Fara í efni  

Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar 2024 og vegna tímabilsins 2025 - 2027

Ár mikillar uppbyggingar

Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2024 og þriggja ára áætlun 2025 til 2027 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Akraness þriðjudaginn 12. desember síðastliðinn (sjá hér). Einnig var fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun samþykkt.

Helstu atriði fjárhagsáætlunar 2024 eru:

  • Gert er ráð fyrir óbreyttu útsvari á árinu 2024, eða 14,74%.
  • Gjaldskrár hækka um 7% fyrir utan sérstakar ákvarðanir í einstaka gjaldskrám.
  • Álagningarprósentur fasteignaskatta verða 0,2467% fyrir íbúðarhúsnæði og 1,4678% fyrir atvinnuhúsnæði.
  • Lóðarleiga af nýjum lóðum og endurnýjuðum samningum verður 1,199% af fasteignamatsverði atvinnulóða og 0,3034% af fasteignamatsverði íbúðarhúsalóða

Rekstrarafkoma Akraneskaupstaðar á árinu 2023 er áætluð að verði jákvæð um 68,5m.kr. Gert er ráð fyrir að rekstarhagnaður verði 82,2 m.kr. á árinu 2024. Rekstrarafkoma næstu ára þ.e. á árunum 2024 til 2027 er áætluð að meðaltali 69 m.kr. Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar gerir ráð fyrir umfangsmiklum fjárfestingum næstu árin og er fyrirhuguð lántaka vegna þess á næstu fjórum árum áætluð 5.856 m.kr. Samhliða því er fyrirhugað að greiða niður langtímalán að fjárhæð 830 m.kr. og greiðslu lífeyrisskuldbindingar að fjárhæð 1.084 m.kr. til árins 2027.

Akraneskaupstaður mun viðhalda ábyrgri fjármálastefnu og sjá til þess að vera innan þeirra fjárhagslegu viðmiða sem gerð eru til sveitarfélaga, þ.e. að rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára (samanlögð rekstrarafkoma á þriggja ára tímabili) verður jákvæður sem nemur 48 m.kr. í árslok 2024. Fjárhagsáætlunin gerir jafnframt ráð fyrir því að rekstrarjöfnuður muni nema rúmum 193 m.kr. í árslok 2027 þrátt fyrir umtalsverðar fjárfestingar í innviðum bæjarins á þeim tíma og aukningu rekstargjalda s.s. vegna nýs íþróttahúss á Jaðarsbökkum, framkvæmda við báða grunnskóla og annara viðamikilla fjárfestingarverkefni.

Skuldaviðmið sveitarfélagsins, þ.e. heildarskuldir og skuldbindingar A- og B- hlutans sem hlutfall af reglulegum tekjum mun fara hækkandi samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarins. Áætlað skuldaviðmið sveitarfélagsins í árslok 2024 mun nema 66% en hámark sveitarfélaga er 150% af reglulegum tekjum þess. Fjárhagsáætlun Akranes gerir ráð fyrir því að skuldaviðmiðið fari hækkandi og muni verða um 71% í lok árs 2027. Veltufjárhlutfall samstæðunnar hefur verið sterkt hjá sveitarfélaginu en er áætlað er að það fari lækkandi árin 2025 og 2026 og nemi 0,68 árslok 2026. Veltufjárhlutfall segir til um hversu vel í stakk búið sveitarfélagið er til þess að mæta nauðsynlegum greiðslum á næstu 12 mánuðum og á helst ekki að vera undir 1,0 til lengri tíma litið. Veltufjárhlutfall sveitarfélagsins fer síðan hækkandi eftir 2026 og áætlað er að veltufjárhlutfallið nemi 1,0 í árslok 2027.

Áætlað er að setja um um 2.405 m.kr. í fjárfestingar á árinu 2024 og eru 6.091 m.kr. fyrirhugaðar í fjárfestingar og framkvæmdir á næstu fjórum árum.

