Fara í efni  

Sorphirða og endurvinnsla

MEÐHÖNDLUN ÚRGANGS

Umhverfisvernd og ábyrgð í umgengni um náttúruna eru mikilvæg atriði sem varða okkur í nútíð og framtíð. Flokkun sorps og rétt meðhöndlun þess er stór þáttur í að tryggja lífskjör til frambúðar. Sveitarfélagið sér um sorphirðu frá heimilum og rekur grenndarstöðvar og móttökustöðina Gámu fyrir heimili á Akranesi. Atvinnurekstur og stofnanir sjá um söfnun og ráðstöfun síns úrgangs.

Upplýsingar um staðsetningu á þjónustu varðandi úrgangsmál er að finna í Kortasjá Akraness undir Þjónusta og svo velja Grenndargámar.

Þjónustuaðili

Þjónustuaðili okkar í úrgangsmálum, Terra kennir sig við umhverfisþjónustu. Þeir sjá um almenna sorphirðu frá heimilum, þjónustuna á grenndarstöðvum og alla þjónustu á móttökustöðinni Gámu í Höfðaseli. Samningurinn um þjónustuna rennur út 31.3.2024 og verður þá búið að efna til nýs útboðs um þjónustuna.

Tímasetningar á hirðu frá heimilum má sjá hjá Terru

Móttökustöðin Gáma

Terra sér um rekstur endurvinnslustöðvar Gámu að Höfðaseli 16. Fasteignaeigendur eru minntir á klippikort sem fást afhent í þjónustuveri kaupstaðarins. Hver íbúðareigandi getur fengið afhent eitt kort árlega sem veitir handhafanum rétt til endurgjaldslausrar afhendingar á allt að 3 m3 af heimilisúrgangi í Gámu. Í Gámu er tekið á móti fjölda úrgangsflokka, og eru notendur hvattir til að flokka úrganginn heima hjá sér áður en þeir skila honum í rétta gáma á stöðinni.

Opnunartími Gámu er alla virka daga frá kl. 10-12 og 13-18 og á laugardögum frá kl. 10-14.

Söfnun nytjahluta fyrir nytjamarkaðinn Búkollu er í gámi sem merktur er starfseminni. Íbúum býðst að setja endurnýtanleg húsgögn og annað nýtilegt frá heimilinu i þann gám.

Sorpílát

Við öll heimili eiga að vera ílát fyrir 2 úrgangsflokka, til endurvinnslu og blandaðan úrgang. Innifalið í árlegu sorpgjaldi eru 2 stk 240 ltr ílát fyrir hvert heimili eða sambærilegt fyrir hverja íbúð í fjölbýli. Afgreiðsla sorpíláta fer fram í gegnum þjónustuver Akraneskaupstaðar, hvort sem verið er að fá ílát í fyrsta skipti, bæta við íláti eða endurnýja þau. Senda skal inn umsókn með rafrænum hætti á meðfylgjandi eyðublað.

Grenndarstöðvar

Á nokkrum stöðum í bæjarfélaginu hefur verið komið upp gámum fyrir úrgang til að auka þjónustu varðandi flokkun frá heimilum. Þar eru 4 gámar með litlum innmötunargötum fyrir glerumbúðir og annað hreint gler, málmumbúðir og aðrar hreina málma, pappír og pappa og plastumbúðir og annað plast. Í dag eru þessar grenndarstöðvar staðsettar á bakvið Bíóhöllina, Vesturgötu, bakvið Bókasafnið, Dalbraut og á safnasvæði Byggðasafnsins á Garðaholti.

Flöskur og dósir

Í Fjöliðjunni á Akranesi er boðið er upp á verndaða vinnu og endurhæfingu fyrir þá sem þess þurfa og leita eftir þjónustu. Á hverju ári tekur starfsfólk Fjöliðjunnar á móti, flokkar og telur á þriðju milljón umbúða. Þetta eru umbúðir með skilagjaldi, þ.e. áldósir, plastflöskur og glerflöskur frá almenningi og greiðir út skilagjald fyrir þær. Móttökustöð Fjöliðjunnar er staðsett á Smiðjuvöllum 9 og er hún opin alla virka daga frá kl. 9:00-11:45 og frá kl: 13:00-15:30.

Fatnaður

Á Smiðjuvöllum 9 eru staðsettir 2 móttökugámar á vegum Rauða Krossins fyrir fatnað og annan vefnað. Starfsfólk Fjöliðjunnar sér um að meðhöndla fatnaðinn, flokka og koma honum í áframhaldandi nýtingu í samstarfi við Rauða Krossinn.

Búkolla

Nytjamarkaðurinn Búkolla hefur verið starfandi á Akranesi síðan árið 2009. Starfsemi Búkollu felst í endurnýtingu fatnaðar og alls þess sem að heimilishaldi lýtur. Akurnesingar hugsa hlýlega til Búkollu þegar þeir losa sig við fatnað, húsgögn eða annan húsbúnað sem öðlast nýtt líf á öðrum heimilum. Í Búkollu býðst fólki á örorku og endurhæfingu störf.

Búkolla er staðsett á Smiðjuvöllum 9 og er markaðurinn opinn fimmtudaga til laugardaga kl. 12-15. Vörumóttaka er þriðjudaga til föstudaga kl. 10-15 og laugardaga kl. 12-15. Einnig er vörumóttaka á móttökustöð Gámu í Höfðaseli á opnunartíma Gámu.

Förgun bifreiða

Íbúar Akraness geta núna komið skilað ökutækjum sínum til förgunar í Gámu. Ökutækið skal vera á dekkjum og má ekki leka olíu eða öðrum vökvum.

Fylla skal út umsókn um afskráningu. Sjá leiðbeiningar á https://island.is/skilavottord.

Þú skráir þig inn með rafrænum skilríkjum og velur svo það ökutæki sem á að farga. Þegar þú hefur staðfest valið og sent inn umsóknina, þá ferðu með ökutækið á móttökustöð. Að því loknu og þegar ökutækið hefur verið afskráð færðu greitt skilagjald.

 

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ 

Eldri fréttir í tengslum við sorphirðu og endurvinnslu

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00