Fara í efni  

Þjónusta við börn og unglinga

Félagsþjónusta Akraneskaupstaðar veitir ýmis konar stuðning til fjölskyldna og einstaklinga á Akranesi sem þurfa á stuðningi við uppeldi og aðbúnað barna að halda.

Með stuðningi er átt við þjónustu á borð við liðveislu, tilsjónarmenn og persónulega ráðgjafa sem og stuðningsfjölskyldur. Jafnframt er átt við félagslegan stuðning sem felur í sér hjálp við að rjúfa félagslega einangrun, stuðla að aukinni félagsfærni og aðstoða við að njóta menningar og félagslífs.

Starfandi sviðsstjóri velferðar- og mannréttindasviðs er Sveinborg Kristjánsdóttir sem jafnframt veitir nánari upplýsingar bæði í tölvupósti á netfangið velferd@akranes.is og í síma 433 1000.

Gagnlegar upplýsingar um einstaka málaflokka má lesa sig til um hér að neðan. 

Barnavernd / tilkynning

Öll börn eiga rétt á vernd og umönnun. Einstaklingar teljast börn til 18 ára aldurs. Þau njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærgætni. Þeim ber jafnframt að gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Foreldrum ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Aðrir aðilar sem koma að uppeldi barna skulu sýna þeim virðingu og umhyggju.

Barnavernd Akraneskaupstaðar starfar samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Markmið laganna er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Unnið er að því að ná þessum markmiðum með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.     

Barnaverndartilkynning
Samkvæmt barnaverndarlögum ber hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu að tilkynna það barnaverndaryfirvöldum í því sveitarfélagi sem barnið býr. Starfsmenn barnaverndar Akraneskaupstaðar taka við barnaverndartilkynningum á skrifstofutíma í síma 433-1000. Utan þess tíma er bent á neyðarlínuna 112 þar sem unnt er að koma á framfæri barnaverndartilkynningum og fá samband við starfsmann á bakvakt barnaverndar í neyðartilvikum. Einnig er hægt er að koma barnaverndartilkynningum á framfæri á netfangið barnavernd@akranes.is Vinsamlegast látið nafn og símanúmer fylgja með. 

Senda tilkynningu

Nafnleynd
Samkvæmt 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2001 verður hver sá sem tilkynnir til barnaverndarnefndar að segja á sér deili. Tilkynnandi getur óskað eftir nafnleynd gagnvart öðrum en nefndinni og skal það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því.

Könnun barnaverndarmáls
Þegar barnaverndarnefnd fær barnaverndartilkynningu skal hún taka ákvörðun innan sjö daga frá því henni barst tilkynning, um hvort ástæða sé til að hefja könnun á málinu. Ákvörðun barnaverndarnefndar um að hefja könnun máls eða að láta mál niður falla er hvorki kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála né annars stjórnvalds. Barnaverndarnefnd skal tilkynna foreldrum að tilkynning hafi borist. Markmið könnunar er að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Nefndin skal leggja áherslu á að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, andlegt og líkamlegt ástand, tengsl við foreldra og aðra, hagi foreldra, aðbúnað barns á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Þetta gera starfsmenn með viðtali við forsjáraðila, með því að biðja um umsögn um stöðu barns frá leikskóla eða skóla, með því að fá upplýsingar frá ættingjum eða vinum sem þekkja barnið, með heimsókn á heimili, með viðtali við barn og upplýsingum frá sérfræðingum sem hafa komið að málefnum barnsins. Að könnun lokinni setur nefndin saman greinargerð þar sem niðurstöðum könnunar er lýst og tiltekið hvort einhverra úrbóta er þörf og settar fram tillögur að heppilegum úrræðum.

Áætlun um meðferð barnaverndarmáls
Ef könnun á máli barns leiðir í ljós að þörf er á úrbótum skal barnaverndarnefnd í samvinnu við foreldra og eftir atvikum barn sem hefur náð 15 ára aldri, gera skriflega áætlun um meðferð málsins. Haft er samráð við yngri börn eftir þroska þeirra og aldri. Áætlun er gerð til ákveðins tíma og er endurskoðuð eftir þörfum.

