Fara í efni  

Dagforeldrar

Dagforeldrar eru sjálfstæðir verktakar en Akraneskaupstaður hefur umsjón og eftirlit með starfsemi þeirra ásamt því að sjá um ráðgjöf og upplýsingar til dagforeldra og foreldra. Tengiliður Akraneskaupstaðar við dagforeldra er Dagný Hauksdóttir en  hún hefur nánari upplýsingar í bæði tölvupósti á netfangið skoliogfristund@akranes.is og í síma 433-1000.  Til að fá starfsleyfi til daggæslu í heimahúsum þarf að uppfylla ákveðin skilyrði. Leyfilegur barnafjöldi hjá dagforeldri er allt að fjórum börnum samtímis fyrsta árið. Að því loknu er heimilt að veita leyfi fyrir einu barni til viðbótar. Þó þannig að eigi skulu að jafnaði vera á heimilinu fleiri en tvö börn undir eins árs aldri. Skörun á tímum barna í daggæslu er ekki heimilaður nema milli kl. 12 og 13 á daginn. Þar sem tveir dagforeldrar starfa saman er leyfilegt að vera með allt að tíu börn í einu  þ.e. fimm börn fyrir hvort dagforeldri.

Eftirfarandi eru gildandi reglur um starfsemi dagforeldra:

Listi yfir starfandi dagforeldra

Nafn: Magný Þórarinsdóttir
Heimilisfang: Sunnubraut 11
Símanúmer: 431-279

Nafn: Sara Lísa Ævarsdóttir
Heimilisfang:
Einigrund 24
Símanúmer:
845-7447
Netfang:
saralisa90@gmail.com

Nafn: Pétur Sævarsson
Heimilisfang: Reynigrund 47
Símanúmer: 848-5012
Netfang: siggasnae@gmail.com

Nafn: Sigrún Traustadóttir & Guðmundur Árnason
Heimilisfang: Háteigur 1
Símanúmer: 431-2900 
Netfang: trausturst@gmail.com

Nafn: María Björgvinsdóttir
Heimilisfang: Smáraflöt
Símanúmer: 779-1729
Netfang: mariabjorgvins@gmail.com

Nafn: Mwachum Wasir Mwinyi
Heimilisfang: Espigrund 9
Símanúmer: 777-9458
Netfang: mamadila1984@hotmail.com

Nafn: Margrét Hlíf Óskarsdóttir 
Heimilisfang: Sunnubraut 20
Símanúmer: 863-0102
Netfang: margrethlif@gmail.com

Nafn: Sædís Eva Óðinsdóttir
Heimilisfang: Höfðabraut 2
Símanúmer: 846-3345
Netfang: seadis1992@gmail.com

Nafn: Þórhildur Ásgeirsdóttir
Heimilisfang: Sunnubraut 21, n.h.
Símanúmer: 775-3041
Netfang: t.asgeirsdottir@gmail.com

 

 

Að velja dagforeldra

Þegar foreldrar velja dagforeldri fyrir barn sitt er mikilvægt að þeir kynni sér vel þjónustuna sem í boði er s.s. allan aðbúnað, leikfangakost, hvíldaraðstöðu og leikaðstöðu bæði úti og inni. Foreldrar skulu gera skriflegan samning við dagforeldrið um dvalartíma og gjald fyrir vistunina. Ákvörðun um vistun barnsins er ætíð á ábyrgð foreldra.

Gott er að hafa eftirfarandi í huga:

  • Foreldrar hringja í dagforeldra og kanna möguleika á plássi. Mikilvægt er að hafa samband við dagforeldra með góðum fyrirvara þar sem margir dagforeldrar eru með biðlista eftir plássum hjá sér.
  • Hafið samband við fleiri en eitt dagforeldri, sérstaklega ef um biðlista er að ræða.
  • Fáið ákveðinn heimsóknartíma í samráði við dagforeldra.
  • Gefið ykkur góðan tíma til að kanna aðstæður og verið óhrædd við að spyrja.
  • Þegar verið er að velja dagforeldra er ráðlagt að foreldri kynni sér vel þá þjónustu sem í boði er og kanni allar aðstæður á heimilinu sem nýttar eru til starfsins, t.d. leikaðstöðu bæði úti og inni, hvíldaraðstöðu og leikfangakost.

