Fara í efni  

Spurt og svarað um byggingarmál

Byggingarleyfi

Sækja þarf um byggingarleyfi í gegnum þjónustugátt Akraneskaupstaðar, innskráning er með rafrænum skilríkjum - Umsóknir – Skipulags- og byggingarmál – Umsókn um byggingarleyfi.

Almennt þarf að sækja um leyfi ef fyrirhugað er að gera breytingar, rífa, flytja eða breyta því sem fellur undir hugtakið mannvirki, eða ef reisa á nýtt mannvirki. Með breytingum er til dæmis átt við breytingar á útliti, burðarkerfi og lagnakerfum mannvirkis. Kemur þetta fram í 1. mgr. 2.3.1. gr. byggingarreglugerðar.

Framkvæmdir (skv. mgr. 11.1) skulu vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.

Vakin er athygli á því að einnig þarf að sækja um byggingarleyfi fyrir niðurrifi.

Skilgreining á mannvirki er að finna í 13.mgr. 3gr. laga um mannvirki nr. 160/2010  og það sem er undanþegið byggingarleyfi kemur fram í 1.mgr. 9.gr.

Upplýsingar um ofangreind atriði er að finna í byggingarreglugerð nr. 112/2012: kafla 2.4 og 2.3.7

Teikningar af byggingum

Þær teikningar sem eru til af byggingum, þ.e. aðaluppdráttum, burðarþols- og lagnateikningum ásamt séruppdráttum, á www.akranes.is og fara á Kortasjá. Velur Framkvæmdir og teikningar og hakar við – Teikningar af byggingum. Smellir á rauða hringinn á byggingunni sem verið er að leita teikningum af.

Svalalokanir

Sækja þarf um leyfi fyrir svalalokun í gegnum þjónustugátt Akraneskaupstaðar, innskráning er með rafrænum skilríkjum - Umsóknir – Skipulags- og byggingarmál – Umsókn um byggingarleyfi. Skila þarf inn aðaluppdráttum og séruppdráttum sem sýna festingar og fleira. Einnig þarf að skila samþykki meðeigenda þegar það á við. Hægt er að hefjast handa með framkvæmdir að fengnu samþykki byggingarfulltrúa og þegar búið er að greiða afgreiðslugjald.

Í þeim tilfellum þar sem er verið að byggja yfir svalir þarf að skoða það sérstaklega í tengslum við nýtingarhlutfall lóðar.

Sjá einnig byggingarreglugerð nr. 112/2012, gr. 6.7.6. og 9.6.17. Einnig vísast í leiðbeiningar HMS varðandi „Kröfur vegna svalaskýla“, 

 

Breytt notkun húsnæðis

Sækja þarf um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun á húsnæði, t.d. ef breyta á atvinnuhúsnæði í íbúðarhús eða bílskúr í íbúð. Fyrsta skrefið er fyrirspurn til skipulagsfulltrúa,í gegnum íbúagáttina á heimasíðu Akraneskaupstaðar. Skipulagsfulltrúi kynnir málið í skipulags- og umhverfisráði. Reikna skal með því að notkunarbreytingar sem þessar þurfi að fara í grenndarkynningu. Berist jákvætt svar frá skipulagsfulltrúa hefst hið formlega umsóknarferli um byggingarleyfi, þ.s. senda þarf inn aðaluppdrætti, verkteikningar ásamt því að skrá byggingarstjóra og iðnmeistara.

 

Breytingar á þegar byggðu mannvirki eða breytt notkun

Við lagfæringu á burðarvirki, breytingu á þegar byggðu mannvirki, viðbyggingu við það eða við breytta notkun þess skal burðarþolshönnuður staðfesta með undirritun á aðaluppdrátt að burðarþol mannvirkisins sé fullnægjandi. Slík staðfesting skal fela í sér eftirfarandi:

  1. Burðarþolshönnuður staðfestir að burðarþol mannvirkis fullnægi öllum þeim kröfum sem gerðar eru til burðarþols vegna hinnar nýju notkunar.
  2. Sé minniháttar breyting gerð á þáttum er varða burðarvirki skal burðarþolshönnuður staðfesta að burðarþolið eftir breytinguna sé fullnægjandi.
  3. Séu gerðar breytingar aðrar en þær sem falla undir b-lið, skal burðarvirkið sem breytt er eða lagfært fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til burðarþols.
  4. Sé byggt við mannvirki, hluti þess eða heild endurnýjuð eða burðarvirki breytt ber hönnuði að staðfesta að burðarvirki hinnar nýju, breyttu eða endurnýjuðu þátta fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til burðarþols. Jafnframt skal staðfest að breytingin hafi ekki leitt til skerðingar á burðarþoli annarra þátta mannvirkisins.

Reglur um smáhýsi á lóðum 

Um smáhýsi gilda reglur sbr. grein 9.7.6. í byggingarreglugerð.

„Eingöngu er heimilt að setja smáhýsi á lóðir ef slíkt veldur ekki hættu fyrir nærliggjandi byggingar.”

Smáhýsi er skýli sem er almennt ætlað til geymslu garðáhalda og þess háttar og er ekki ætlað til íveru. Smáhýsi er ekki upphitað. Smáhýsi geta einnig verið garðhús eða notuð sem hjólageymslur. Smáhýsi er ekki byggingarleyfisskylt ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt, samanber 2.3.5. gr. byggingarreglugerðar.

Einnig vísast í leiðbeiningar HMS varðandi smáhýsi.

Reglur um stöðuleyfi

Fyrir gáma, báta, skúra, dúkskemmur, söluvagna og söluskúra, auglýsingaskilti og sumarhús í smíðum

„Sækja skal um stöðuleyfi til leyfisveitanda (byggingarfulltrúa) til að láta lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna.”

