Fara í efni  

Eignaskiptayfirlýsingar

Fulltrúi á skipulags- og umhverfissviði fer yfir og áritar allar eignaskiptayfirlýsingar áður en þinglýst er, til staðfestingar að þær séu unnar í samræmi við reglugerð eignaskiptayfirlýsingar nr.910/2000.

Upplýsingar um eignaskiptayfirlýsingar

Hvað er eignaskiptayfirlýsing?

Eignaskiptayfirlýsing er lögboðinn skriflegur samningur um skiptingu í fjöleignarhúsi. Hún er gerð á grundvelli fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, með síðari breytingum, og skilgreinir lýsingu á húsinu og lóð þess. Hún segir til um skiptingu eigna í séreignir, sameign allra og sameign sumra. Hún tilgreinir hlutdeild hvers eignarrýmis í sameign og markar grundvöll að réttindum og skyldum eigenda innbyrðis gagnvart eignarhlutum húss og lóðar.

Hvenær á að gera eignaskiptayfirlýsingu?

 

Gera skal eignaskiptayfirlýsingu um fjöleignarhús og lóðir þeirra ef ekki liggur fyrir áður gerð þinglýst, fullnægjandi og vel skilgreind eignaskiptayfirlýsing. Eignaskiptayfirlýsing skal undirrituð af eigendum eða stjórn húsfélagsins skv. 2. mgr. 16 gr. fjöleignarhúsalaga. Henni skal þinglýst að fenginni staðfestingu byggingarfulltrúa þar um, sem áritar hana, sbr. 26. og 27. gr. reglugerðar nr. 910/2000. Eignaskiptayfirlýsing öðlast gildi við þinglýsingu. Afsal vegna fasteignaviðskipta fæst ekki þinglýst nema það sé í samræmi við fyrirliggjandi eignaskiptayfirlýsingu.

Hvenær er þörf á nýrri eignaskiptayfirlýsingu?

Ekki er þörf á að gera nýja eignaskiptayfirlýsingu ef þinglýstur eignaskiptasamningur er fyrir hendi, sem tilgreinir a.m.k. séreignir og hlutfallstölur í þeirra sameign og er ekki í bága við ófrávíkjanleg ákvæði fjöleignarhúsalaga, og eigendur vilja hafa hann áfram til grundvallar í skiptum sínum. Sérhver eigandi getur lagt fram formlega kröfu um eignaskiptayfirlýsingu. Um mat á hvort fyrirliggjandi samningur sé fullnægjandi vísast til ákvæða í 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 910/2000. Einstök atriði og ákvæði eldri eignaskiptayfirlýsingar sem fara í bága við ófrávíkjanleg ákvæði fjöleignarhúsalaga skulu þoka fyrir þeim, sbr. 77. gr. þeirra laga.

Réttur til þess að krefjast nýrrar eignaskiptayfirlýsingar

Sérhver eigandi, sem telur gildandi hlutfallstölur fyrir húsið rangar eða samninginn ófullnægjandi eða rangan að öðru leyti, getur krafist þess að ný eignaskiptayfirlýsing verði gerð í samræmi við gildandi fyrirmæli fjöleignarhúsalaga og 7. gr. reglugerðar nr. 910/2000. Sama gildir þegar enginn þinglýstur eignaskiptasamningur eða eignaskiptayfirlýsing liggja fyrir.

Hverjir gera eignaskiptayfirlýsingar?

Þeir einir hafa heimild til að taka að sér að gera eignaskiptayfirlýsingar sem uppfylla lögmæt skilyrði og hafa fengið til þess leyfi frá umhverfisráðherra. Lista yfir leyfishafa er að finna á vef velferðarráðuneytisins.

Innihald og efnisatriði

Í eignaskiptayfirlýsingu skal skipting húss koma glöggt fram og tilgreint hvað tilheyrir hverjum eignarhlut, hvort um sé að ræða séreign, sameign allra eða sameign sumra og hvaða eignarhlutar tilheyra sameign. Í eignaskiptayfirlýsingu skal einnig greina frá forsendum hennar og þeim gögnum sem hún er byggð á og fylgja henni. Sé um að ræða frávik eða afbrigði frá venjulegri tilhögun eða útfærslu skal þess glögglega getið. Í eignaskiptayfirlýsingu skulu auk þessa koma fram þau atriði sem upp eru talin í 8. gr. reglugerðar nr. 910/2000.

