Fara í efni  

Grunnskólar

Samkvæmt lögum um grunnskóla bera sveitarfélög ábyrgð á rekstri grunnskóla og kostnaði hans. Akraneskaupstaður ber ábyrgð á heildarskipan skólahalds í grunnskólum sveitarfélagsins, þróun einstakra skóla, húsnæði og búnaði grunnskóla, sérúrræðum grunnskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd grunnskólastarfs í sveitarfélaginu. Grunnskólanám er skylda og skulu öll börn og unglingar á aldrinum 6-16 ára sækja grunnskóla. Grunnskólanemendur eiga rétt á að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi meðan þeir eru í grunnskóla enda hafi þeir sýnt fullnægjandi færni.  Skólastjóri í grunnskóla veitir nemanda heimild til slíks náms utan skólans samkvæmt viðmiðum sem sett eru í aðalnámskrá. 

Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Á Akranesi eru starfandi tveir grunnskólar, Brekkubæjarskóli og Grundaskóli, með bekkjardeildum frá 1. til 10. bekk. Skólarnir starfa eftir lögum og reglugerðum um grunnskóla og skólastefnu Akraneskaupstaðar auk þess sem þeir starfa hvor eftir sínum áherslum og stefnum. 

Grunnskólar á Akranesi

Brekkubæjarskóli er annar tveggja heildstæðra grunnskóla á Akranesi. Nemendur skólans eru um 450 talsins, en starfsmenn tæplega áttatíu. Tíu bekkjardeildir eru í Brekkubæjarskóla, tveir bekkir í hverjum árgangi að jafnaði, en þrír í fjölmennustu árgöngunum. Haustið 2001 var tekin upp skólastefna í Brekkubæjarskóla sem ber heitið „Góður og fróður“ Skólinn hefur aðgang að Íþróttahúsinu við Vesturgötu til íþróttakennslu og sund er kennt í Bjarnalaug sem er innilaug. Frístund eftir skóla er að mestu í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Nánari upplýsingar má sjá hér á heimasíðu skólans

Grundaskóli telur um 650 nemendur og um 100 starfsmenn. Skólinn starfar eftir hugmyndafræðinni, Uppeldi til ábyrgðar - uppbygging sjálfsaga. Í Grundaskóla er mikil áhersla lögð á list- og verkgreinar og hefur kennsla frá upphafi farið fram eftir svokölluðu valkerfi þar sem nemendur ferðast á milli námsgreina þar sem lögð er áhersla á að sinna grunnmenntun samkvæmt námskrá auk þess sem lögð er áhersla á blöndun árganga og ýmis konar þemavinnu í bland við hefðbundin verkefni. Skólinn hefur aðgang að íþróttamiðstöðinni á Jaðarsbökkum til íþrótta- og sundkennslu. Nánari upplýsingar má sjá hér á heimasíðu skólans.

Skólahverfi á Akranesi – í hvaða skóla á barnið að innritast

Á Akranesi eru reglur um innritun skólabarna, skólahverfi og flutning milli skóla. Akranesi er skipt í tvö svæði sem tilheyra annars vegar Brekkubæjarskóla og hins vegar Grundaskóla. Mörkin milli svæðanna liggja um Þjóðbraut og Faxabraut. Skóla- og frístundasvið innritar nemendur sem eru að hefja nám í grunnskóla í þann grunnskóla sem tilheyrir viðkomandi nemanda í samræmi við búsetu. Foreldrum gefst tækifæri til að koma með athugasemdir við þá innritun og er hún metin í samvinnu við foreldra. Foreldrar nemenda sem hefja nám í öðrum bekkjum innrita börn sín hjá riturum grunnskólanna í samræmi við skólahverfi eða sækja um í íbúagáttinni. Reglurnar eru aðgengilegar í heild sinni hér. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00