Fara í efni  

Garðar og græn svæði

Langisandur og Sólmundarhöfði

Langisandur er um eins kílómetra löng strandlengja og hefur í gegnum tíðina gegnt miklu hlutverki í daglegu lífi bæjarbúa sem fjölbreytt útivistarsvæði. Göngu- og hjólastígur liggur meðfram Langasandi og er góð tenging milli bæjarhluta.  Á Sólmundarhöfða er óheft útsýni yfir Faxaflóa og þar má finna sögulegar minjar. Langisandur og Sólmundarhöfði eru í hverfisvernd vegna sérstöðu sinnar, landslags, náttúrufars og auðugs fuglalífs og hafa mikið útivistargildi. Aðgengi að Langasandi er á fjórum stöðum. Útisturta er á Langasandi og er hún opin yfir sumartímann. Salernisaðstaða er á tveimur stöðum, ofan við útisturtuna og í Akraneshöll.

Akrafjall

Akrafjall er einkar formfagurt og af því er mjög víðsýnt. Vinsælar gönguleiðir eru upp á Háahnúk (555m), sem er syðri tindurinn. Geirmundartindur (643m) er aðeins erfiðari til uppgöngu. Á Háahnúki, Geirmundartindi og Guðfinnuþúfu eru gestabækur sem mælt er með að göngufólk kvitti í. Akrafjall er eitt þeirra fjalla sem tiltölulega auðvelt er að ganga á og hentar því fjölskyldufólki sérstaklega vel. Það þarf ekki mikla reynslu eða dýran útbúnað til að ganga á Akrafjall þó nauðsynlegur hlífðarfatnaður og lágmarks þrek verði að vera til staðar. Að lokinni göngu er tilvalið að fara niður á Langasand, gera þar teygjuæfingar og láta svo þreytuna líða úr sér í heita pottinum og sundi í Jaðarsbakkalaug.

Garðalundur

Garðalundur er skammt ofan Byggðasafnsins í Görðum og við hlið golfvallarins. Í Garðalundi er fjölbreyttur gróður og margar trjátegundir. Mest áberandi eru þó hátt í sextíu ára gömul grenitré sem sjá til þess að þar sé alltaf gott skjól til útivistar. Einnig er að finna fallegar tjarnir í Garðalundi þar sem hægt er að veiða síli, fylgjast með öndum og fleiri fuglum, og jafnvel bregða sér á skauta á veturna. Í Garðalundi er að finna ýmis konar leiktæki fyrir börn á öllum aldri, strandblakvöll og sparkvelli. Einnig er þar grillskáli, frisbígolfvöllur og dótakista við stóran sandkassa með alls kyns leikföngum og áhöldum til útileikja sem gestum er frjálst að nota. Þar er einnig að finna Hreyfistöðvar sem geta stuðlað að aukinni hreyfingu gesta í Garðalundi

Akratorg

Akratorg hefur frá upphafi verið miðpunktur mannlífs og menningarviðburða á Akranesi. Á árinu 2013 var ákveðið að ráðast í breytingar á torginu og var það á 17. júní 2014 sem Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri opnaði Akratorgið formlega og Einar Benediktsson formaður framkvæmdaráðs setti nýjan gosbrunn af stað. Það voru landslagsarkitektar hjá Landmótun sem áttu heiðurinn að hönnun hins nýja Akratorgs. Aðalverktaki var Snjólfur Eiríksson garðyrkjumeistari á Akranesi en það var Kristbjörg Traustadóttir landslagsarkitekt sem hannaði gosbrunninn í samvinnu við Ingólf Hafsteinsson.

Elínarhöfði

Þjóðsagan segir að nafnið Elínarhöfði komi frá Elínu, systur Sæmundar fróða. Elín áttu eina systur að nafni Halla en hún bjó í Straumfirði á Snæfellsnesi. Elín flutti frá Odda á Suðurlandi árið 1104 þegar mikið eldgos varð í Heklu og settist að á Elínarhöfða. Þegar Elín vildi ná tali af systur sinni settist hún í sæti sitt við höfðann og veifaði klút sínum og Halla sat þá á Höllubjargi við Straumfjörð. Sagan segir að þær systur hafi rætt saman á þennan hátt, án allrar nútímatækni. Skemmtileg þjóðsaga glæðir Elínarhöfða skemmtilegum töfrum og gönguferð um Kalmansvík er ógleymanleg. Við Elínarhöfða er að finna listaverkið Elínarsæti eftir Guttorm Jónsson. Listaverkið var sett upp á þessum stað af Akraneskaupstað árið 2000. 