Fylgigögn

Fylla skal út beiðni um staðfestingu á eignaskiptayfirlýsingu og með eignaskiptayfirlýsingu skal fylgja lóðauppdráttur, grunnmyndir og sniðmyndir af hverri hæð hússins, þar sem hvert rými er merkt í samræmi við skráningarreglu. Með eignaskiptayfirlýsingu skal fylgja útfylltur gátlisti sem hægt er að nálgast hér. Skráningartafla skal fylgja eignaskiptayfirlýsingu. Öll ofangreind gögn sem fylgja eignaskiptayfirlýsingunni skulu vera af stærðinni A4.

Staðfesting byggingarfulltrúa

Byggingarfulltrúi eða fulltrúi hans skal staðfesta allar eignaskiptayfirlýsingar og er áritun hans þar að lútandi skilyrði fyrir því að þeim verði þinglýst. Staðfesting byggingarfulltrúa er gerð með dagsettri áritun, nafnritun og embættisstimpli á fjögur eintök og þar af eitt til þinglýsingar.
Í áritun byggingarfulltrúa felst staðfesting á viðtöku eignaskiptayfirlýsingar, að hún hafi verið yfirfarin og sé í samræmi við reglugerð og lög um fjöleignarhús og fyrirliggjandi gögn hjá embætti hans. Í staðfestingu byggingarfulltrúa felst hins vegar ekki viðurkenning eða samþykki á þeim breytingum á húsi eða notkun þess sem gerðar kunna að hafa verið án tilskilinna byggingarleyfa.

Meðferð eignaskiptayfirlýsingar hjá byggingarfulltrúa

Tekið er á móti eignaskiptayfirlýsingum til yfirferðar og staðfestingu hjá embætti byggingarfulltrúa að Stillholti 16 - 18, Akranesi. Með eignaskiptayfirlýsingu skal fylgja útfylltur gátlisti sem hægt er að nálgast hér. Skila skal inn skráningartöflu rafrænt til skipulags- og umhverfissviðs á netfangið Fulltrúar á skipulags- og umhverfissviði í síma 433-1000 eða á netfanginu akranes@akranes.is. . Þeir sem þetta gera fá með sama hætti athugasemdir ef einhverjar eru og upplýsingar um yfirferð. Við fyrstu yfirferð er nægilegt að skila inn einu eintaki. Viðbótareintökum skal skilað inn þegar samningurinn hefur að fullu verið leiðréttur. Hægt er að nálgast upplýsingar um stöðu yfirferðar á sama netfangi.

Afgreiðsla staðfestinga:

Byggingarfulltrúi afgreiðir eignaskiptayfirlýsingu svo fljótt sem auðið er og jafnan innan tveggja vikna frá því að hún berst honum. Sé um flóknar og viðamiklar eignaskiptayfirlýsingar að ræða getur byggingarfulltrúi tekið sér lengri afgreiðslutíma. Sama gildir ef verulegir ágallar á eignaskiptayfirlýsingu og fylgiskjölum hennar kalla á lengri afgreiðslutíma. Tekið er gjald fyrir yfirferð eignaskiptayfirlýsinga.

Fjöldi eintaka og þinglýsing

Eignaskiptayfirlýsingu skal afhenda að loknum leiðréttingum í fjórum samhljóða eintökum. Eitt eintak er varðveitt hjá byggingarfulltrúa, eitt eintak er sent á Þjóðskrá Íslands, 2 eintök, þ.á.m. eitt á löggiltum pappír, fer í þinglýsingu og fær eigandi stimplað eintak að lokinni þinglýsingu. Að auki skal skila skráningartöflunni inn rafrænt eins og að framan greinir.

Þinglýstar eignaskiptayfirlýsingar er hægt að nálgast hjá Sýslumanninum á Vesturlandi, á netfanginu vesturland@syslumenn.is

Við mat á yfirferð er áhersla lögð á neðangreind atriði

 

 • Að yfirlýsing sé í samræmi við lög nr. 26/1994 og reglugerð nr. 910/2000.
 • Að yfirlýsingin sé glögg og greinileg og kaflaskipt (samkvæmt leiðbeiningarriti FMR).
 • Að útreikningar og hlutfallstölur séu réttar (útreikningar að hlutfallstölum skulu fylgja).
 • Að skráningarnúmer og eignarnúmer séu rétt.

Forsendur þess að mál séu tekin fyrir

 

 • Að eignaskiptayfirlýsing sé gerð af löggiltum aðila.
 • Að beiðni um staðfestingu og gátlisti sé rétt útfyllt.
 • Að öll tilskilin fylgigögn séu vandlega frágengin.

Frekari upplýsingar veita

Fulltrúar á skipulags- og umhverfissviði í síma 433-1000 eða á netfanginu akranes@akranes.is

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00