Gott að hafa eftirfarandi spurningar í huga

  • Hvar er börnunum ætlað leikrými, hvíldarrými?
  • Hvernig er útivistaraðstaðan?
  • Hentar húsnæðið ykkar kröfum t.d. hvað varðar hlýleika og snyrtimennsku?
  • Er leikfangakosturinn hæfilegur og hentugur?
  • Eru góðar aðstæður til að geyma fatnað, töskur og annað sem fylgir börnunum.

Mikilvægi góðrar aðlögunar
Aðlögun barns hjá dagforeldri skiptir sköpum og getur tekið mislangan tíma háð því hvaða barn á í hlut. Barnið er að fara úr aðstæðum sem það þekkir og er öruggt í, frá foreldrum sínum yfir í daggæslu þar sem þau þurfa, jafnvel í fyrsta sinn, að deila athyglinni með öðrum börnum. Það er því mjög eðlilegt að börnin bregðist misjafnlega við. Sum eru mjög ósátt til að byrja með á meðan önnur una glöð við sitt. Foreldrar þurfa því að athuga þarfir barnsins vegna þess að barnið þarf að geta treyst dagforeldrinu áður en það sleppir hendi af foreldrunum.

Þjónustustig dagforeldra
Daggæsla í heimahúsi á að vera góð og uppbyggileg fyrir barnið og skal vera rekin af fagmennsku og umhyggju fyrir börnum. Foreldrar ættu að hafa þetta í huga þegar þeir velja dagforeldri fyrir barnið sitt. Gott er að hafa að leiðarljósi að foreldrar eru að kaupa þjónustu af dagforeldrum og því eðlilegt að gera kröfur um gæði.

Samskipti við dagforeldra
Til að gæslan gangi vel og allir séu sáttir þurfa samskiptin að vera góð. Ef foreldrar eru ekki sáttir við eitthvað í daggæslunni þá þurfa þeir að ræða það við dagforeldrið án tafar. Það er ekki heppilegt fyrir barn að vera í daggæslu sem foreldrið er ekki sátt við eða treystir ekki fullkomlega. Hafa skal í huga að mörg mál eru mun smærri þegar þau eru rædd heldur en þegar þau veltast í huga manns og smámál hafa tilhneigingu til að vefja upp á sig frekar en hitt. Ef foreldrum og dagforeldrum tekst ekki að leysa úr málum er hægt að hafa samband við fulltrúa Akraneskaupstaðar sem mun þá leitast við finna lausn sem báðir aðilar eru sáttir við.

Eftirlit og öryggismál

Innra og ytra eftirlit
Í hverjum mánuði skila dagforeldrar yfirliti til Akraneskaupstaðar yfir þau börn sem eru í umsjá þeirra, með staðfestingu foreldra. Með undirskrift sinni eru foreldrar að staðfesta umsaminn dvalartíma og eða forföll dagforeldra í mánuðinum. Mánaðarleg skil þessa lista ásamt staðfestum vistunarsamningi og samþykktri niðurgreiðslubeiðni er forsenda þess að niðurgreiðsla sé veitt. Eftirlit er einnig í höndum dagforeldra og foreldra. Dagforeldri ber að sjá til þess að allur aðbúnaður sé í samræmi við lög og reglugerðir en verði foreldrar varir við að umönnun og/eða aðbúnaði barnsins sé ábótavant er þeim skylt að tilkynna það umsjónaraðila / daggæslufulltrúa sbr. reglugerð um daggæslu barna í heimahúsi nr. 907/2005 reglugerð um daggæslu í heimahúsi nr. 907/2005. 

Sérstakur eftirlitsaðili fer þrisvar sinnum á ári í óboðaðar heimsóknir á heimili dagforeldris og kannar aðstæður hverju sinni. Eftirlitsaðili kannar ástand öryggismála hjá dagforeldri, kannar fjölda barna í gæslu og að dagforeldrar séu með gildar slysatryggingar fyrir börnin sem eru í gæslunni. Eftirlitsaðili á Akranesi eru starfsmenn barnaverndarnefndar Akraneskaupstaðar

Upplýsingar frá foreldrum
Einu sinni á ári er með formlegum hætti aflað upplýsinga hjá foreldrum um viðhorf þeirra til daggæslunnar hjá dagforeldri. Ljóst er að  foreldrar hafa bestu aðstöðuna til að fylgjast með starfsemi dagforeldra þar sem þeir eru í daglegu sambandi við þá. Því er mjög mikilvægt að foreldrar svari könnun um viðhorf þeirra til daggæslu barna í heimahúsi, sem send er til foreldra á hverju ári.