Úrræði í barnaverndarmáli

Stuðningsúrræði með samþykki foreldra
Barnaverndarnefnd skal eftir atvikum leiðbeina foreldrum varðandi uppeldi og aðbúnað barns, stuðla að því að úrræðum verði beitt í samvinnu við aðrar stofnanir, útvega barni viðeigandi stuðning eða meðferð, útvega barni eða fjölskyldu tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu og aðstoða foreldra eða þungaða konu við að leita sér meðferðar vegna veikinda, áfengis- eða vímuefnavanda eða annara persónulegra vandamála.

Barnaverndarnefnd getur með samþykki foreldra og barns sem hefur náð 15 ára aldri tekið við forsjá eða umsjá barns og ráðstafað barni í fóstur, eða vistað barn utan heimilis á heimili eða stofnun eða leitað annarra úrræða.

Úrræði án samþykkis foreldra
Ef barnaverndarnefnd metur það svo að úrræði hafi ekki skilað árangri eða að úrræði séu ófullnægjandi þá getur nefndin úrskurðað í máli barns gegn vilja foreldra. Þannig getur nefndin kveðið á um eftirlit með heimili, gefið fyrirmæli um aðbúnað, umönnun, dagvistun, skólasókn, læknisþjónustu, rannsókn, meðferð eða þjálfun barns. Nefndin getur ákveðið að ekki megi fara með barn úr landi. Ef brýnir hagsmunir barns mæla með því getur barnaverndarnefnd úrskurðað gegn vilja foreldra um að barn skuli vera kyrrt í allt að tvo mánuði á þeim stað þar sem það dvelst. Nefndin getur einnig kveðið á um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði.

Neyðarráðstafanir
Fjölskyldusvið Akraneskaupstaðar hefur ráðið neyðarvistunaraðila sem sér um vistun barna á Akranesi í neyðartilfellum. Um er að ræða skammtímavistun á meðan unnið er að því að finna önnur úrræði.

Nánari upplýsingar veitir Ingibjörg Gunnarsdóttir yfirfélagsráðgjafi bæði í tölvupósti á netfangið ingibjorg.gunnarsdottir@akranes.is og í síma 433 1000

Liðveisla

Markmið með liðveislu er að efla fólk til sjálfstæðis, allt eftir getu hvers og eins. Með liðveislu er leitast við að veita persónulegan stuðning og aðstoð sem miðar að því að rjúfa félagslega einangrun til dæmis til þess að njóta menningarlífs, félagslífs og tómstunda ásamt því að auka félagsfærni viðkomandi.

Í lögum um málefni fatlaðra segir að sveitarfélög skulu eftir föngum gefa fötluðu fólki kost á liðveislu. Með liðveislu er átt við persónulegan stuðning og aðstoð sem einkum miðar að því að rjúfa félagslega einangrun, t.d. aðstoð til að njóta menningar og félagslífs. Reglur um liðveislu fyrir fatlaða hjá Akraneskaupstað má finna hér.

Einstaklingar með lögheimili á Akranesi geta sótt um persónulegan ráðgjafa. skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Umsóknin skal rituð á sérstakt umsóknareyðublað þar sem fram koma upplýsingar um umsækjanda og ástæðu umsóknar. Hægt er að sækja um liðveislu hér í rafrænt í Íbúagátt eða í þjónustuver Akraneskaupstaðar.

Nánari upplýsingar um liðveislu veitir Arnheiður Andrésdóttir ráðgjafarþroskaþjálfi bæði í tölvupósti á netfangið arnheidur.andresdottir@akranes.is og í síma 433 1000.