Breiðin

Breiðin er syðsti hluti Akraness og þar er að finna einn elsta steinsteypta vita landsins sem var reistur 1918. Vitarnir á Breiðinni eru tveir talsins en Akranesviti var reistur á árunum 1943-1944 og hefur hann verið opinn almenningi yfir sumartímann án endurgjalds. Á Breið eru líka gamlir skreiðarhjallar og greina má steinlagt stakkstæði þar sem saltfiskur var breiddur út á góðviðrisdögum áður fyrr. Á Breiðinni er fagurt útsýni yfir allan Faxaflóann, sérstaklega ef farið er alla leið upp í Akranesvita en þá sést frá Reykjanesskaga að Snæfellsjökli í góðu skyggni. Við vitana getur norðurljósadýrðin á veturna verið alveg einstök upplifun í góðum veðurskilyrðum og einnig er mjög fallegt að vera uppi í Akranesvita og fylgjast með sólinni setjast, njóta útsýnisins og litadýrðarinnar allan ársins hring.

Skógræktarsvæði

Skógræktarfélag Akraness eru með tvö svæði í sinni umsjón, Slaga sem er í suðvesturhlíð Akrafjalls, og svæði sunnanmegin við þjóðveg 509 í Garðaflóa. Hlutverk félagsins er að vinna að trjárækt, landbótum og gróðurvernd og stuðla að greiðu aðgengi að skógræktarsvæðum Akraness til heilsueflingar og útivistar. Félagið sér um alla umhirðu og trjárækt á svæðunum í samráði við Akraneskaupstað. Skógræktarfélagið hefur ætíð átt gott og náið samstarf við garðyrkjustjóra Akraneskaupstaðar sem allir hafa sýnt Skógræktarfélaginu mikinn áhuga og lagt því til gott starf. Í dag eru rúmlega 100 manns skráðir í Skógræktarfélagið. 

Leiksvæði

Á Akranesi eru 17 leiksvæði sem staðsett eru í öllum hverfum bæjarins og í göngufæri við heimilin. Leiksvæði við Grundaskóla er með sparkvöllum, körfuboltavelli, rólum og öðrum leiktækjum. Við Brekkubæjarskóla er stór klifurgrind, sparkvellir, aparóla og fleira. Á leikskólum Akraneskaupstaðar, Teigaseli, Garðaseli, Vallarseli og Akraseli, eru leiktæki fyrir yngstu kynslóðina, s.s. rólur, vegasölt, sandkassar og klifurgrindur. Þar að auki er leiksvæði í Garðalundi með m.a. rólum, aparólu, minigolfvöll, frisbígolfvöll og leikföngum sem geymd eru í kistu. Á tjaldsvæðinu í Kalmansvík eru rólur og leikkastali og á Merkurtúni eru rólur, ærslabelgur og önnur leiktæki. Við Langasand, bakvið Akraneshöllina er að finna ærslabelg og hreystitæki. Nýjasta æðið er síðan að leika sér í gosbrunninum á Akratorgi, sem var nýlega uppgert. 

Matjurtagarðar

Matjurta- og kartöflugarðar eru staðsettir í útjaðri bæjarins að norðanverðu. Árlega gefst bæjarbúum kostur á að taka reit á leigu en þeir sem hafa leigt áður hafa forgang. Löng hefð er fyrir kartöfluræktun á Akranesi og  þóttu þar sandgarðarnir á Niður-Skaganum einkar gjöfulir á árum áður. Sandgörðunum hefur fækkað mikið, aðeins einstaka garðar eru eftir við eldri hús á Skaga en ný garðlönd hafa reglulega verið unnin síðan. Akraneskaupstaður hefur í áratugi útbúið garðlönd og leigt bæjarbúum. Í dag eru í boði 90 reitir sem eru 100 fermetrar að stærð en einnig er hægt að taka hálfan reit á leigu (50 fermetra). 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00