Ráðgjöf í daggæslu
Ráðgjöfin felst annars vegar í fræðslu og ráðgjöf til dagforeldra og hins vegar í leiðbeiningum og upplýsingum til foreldra. Ráðgjöf og stuðningur til dagforeldra er í formi samtala, heimsókna og fræðslu. Einnig hafa dagforeldrar aðgang að daggæslufulltrúa með viðtölum og símtölum. Daggæslufulltrúi heldur reglulega fundi með dagforeldrum. Foreldrar hafa aðgang að daggæslufulltrúa með viðtölum og símtölum.

Þagnarskylda
Fullur trúnaður á að ríkja milli foreldris og dagforeldris um hagi hvors annars og þau börn og fjölskyldur þeirra sem hjá dagforeldri dvelja.

Öryggismál
Allir dagforeldrar sækja reglulega námskeið í eldvörnum og í hjálp í viðlögum. Það er skylda dagforeldra að sækja réttindanámskeið fyrir dagforeldra sem haldin eru á landsvísu. Nokkur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ásamt Akranesi halda einnig sameiginleg námskeið fyrir dagforeldra um ólík efni. Allir dagforeldrar eru með slysatryggingu fyrir þau börn sem hjá þeim dvelja. 

Í reglugerð um daggæslu segir að dagforeldri sé skylt að stuðla að öryggi barna í hvívetna, svo sem með því að hafa sjúkrakassa á heimilinu og barnalæsingu á skápum með hættulegum efnum. Nota skal beisli í barnavögnum og háum stólum. Allt er þetta gert til að tryggja öryggi barnsins í gæslunni.

Vistunargjald og niðurgreiðslur

Hvað á ég að borga fyrir daggæsluna?
Dagforeldri er sjálfstæður atvinnurekandi og hefur tiltæka gjaldskrá fyrir vinnu sína. Dagforeldrar hafa rétt á að vera með frjálsa gjaldskrá og hafa ekki heimild til að samræma hana sín á milli skv. samkeppnislögum. Benda skal á að dagforeldrar áskilja sér rétt til að krefjast aukagjalds ef barnið er fram yfir umsaminn vistunartíma.

Hvenær á ég að borga?
Greiðsla fyrir daggæslu er innheimt fyrirfram. Afsláttur vegna frídaga (eftir að frítökurétti dagforeldra lýkur) er reiknaður eftir á.

Af hverju þarf ég að kvitta á niðurgreiðslu eyðublöðin í hverjum mánuði?
Samkvæmt reglugerð um daggæslu í heimahúsi ber dagforeldrum að skila undirrituðum lista til sveitarfélags / daggæslufulltrúa með upplýsingum um þau börn sem í gæslu eru um hver mánaðarmót. Þetta er jafnframt liður í eftirlitshlutverki sveitarfélagsins. Með undirskrift sinni eru foreldrar að staðfesta að allar upplýsingar á listanum séu réttar.

Hvenær hefst niðurgreiðslan?
Niðurgreiðsla til einstæðra foreldra getur hafist þegar börn þeirra ná 6 mánaða aldri en niðurgreiðsla til giftra foreldra og foreldra í sambúð getur hafist þegar börn þeirra ná 11 mánaða aldri.

Hvernig er niðurgreiðslum háttað?
Akraneskaupstaður býður niðurgreiðslur til foreldra sem eru með börn sín hjá dagforeldri. Til að fá niðurgreiddan daggæslukostnað þurfa foreldrar m.a. að hafa lögheimili og fasta búsetu á Akranesi og hafa undirritað vistunarsamning við dagforeldra. Umsókn um niðurgreiðslur ásamt vistunarsamningi skal skilað til Akraneskaupstaðar. Niðurgreiðslur eru greiddar eftir á fyrir hvern mánuð,  1. hvers mánaðar.  Niðurgreiðslur eru eingöngu 11 mánuði á ári.

Spurt og svarað / Hver er réttur hvers?

Áður en gæsla hefst er mikilvægt að foreldrar og dagforeldrar fari yfir hver sé ábyrgð hvors aðila um sig meðan á dvöl barnsins í gæslunni stendur.