Persónulegur ráðgjafi og tilsjón

Tilsjónarmaður
Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að Félagsmálanefnd skuli sjá til þess að börn fái notið hollra og þroskavænlegra uppvaxtarskilyrða, t.d. leikskóla og tómstundaiðju. Einnig er eitt af hlutverkum félagslegrar heimaþjónustu að veita félagslegan stuðning. Hlutverk tilsjónarmanns er að rjúfa félagslega einangrun umsækjanda og aðstoða hann við að taka þátt í félagslegum athöfnum. Þetta úrræði  er veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsþjónustu

Einstaklingar með lögheimili á Akranesi geta sótt um tilsjónarmann skv. lögum um félagsþjónustu í sveitarfélögun. Umsóknin skal rituð á sérstakt umsóknareyðublað þar sem fram koma upplýsingar um umsækjanda og ástæðu umsóknar. 

Persónulegur ráðgjafi
Persónulegur ráðgjafi samkvæmt barnaverndarlögum er veittur sem hluti af úrræðum barnaverndaryfirvalda og skv. samningi þar að lútandi.

Nánari upplýsingar veitir Sveinborg Kristjánsdóttir félagsmálastjóri bæði í tölvupósti á netfangið sveinborg.kristjansdottir@akranes.is og í síma 433 1000.

Stuðningsfjölskylda

Með stuðningsfjölskyldu er átt við dvöl hjá annarri fjölskyldu eða að starfsmaður kemur inn á heimili viðkomandi. Stuðningsfjölskylda er hugsað sem hvíldarúrræði fyrir foreldra barnsins og sem tilbreyting fyrir það. Markmið þjónustunnar er að minnka álag á fjölskyldur barna og gefa börnunum möguleika á aukinni félagslegri þátttöku.

Þjónustan veitist með tilvísun í þrenn mismundandi lög eftir því hver ástæða er fyrir veitingu þjónustunnar. Stuðningsforeldrar þurfa leyfi barnaverndarnefndar Akraness til að starfa sem stuðningsforeldrar óháð því eftir hvaða lögum þjónustan er veitt.

Umsókn um að gerast stuðningsfjölskylda
Umsækjendur  þurfa að skila inn heilbrigðisvottorði fyrir alla heimilismenn 15 ára og eldri þar sem staðfest er að hvorki andleg eða líkamleg veikindi komi í veg fyrir að umsækjandi geti starfað sem stuðningsforeldri. Starfsmenn félagsþjónustu þurfa undirritað leyfi umsækjanda til að sækja um fullt sakavottorð hjá ríkissaksóknara fyrir þessa sömu aðila. Að framgreindum skilyrðum uppfylltum gera starfsmenn Barnaverndarnefndar úttekt á heimilinu og aðstæðum heimilismanna áður en leyfi er veitt. 

Stuðningsfjölskylda skv.  30 gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga
Stuðningsfjölskylda skv. félagsþjónustulögum er veitt þegar um tímabundið álag er að ræða í fjölskyldum eins og veikindi eða álag af öðrum toga. Einstaklingar með lögheimili á Akranesi geta sótt um stuðningsfjölskyldu skv. lögum um félagsþjónustu í sveitarfélögum. Umsóknin skal rituð á sérstakt umsóknareyðublað þar sem fram koma upplýsingar um umsækjanda og ástæður umsóknar. Hér er hægt að sækja um rafrænt í íbúagátt Akraneskaupstaðar en einnig er hægt að sækja um í þjónustuver Akraneskaupstaðar að höfðu samráði við starfsmann félagsþjónustunnar. 

Eftir móttöku umsóknar fær umsækjandi viðtalstíma hjá starfsmanni félagsþjónustunnar og í framhaldi af því er umsóknin tekin fyrir á fundi sem afgreiðir umsóknina.

Stuðningsfjölskylda skv. lögum um málefni fatlaðra
Skv. lögum um málefni fatlaða skulu fjölskyldur fatlaðra barna eiga kost á stuðningsfjölskyldu eftir því sem þörf krefur. Þjónustusvæði sveitarfélaganna á Vesturlandi hafa sett sér sameiginlegar reglur um þjónustu stuðningsfjölskyldu sem skoða má hér á heimasíðu Velferðarráðuneytisins.

