Fara í efni  

Náttúruvernd

Til náttúruverndarsvæða teljast annars vegar friðlýst svæði, þ.e. náttúruvætti, friðlönd, þjóðgarðar og fólkvangar og hins vegar svæði á náttúruminjaskrá. Einnig afmörkuð svæði á landi og sjó sem njóta verndar vegna náttúru eða landslags. Um náttúruverndarsvæði gilda lög um náttúruvernd ásamt auglýsingum um einstök svæði í Stjórnartíðindum og sérlögum um verndun einstakra svæða. Með náttúruvernd er dregið úr hættu á að líf, land, sjór, vatn eða andrúmsloft spillist eða mengist, reynt að vernda það sem þar er sérstætt eða sögulegt og stuðla að því að íslensk náttúra fái að þróast eftir eigin lögmálum. Um leið er leitast við að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af náttúru landsins og menningarminjum.

Friðland

Við bæjarmörk Akraness, norðvestanverð, er friðland Blautóss og Innstavogsnes og er friðlýst samkvæmt Náttúruverndarlögum og gilda um það sérstakar umgengnisreglur og forðast skal röskun þess eins og kostur er. Stærð svæðisins er 288 ha. og er það verndað vegna landslagsgerða, þá sérstaklega tjarna, mýra, sjávarfitja og leira og auðugs fuglalífs. Í ósinn rennur Berjadalsá úr Akrafjalli vestanverðu. Svæðið er auðugt af fuglalífi og er vel gróðri vaxið. Það býr yfir fallegu landslagi og athyglisverðum jarðmyndunum frá tímum síðustu ísskeiða. Svæðið er töluvert vinsælt útivistarsvæði enda nálægt þéttbýlinu á Akranesi og við botn Blautóss er hesthúsabyggð Akurnesinga.

Svæðið er viðkomustaður margra tegunda farfugla auk þess er varp þar nokkuð. Margæsir hafast við í Blautósi og Innstavogsnesi á vorin og haustin. Talið er að um fjórðungur margæsarstofnsins noti Blautós og Innstavogsnes ásamt friðlandinu í Grunnafirði á ferðum sínum á milli landa en margæsir sem stoppa á Íslandi verpa í Kanada og hafa síðan vetrarsetu á Írlandi. Æðarvarp er á svæðinu og er leyfilegt að nýta það á sama hátt og tíðkast hefur.

Hverfisvernd

Hverfisvernd um hvað skal vernda er ákvörðuð af bæjaryfirvöldum. Hverfisvernd er skilgreind í skipulagslögum sem ákvæði í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi um verndun sérkenna eldri byggðar, annarra menningarsögulegra minja eða náttúruminja. Nánast öll strandlengjan á Akranesi nýtur hverfisverndar fyrir utan höfnina, Lambhúsasund og Leyni vegna landslags, náttúrufars og auðugs fuglalífs auk þess sem þessi svæði hafa mikið útivistargildi. Verndun strandarinnar og nýting hennar til útivistar er í samræmi við markmið bæjarstjórnar og skýran vilja bæjarbúa á íbúaþingi í september 2003.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00