Umsókn um stöðuleyfi skal vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðarmanni viðkomandi lausafjármunum og skal fylgja samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað er að lausafjármunirnir standi á. Í umsókn skal gerð grein fyrir tilgangi og lengd stöðuleyfis. Með umsókn skulu fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausafjármunanna. Leyfið er veitt til eins árs í senn og þarf að sækja um endurnýjun leyfis að þeim tíma liðnum.

Sjá einnig byggingarreglugerð nr. 112/2012, gr. 2.6. Einnig vísast í leiðbeiningar HMS varðandi „Umsókn um stöðuleyfi“

Gjaldskrá fyrir stöðleyfi er aðgengileg á heimasíðu Akraneskaupstaðar, www.Akranes.is.

Skjólveggir á lóðamörkum

Hæð girðinga á lóðum skal vera í samræmi við skipulagsskilmála. Afla skal byggingarleyfis vegna girðinga og skjólveggja á lóðamörkum nema framkvæmdirnar séu undanþegnar byggingarleyfi skv. f-lið 1. mgr. 2.3.5. gr. Girðing eða skjólveggur á mörkum lóða er alltaf háður samþykki allra lóðarhafa óháð hæð girðingar eða skjólveggjar. Leita skal samþykkis áður en hafist er handa við smíði girðingar eða skjólveggjar. Það sama við um opin svæði Akraneskaupstaðar, grassvæði, göngustíga, götur og fl. Sjá 7.2.3. gr. byggingarreglugerðar (brgl.).

Tilkynningaskyldar framkvæmdir

Í kafla 2.3 byggingarreglugerðar er greint frá því hvenær sækja þarf um byggingarleyfi.

Óheimilt er að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda, sbr. 2.3.5 og 2.3.6 gr.

Byggingarfulltrúi veitir byggingarheimild og byggingarleyfi vegna hvers konar mannvirkjagerðar sem háð er byggingarheimildar og byggingarleyfis sbr. 2.3.2

Framkvæmdaleyfi

Allar framkvæmdir sem teljast meiriháttar, hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Óheimilt er að hefja slíkar framkvæmdir nema fyrir liggi samþykki leyfisveitanda (skipulagsfulltrúa) um útgáfu framkvæmdaleyfis og að framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út.

Framkvæmdir sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum eru ávallt háðar framkvæmdaleyfi. Framkvæmdir sem háðar eru byggingarleyfi þurfa ekki framkvæmdaleyfi.

Mannvirki 

Upplýsingar um mannvirki, sem HMS (Húsnæðis- og mannvirkjastofnun) og byggingarfulltrúar óska eftir, skulu skráðar í skráningartöflu og fylgja aðaluppdráttum til byggingarfulltrúa. Hvert mannvirki er skráð sérstaklega í einni skráningartöflu. Mannvirkjahluta má skrá sérstaklega sem sér matshluta þegar:

  1. a) Byggingarfræðileg rök mæla með sjálfstæðri skráningu, s.s. byggingarefni og byggingarlag, enda geti hann staðið sjálfstæður samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar.
  2. b) Eignamörk mæla með því og nauðsynlegt reynist að gera sérstaka eignaskiptayfirlýsingu um hann.

Mannvirki skal skipt í hæðir samkvæmt reglum um hæðaskiptingu.

Mannvirki skal skrá eftir lokunarflokkum.

Hæðum skal skipt í rými eftir reglum um eignarhald, höfuðflokkun og notkun rýma.

 

Fasteignir 

Fasteign er afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem fylgja henni og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt.
Fasteign samanstendur af einni eða fleiri notkunareiningum, t.d. íbúð, verslun eða hvoru tveggja. Með hverri notkunareiningu er tilgreind hlutdeild í sameign. Sérhver fasteign hefur ákveðið fast númer, fasteignanúmer. Númerið er hlaupandi raðtala sem felur ekki í sér aðrar upplýsingar. Númerið er þinglýsingarandlag fasteignar. Sótt er um skráningu nýrra fasteigna eða breytingu á þeim hjá byggingarfulltrúa.

 Skráning fasteigna og mannvirkja

Sérhver landeign hefur ákveðið fast númer, landeignanúmer. Númerið er hlaupandi raðtala sem felur ekki í sér neinar upplýsingar. Sveitarfélög og landeigendur gefa út mæliblöð landeigna þar sem fram kemur m.a. afmörkun og landeignanúmer.

 Skráningartöflur

Nýjustu útgáfu af skráningartöflu ásamt ýmiss konar leiðbeiningum má finna á vef HMS 

Mæli- og hæðarblöð

Senda þarf beiðnir á netfangið byggingarfulltrui@akranes.is til að nálgast mæli- og hæðarblöð.

 

Lausar lóðir 

Upplýsingar um lausar lóðir er að finna á 300 akranes .

Varðandi íbúðarhúsalóðir þá er farið inn á viðkomandi lóð valin, farið á Smelltu hér til þess að sækja um lóð og umsækjandi skráir sig inn með rafrænum skilríkjum, lýkur við að fylla umsóknareyðublaðið út og lætur afrit af kvittun fyrir umsóknargjaldi fylgja með umsókninni.

Þegar um lóð fyrir atvinnuhúsnæði er að ræða er sótt um í Þjónustugátt Akraneskaupstaðar undir „Umsóknir“. Í gáttinni er farið í „Skipulags- og byggingarmál – almennt“ og síðan valin „Umsókn um lóð á Grænum iðngörðum“. Fylgigögnum sem skila þarf með umsókn eru framkvæmdaáætlun, ársreikningur og staðfesting á skuldleysi við innheimtumann ríkissjóðs. Í umsókninni er hægt að óska eftir allt að tveggja ára greiðslufresti gatnagerðagjalda.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00