Einstaklingar með lögheimili á Akranesi eða í Hvalfjarðasveit geta sótt um stuðningsfjölskyldu. Umsóknin skal rituð á sérstakt umsóknareyðublað þar sem fram koma upplýsingar um umsækjanda og ástæðu umsóknar. Hér er hægt að sækja um rafrænt í íbúagátt Akraneskaupstaðar en einnig er hægt að sækja um í þjónustuver Akraneskaupstaðar.

Eftir móttöku umsóknar  fær umsækjandi viðtalstíma hjá starfsmanni félagsþjónustunnar og í framhaldi af því er umsóknin tekin fyrir á teymisfundi sem afgreiðir umsóknina.

Stuðningsfjölskylda skv. Barnaverndarlögum
Stuðningsfjölskylda skv. barnaverndarlögum er veitt sem hluti af úrræðum barnaverndaryfirvalda og skv. samningi þar að lútandi.

Nánari upplýsingar um stuðningsfjölskyldu veitir Arnheiður Andrésdóttir ráðgjafarþroskaþjálfi bæði í tölvupósti á netfangið arnheidur.andresdottir@akranes.is og í síma 433 1000.

Sérhæfð ráðgjöf

Markmið félagsþjónustu sveitarfélaganna er meðal annars að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og er meginverkefni ráðgjafa að efla og styðja foreldra vegna barna þeirra með fötlun og/eða sérþarfir.

Við staðfestingu á frávikum í þroska barns sem leitt getur til fötlunar/þarfar á sérúrræðum, er mikilvægt að bregðast við með þjónustu fyrir fjölskylduna, óski hún þess. Félagsþjónustan annast ráðgjöf og stuðning við fjölskyldur og gætir velferðar og hagsmuna þeirra. Þjónustan nær til fjölskyldna barna yngri en 18 ára og til eftirfarandi þátta, eftir óskum foreldranna:

 • Veitir upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi og þjónustu.
 • Veitir ráðgjöf við val á viðurkenndum leiðum til að auka og efla færni barna með fötlun.
 • Er þátttakandi í þjónustuteymi barnsins og er foreldrunum til stuðnings í teymisstarfi.
 • Veitir fjölskyldum barna með sérþarfir ráðgjöf um íhlutunarleiðir, uppeldi og þjálfun barnanna á heimili þeirra.
 • Á samstarf við ýmsa sérfræðinga  vegna barnsins svo sem hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Barna- og unglingageðdeild, Heilsugæslunni, Landspítala háskólasjúkrahúsi og leik- og grunnskólum auk annarra ráðgjafa félagsþjónustunnar og sérfræðiþjónustu sveitarfélaganna.
 • Veitir ungmennum og foreldrum þeirra ráðgjöf varðandi athafnir daglegs lífs, félagsþátttöku, skóla- og/eða atvinnuþátttöku, sumarúrræði o.fl.
 • Veitir fræðslu til aðstandenda, tengslastofnanna og samstarfsfólks um fatlanir, íhlutunarleiðir og aðstæður barna og ungmenna með fötlun og fjölskyldna þeirra.

Eftir tilvísun frá greiningaraðila er foreldrum bent á þann möguleika að hafa samband við ráðgjafa í félagsþjónustunni. Einstaklingar með lögheimili á Akranesi eða í Hvalfjarðarsveit geta sótt um sérhæfða ráðgjöf. Oft er það gert eftir fyrsta viðtal umsækjanda við ráðgjafa. Umsóknin skal rituð á sérstakt umsóknareyðublað þar sem fram koma upplýsingar um umsækjanda og ástæðu umsóknar.

Eftir móttöku umsóknar fær umsækjandi viðtalstíma hjá ráðgjafa félagsþjónustunnar ef þeir hafa ekki verið í sambandi þá þegar og í framhaldi af því er umsóknin tekin fyrir á teymisfundi sem afgreiðir umsóknina.

