Fara í efni  

Deiliskipulag

Deiliskipulag er skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Deiliskipulag skal gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu. Við gerð deiliskipulags skal byggt á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi svæði eða reit.

Gildandi deiliskipulag hjá Akraneskaupstað

Á Skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar er hægt að skoða gildandi aðal- og deiliskipulag á landinu öllu út frá staðsetningu á korti eða með því að slá inn leitarorð efst í hægra horni. Hægt er að leita eftir heimilsfangi, örnefni eða sveitarfélagi. Allar upplýsingar um Akranes má finna á hér í vefsjá Skipulagsstofnunar.

Gerð deiliskipulags

Sveitarstjórn ber ábyrgð á gerð deiliskipulags. Skipulagsnefnd sveitarfélags annast gerð deiliskipulags í umboði sveitarstjórnar. Landeigandi eða framkvæmdaaðili getur óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Með samþykkt slíkrar tillögu gerir sveitarstjórn deiliskipulagið að sínu og ber ábyrgð á framfylgd þess.

Deiliskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt í sveitarstjórn og birt í Stjórnartíðindum.

Kostnaður við gerð deiliskipulags greiðist af viðkomandi sveitarfélagi, nema í þeim tilvikum þegar landeigandi eða framkvæmdaaðili fær heimild til að vinna deiliskipulagstillögu á sinn kostnað.

Ferli deiliskipulagsgerðar

Lýsing
Í upphafi vinnu að deiliskipulagi tekur skipulagsnefnd sveitarfélagsins saman lýsingu fyrir deiliskipulagsverkefnið þar sem gerð er grein fyrir tildrögum skipulagsvinnunnar og hvernig fyrirhugað er að standa að skipulagsgerðinni. Ef landeigandi eða framkvæmdaaðili stendur að deiliskipulagsvinnunni, vinnur hann lýsingu og leggur fyrir sveitarstjórn. Lýsing er samþykkt í sveitarstjórn.

Lýsingin er kynnt opinberlega og almenningur fær tækifæri til að koma ábendingum á framfæri við sveitarfélagið. Samtímis er leitað umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila.

Tillaga deiliskipulags
Deiliskipulagstillaga er unnin í samræmi við lýsingu skipulagsverkefnisins og með hliðsjón af þeim ábendingum sem borist hafa frá almenningi og umsagnaraðilum á fyrri stigum.

Við gerð deiliskipulags eru umhverfisáhrif metin og niðurstöður umhverfismatsins nýttar við endanlega mótun skipulagstillögunnar. Deiliskipulagstillaga skal unnin í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Samráð í vinnsluferlinu fer eftir eðli og umfangi skipulagstillögunnar.

Þegar skipulagstillaga er fullgerð er hún samþykkt af sveitarstjórn til formlegrar auglýsingar og hefur almenningur þá tækifæri til að koma á framfæri skriflegum athugasemdum.

Fullunnið deiliskipulag
Þegar frestur til athugasemda er liðinn tekur skipulagsnefnd afstöðu til athugasemda og leggur fram endanlega tillögu til samþykktar í sveitarstjórn. Deiliskipulagið ásamt fylgiskjölum er síðan sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.

Deiliskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Sé deiliskipulag ekki auglýst til gildistöku í Stjórnartíðindum innan árs frá því að athugasemdafresti við deiliskipulagstillögu lauk, þarf að auglýsa deiliskipulagstillöguna á ný til kynningar og athugasemda.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00