því að opnunartími getur tekið breytingum og eru gestir laugarinnar hvattir til að fylgjast með upplýsingaflæði á facebooksíðu Guðlaugar. 

Um framkvæmdina
Í  ágúst árið 2017 var samningur undirritaður um byggingu Guðlaugar og hófust framkvæmdir strax samkvæmt hönnun Basalt arkitekta og Mannvits verkfræðistofu. Verktaki framkvæmdarinnar var Ístak ehf. og Vélaleiga Halldórs Sig ehf. var undirverktaki þeirra. Rafþjónusta Sigurdórs og Pípulagningaþjónustan ehf. sáu um rafmagns- og vatnslagnir laugarinnar og Trésmiðjan Akur kom að því að koma upp búningaaðstöðu. Fyrst var byrjað á því að grafa í grjótgarðinn fyrir undirstöðum og þær steyptar mánuði síðar. Grjótgarðurinn var í kjölfarið settur aftur upp fyrir veturinn og hóf Ístak vinnu við að forsteypa einingar mannvirkisins. Framkvæmdir hófust á ný í júní 2018 og lauk í desember sama ár. 

   

Forsaga Guðlaugar
Forsaga Guðlaugar á rætur að rekja til ársins 2014 þegar Minningarsjóði Jóns Gunnlaugssonar útvegsbónda og Guðlaugar Gunnlaugsdóttur húsmóður frá bræðraparti á Akranesi var formlega slitið, en sjóðurinn var stofnaður árið 1969. Stjórn minningarsjóðsins ákvað þar að ráðstafa samtals 14 milljónum króna til uppbyggingar á heitri laug við Langasand ásamt öðrum styrkjum til samfélagsins á Akranesi að verðmæti 54 milljóna króna í reiðufé og lóðum að verðmæti 66 m.kr. Tilgangurinn með stofnun sjóðsins var að efla mannlíf og samfélag á Akranesi og veita ungum, fátækum námsmönnum á Akranesi styrki til náms sem tengdist sjávarútvegi. Með breyttum aðstæðum og atvinnuháttum á Akranesi sóttu færri um styrk úr sjóðnum en stofnendur hugðu upphaflega. Það var því einróma samþykkt í stjórn sjóðsins að leggja sjóðinn niður og ráðstafa stærstum hluta hans til málefna tengdum slysavörnum og samfélagsmálum á Akranesi. Í kjölfar styrkveitingarinnar var settur á laggirnar starfshópur skipaður af Sigurði Páli Harðarsyni sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs, Elínu Sigrúnu Jónsdóttur barnabarni Gunnlaugs og Guðlaugar, Írisi Reynisdóttur þáverandi garðyrkjustjóra og Haraldi Sturlaugssyni. Hlutverk starfshópsins var að útfæra verkefnið um uppbyggingu á heitri laug á Langasandi og skilaði starfshópurinn af sér tillögu á haustmánuðum ársins 2015.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00