Fara í efni  

Barnaverndarþjónusta

 
                                                                                                   

Öll börn eiga rétt á vernd og umönnun. Einstaklingar teljast börn til 18 ára aldurs. Þau njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærgætni. Þeim ber jafnframt að gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Foreldrum ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Aðrir aðilar sem koma að uppeldi barna skulu sýna þeim virðingu og umhyggju.

Barnavernd Akraneskaupstaðar starfar samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Markmið laganna er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Unnið er að því að ná þessum markmiðum með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við.

Nánari upplýsingar veitir Sólveig Sigurðardóttir, deildarstjóri farsældarþjónustu barna bæði í síma 433 1000 og í tölvupósti á netfangið solveigs@akranes.is 

Barnaverndartilkynning

Samkvæmt barnaverndarlögum ber hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu að tilkynna það barnaverndaryfirvöldum í því sveitarfélagi sem barnið býr. Starfsmenn barnaverndar Akraneskaupstaðar taka við barnaverndartilkynningum á skrifstofutíma í síma 433-1000. Utan þess tíma er bent á neyðarlínuna 112 þar sem unnt er að koma á framfæri barnaverndartilkynningum og fá samband við starfsmann á bakvakt barnaverndar í neyðartilvikum. Einnig er hægt er að koma tilkynningum á framfæri á netfangið barnavernd@akranes.is. Vinsamlegast látið nafn og símanúmer fylgja með. 

Nafnleynd

Samkvæmt 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2001 verður hver sá sem tilkynnir til barnaverndarnefndar að segja á sér deili. Tilkynnandi getur óskað eftir nafnleynd gagnvart öðrum en nefndinni og skal það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því.

Könnun barnaverndarmáls

Þegar barnaverndarnefnd fær barnaverndartilkynningu skal hún taka ákvörðun innan sjö daga frá því henni barst tilkynning, um hvort ástæða sé til að hefja könnun á málinu. Ákvörðun barnaverndarnefndar um að hefja könnun máls eða að láta mál niður falla er hvorki kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála né annars stjórnvalds. Barnaverndarnefnd skal tilkynna foreldrum að tilkynning hafi borist. Markmið könnunar er að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Nefndin skal leggja áherslu á að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, andlegt og líkamlegt ástand, tengsl við foreldra og aðra, hagi foreldra, aðbúnað barns á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Þetta gera starfsmenn með viðtali við forsjáraðila, með því að biðja um umsögn um stöðu barns frá leikskóla eða skóla, með því að fá upplýsingar frá ættingjum eða vinum sem þekkja barnið, með heimsókn á heimili, með viðtali við barn og upplýsingum frá sérfræðingum sem hafa komið að málefnum barnsins. Að könnun lokinni setur nefndin saman greinargerð þar sem niðurstöðum könnunar er lýst og tiltekið hvort einhverra úrbóta er þörf og settar fram tillögur að heppilegum úrræðum.

Áætlun um meðferð barnaverndarmáls

Ef könnun á máli barns leiðir í ljós að þörf er á úrbótum skal barnaverndarnefnd í samvinnu við foreldra og eftir atvikum barn sem hefur náð 15 ára aldri, gera skriflega áætlun um meðferð málsins. Haft er samráð við yngri börn eftir þroska þeirra og aldri. Áætlun er gerð til ákveðins tíma og er endurskoðuð eftir þörfum.

Úrræði í barnaverndarmáli

Stuðningsúrræði með samþykki foreldra
Barnaverndarnefnd skal eftir atvikum leiðbeina foreldrum varðandi uppeldi og aðbúnað barns, stuðla að því að úrræðum verði beitt í samvinnu við aðrar stofnanir, útvega barni viðeigandi stuðning eða meðferð, útvega barni eða fjölskyldu tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu og aðstoða foreldra eða þungaða konu við að leita sér meðferðar vegna veikinda, áfengis- eða vímuefnavanda eða annara persónulegra vandamála.

Barnaverndarnefnd getur með samþykki foreldra og barns sem hefur náð 15 ára aldri tekið við forsjá eða umsjá barns og ráðstafað barni í fóstur, eða vistað barn utan heimilis á heimili eða stofnun eða leitað annarra úrræða.

Úrræði án samþykkis foreldra
Ef barnaverndarnefnd metur það svo að úrræði hafi ekki skilað árangri eða að úrræði séu ófullnægjandi þá getur nefndin úrskurðað í máli barns gegn vilja foreldra. Þannig getur nefndin kveðið á um eftirlit með heimili, gefið fyrirmæli um aðbúnað, umönnun, dagvistun, skólasókn, læknisþjónustu, rannsókn, meðferð eða þjálfun barns. Nefndin getur ákveðið að ekki megi fara með barn úr landi. Ef brýnir hagsmunir barns mæla með því getur barnaverndarnefnd úrskurðað gegn vilja foreldra um að barn skuli vera kyrrt í allt að tvo mánuði á þeim stað þar sem það dvelst. Nefndin getur einnig kveðið á um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði.

Neyðarráðstafanir
Velferðar- og mannréttindasvið Akraneskaupstaðar hefur ráðið neyðarvistunaraðila sem sér um vistun barna á Akranesi í neyðartilfellum. Um er að ræða skammtímavistun á meðan unnið er að því að finna önnur úrræði.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00