Hvernig geta foreldrar vitað hvort dagforeldri sé með gilt leyfi?
Allir dagforeldrar sem eru með daggæsluleyfi frá sveitarfélaginu eru með leyfisbréf því til staðfestingar. Á leyfisbréfinu kemur fram gildistími leyfis ásamt upplýsingum um fjölda barna sem leyfið gildir fyrir.

Eiga dagforeldrar rétt á veikindadögum eða frídögum?

Samkvæmt reglum um niðurgreiðslu vegna dvalar barna hjá dagforeldrum er dagforeldrum heimilt að taka leyfi frá daggæslu einn dag á ári sem nýtist til endur- og símenntunar án þess að niðurgreiðslur skerðist. Niðurgreiðslur falla ekki niður vegna tilfallandi veikeinda / vegna veikinda dagforeldris í allt að 10 daga á dvalarsamningstíma, ágúst-júní. Foreldrum er bent á að kynna sér vel  þessar reglur þar sem þær kveða á um ýmis réttindi og skyldur dagforeldra.

Af hverju geta börnin ekki verið inni eftir veikindi?
Samkvæmt ráðleggingum frá heimilislæknum eiga börn að dvelja heima hjá sér í 1 – 3 daga eftir veikindi, allt eftir eðli veikindanna. Dagforeldri þarf að geta sinnt útivistarþörf annarra barna í gæslunni og því getur það ekki sinnt því að hafa börn inni eftir veikindi.

Hvenær á dagforeldri að tilkynna forföll eða veikindi?
Í reglugerð um daggæslu í heimahúsum segir að geti dagforeldri af einhverjum ástæðum ekki unnið að daggæslunni skal það tilkynnt foreldrum þegar í stað. Á sama hátt segir að foreldrum beri að tilkynna dagforeldri um tilfallandi veikindi barns og að óheimilt sé að koma með veikt barn í gæslu.

Af hverju þarf ég að koma með barnið á tilteknum tíma?
Dagforeldrar starfa eftir skipulagi sem felur í sér að þeir reyna að gera svipaða hluti á svipuðum tíma dagsins. Þetta er gert til að barnið læri að þekkja hefðbundnar athafnir í daggæslunni og öðlist þar með öryggi í gæslunni. Því er mikilvægt að foreldrar virði það.

Af hverju má dagforeldri hafa útidyr á heimilinu sínu læstar á meðan börnin eru í gæslu?
Vinnustaður dagforeldra er jafnframt heimili þeirra og því er eðlilegt að þeir setji reglur um umgengni um húsnæðið. Í reglugerð um daggæslu segir að í samskiptum sínum við dagforeldri skulu foreldrar virða það að um heimahús er að ræða.

Hvert á ég að snúa mér ef mér finnst dagforeldrið mitt ekki vera að sinna sínu starfi?
Eðlilegast er að byrja á að ræða við dagforeldrið sjálft. Dagforeldri er í starfi hjá foreldrum og vilja fá að vita ef þeir, að mati foreldra, eru ekki að sinna þeirri þjónustu sem foreldrar og dagforeldrar hafa verið ásáttir um í byrjun vistunar. Ef foreldri hefur áhyggjur af heilsu eða aðbúnaði barna í daggæslunni ber honum skilyrðislaust að snúa sér til daggæslufulltrúa félagsþjónustunnar.

Mega dagforeldrar vera með gæludýr?
Daggæsla fer fram á heimili dagforeldra og það er ekkert í reglugerð um daggæslu sem bannar þeim það. Hins vegar skal dagforeldri, áður en samningur um vistun er gerður, gera foreldrum grein fyrir aðstæðum á heimilinu sem geta haft áhrif á líðan barns, t.d. ef gæludýr er á heimili. Meðhöndlun dýra skal vera í fullu samræmi við dýraverndunarlög.

Hvað á ég að gera ef ég sé að dagforeldri er með fleiri börn í gæslu heldur en leyfið segir til um?
Í því tilviki ber að tilkynna það þegar í stað til daggæslufulltrúa. Daggæsla í heimahúsi er leyfisskyld og á leyfisbréfi til daggæslu kemur fram hversu mörgum börnum leyfið gildir fyrir. Í reglugerð um daggæslu í heimahúsi kemur fram að leyfilegur skörunartími er á milli kl. 12 og 13 á daginn og þann tíma má leyfilegur fjöldi barna vera tveimur fleiri en fram kemur á leyfi dagforeldris. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00