Nánari upplýsingar um stuðningsfjölskyldu veitir Arnheiður Andrésdóttir ráðgjafarþroskaþjálfi bæði í tölvupósti á netfangið arnheidur.andresdottir@akranes.is og í síma 433 1000.

Umönnunargreiðslur

Umönnunargreiðslur er fjárhagsleg aðstoð til foreldra sem eiga börn sem glíma við fötlun eða alvarleg veikindi. Þetta er félagsleg aðstoð sem veitt er þegar umönnun er krefjandi og kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, meðferðar og þjálfunar er orðinn umtalsverður og tilfinnanlegur fyrir foreldra. Umönnunargreiðslur geta verið frá fæðingu barns og til 18 ára aldurs. Sótt er um aðstoðina með því að leggja fram umsókn ásamt læknisvottorði og öðrum fylgigögnum til Tryggingastofnunar. Ef barn er með fötlun þarf að fá tillögu um umönnunargreiðslur frá félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags. Farsælast er að senda Tryggingastofnun umsókn og læknisvottorð, sem mun síðan senda erindi til sveitarfélaga og kalla eftir tillögu um umönnunargreiðslur (vegna barna með fötlun).

Nánari upplýsingar um stuðningsfjölskyldu veitir Arnheiður Andrésdóttir ráðgjafarþroskaþjálfi bæði í tölvupósti á netfangið arnheidur.andresdottir@akranes.is og í síma 433 1000.

Útivistarreglur barna

Útivistarreglur barna eru samkvæmt barnaverndarlögum og mega börn ekki vera á almannafæri nema í fylgd með fullorðnum sem hér segir:

 • Frá 1. september til 1. maí mega 12 ára börn og yngri ekki vera úti eftir kl. 20 og 13 - 16 ára börn mega ekki vera úti eftir kl. 22.
 • Frá 1. maí til 1. september mega 12 ára börn og yngri ekki vera úti eftir kl. 22 og 13 - 16 ára börn mega ekki vera úti eftir kl. 24.

Bregða má út af reglunum þegar börn 13-16 ára eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu.

Forvarnarstarf 

Meginverkefni forvarnarstarfs bæjarins er að stuðla að víðtækum forvörnum fyrir börn frá fæðingu til 18 ára aldurs. Unnið er í samstarfi við alla þá sem koma að málefnum barna og unglinga í bæjarfélaginu. Forvarnir geta verið margháttaðar og beinst að bæði einstaklingum og ólíkum hópum samfélagsins. Það er þó sameiginlegt fyrir forvarnir að þeim er ávallt ætlað að koma í veg fyrir að vandamál nái að þróast hjá einstaklingi eða í samfélaginu í heild. Forvörnum er einnig ætlað að draga úr vandamálum sem eru til staðar eða hið minnsta koma í veg fyrir að vandamálin aukist á einn eða annan hátt.

Akraneskaupstaður hefur samþykkt Velferðarstefnu og til að ná fram þeim markmiðum sem þar eru sett fram fylgir ítarleg aðgerðaráætlun. Meginmarkmið Velferðastefnu Akraneskaupstaðar er að vera leiðarljós fyrir stofnanir og félagasamtök á Akranesi þannig að forvarnarstarf nái til sem flestra þátta sem geta haft áhrif á heilbrigt líferni íbúanna og stuðla þannig að góðri lýðheilsu og velferð.

Akraneskaupstaður á aðild að Saman hópnum sem er samstarfsvettvangur ýmissa stofnana á vegum ríkis og bæjarfélaga og frjálsra félagasamtaka á sviði forvarna. Akraneskaupstaður hefur einnig gert samstarfssamning við Rannsókn og greiningu um úrvinnslu rannsókna á högum og líðan ungs fólks í grunn- og framhaldsskólum. Markmið samstarfsins er að vinna hagnýtar upplýsingar í hendur forvarnarhópa og bæjaryfirvalda til stefnumótunar og áætlunargerðar í málefnum ungmenna.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00