Fara í efni  

Snyrting gróðurs á lóðarmörkum

Á haustin eru garðeigendur á Akranesi vinsamlega beiðnir um að snyrta trjágróður sem kominn er út fyrir lóðamörk. Þau tilmæli koma fyrst og fremst til þess að tryggja öruggar og greiðar leiðir um göngustíga bæjarins fyrir bæði hjólareiðendur og göngufólk. Einnig er þessi snyrting mjög nauðsynleg þegar kemur að snjómokstri og söltun um göngustíga á Akranesi. Garðeigendur eru sérstaklega hvattir til að kynna sér eftirfarandi reglur Akraneskaupstaðar:

Í 3.-5. mgr. 11. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akraneskaupstað kemur eftirfarandi fram:

Eiganda eða umráðamanni húss er skylt að fjarlægja af húsi sínu snjó og grýlukerti, sem fallið geta niður og valdið hættu fyrir vegfarendur.

Húseigendum er skylt að hlíta fyrirmælum bæjaryfirvalda um frágang girðinga o.þ.h. sem liggja að almannafæri. Einnig skal húsráðendum skylt að snyrta allan gróður, þ.m.t. trjágróður, sem liggur að almannafæri þannig að umferð vegfarenda sé óhindruð.

Gróður, s.s. tré, runnar o.s.frv. skulu ekki skaga út í eða út yfir gangstéttar, gangstíga eða götur, þó er heimilt að þau skagi út yfir, ef hæð þeirra er a.m.k. 2,8 m yfir gangstétt eða gangstíg, en 4,0 m yfir götu. Alltaf skal fjarlægja greinar frá lömpum á ljósastaurum, svo þeir lýsi óhindraðir á götur og stíga. Nánari reglur um skerðingu gróðurs skulu settar af tækni- og umhverfissviði Akraneskaupstaðar og kynntar bæjarbúum með tryggilegum hætti. Hlíti húseigandi eða lóðarhafi ekki fyrirmælum bæjaryfirvalda um frágang samkvæmt þessari grein er heimilt að láta vinna verkið á hans kostnað enda sé honum tilkynnt um það með hæfilegum fyrirvara.

Reglur um umgengni á lóðum

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum þann 13. október 2015, reglur um umgengni og þrifnað utanhúss á Akranesi. Með nýju reglunum er eigendum eða umráðamönnum húsa og lóða gert skylt að halda eignum vel við, hreinum og snyrtilegum þ.á.m. húsum, lóðum og girðingum. Þá er bannað er að skilja eftir, flytja eða geyma lausamuni á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu. Þetta gildir um smærri hluti og t.d. kerrur, bílhluta, bílflök, o.s.frv. Einnig er óheimilt að geyma báta, kerrur, skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja, tæki, vinnuvélar, bílflök eða aðra hluti á bifreiðastæðum sveitarfélagsins, við götur og/eða á almannafæri. Heilbrigðisnefnd Vesturlands er heimilt að láta fjarlægja slíka hluti á kostnað og ábyrgð eiganda að undangenginni viðvörun. Reglurnar byggjast á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00