Meðal fjárfestinga- og uppbyggingaverkefna á árinu 2024:

  • Menntun og frístundamál: Endurbætur á Brekkubæjarskóla munu halda áfram, þar sem 1 hæð skólans verður að mestu leyti endurnýjuð. Ennfremur mun framkvæmdir við endurbætur á C álmu Grundaskóla halda áfram af fullum krafti.
  • Íþróttir: Uppsteypu við nýtt íþóttahús á Jaðarsbökkum er lokið. Nú tekur við innri frágangur og lóðaframkvæmdir, ásamt undirbúningi að kaupum á lausum búnaði. Endurbætur á íþróttasal við íþróttahúsið á Vesturgötu vegna loftgæðavandamála eru í gangi og stefnt að því að þeim ljúki næsta haust.
  • Velferð og mannréttindi: Stefnt er að því að bjóða út byggingarrétt á Dalbraut 8 á árinu. Í húsinu er reiknað með að verði 43 íbúðir fyrir ofan fyrstu hæð þess. Á fyrstu hæðinni er reiknað með Samfélagsmiðstöð sem mun hýsa starfsemi Fjöliðjunnar (hæfingarhluti), Þorpsins og Hver Starfsendurhæfingarmiðstöðvar. Uppbygging á nýjum íbúðakjarna með 6 íbúðum mun hefjast á árinu.
  • Götur og stígar: Gatnaviðgerðir eru fyrirhugaðar við Kalmansvelli ásamt því sem stefnt er að klára hönnun vegna breytinga á Kirkjubraut (milli Stillholts og Merkigerðis). Ný gatnagerð verður fram haldið í Flóahverfi og Skógarhverfi auk þess sem byrjað verður á frekari gatnagerð við Sementsreit. Nýframkvæmdir vegna gangastétta munu halda áfram í Skógahverfi í takt við uppbyggingu hverfisins.
  • Atvinnutengd verkefni: Fyrirhuguð er áframhaldandi sókn í atvinnuuppbyggingu í samstarfi við þróunarfélögin á Breið og Grundartanga í formi frekari styrkingu rannsóknar- og nýsköpunarstarfsemi sem félögin styðja þétt við. Jafnframt er fyrirhuguð uppbyggingu græns iðngarðs með hringrásarhugsun á Grundartanga, en Þróunarfélagið á Grundartanga og fyrirtæki á svæðinu hafa undirritað viljayfirlýsingu þess efnis. Verið er að skipuleggja Jaðarsbakkasvæðið þar sem stefnan er að rísi hótel, baðlón og heilsulind, en þetta verkefni verður unnið áfram í samstarfi við ÍA, KFÍA og Ísold Fasteignafélag ehf. Fyrirhugað er að stofna miðlæga einingu fyrir Græna iðngarða í Flóahverfi, t.d. í formi klasafélags, sem mun leiða verkefni sem tengjast sameiginlegum rekstri fyrirtækja í iðngörðunum.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fyrirhugaðar fjárfestingar Akraneskaupstaðar á næstu árum:

 

 

Að sögn Haraldar Benediktssonar bæjarstjóra hefur Akraneskaupstaður ekki farið varhluta af hækkandi vaxtastigi og verðbólgu í landinu, auk þess sem ýmis merki eru um að það sé að hægjast á uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis sem hefur áhrif á tekjuhlið rekstrar sveitarfélagsins. Því er fjárhagsáætlun ársins 2024 varfærin og tekur mið af óvissu um þróun efnahagsmála, ekki síst vegna náttúruhamfara sem við öll verðum vitni af.

Fjárhagur Akraneskaupstaðar hefur um langt árabil skilað afgangi, en á síðasta ári var í fyrsta sinn í langan tíma halli á rekstri bæjarins. Því er nú lögð sérstök áhersla á varfærni og ábyrgð í áætlunargerð með það að markmiði að styrkja stoðir fjárhags sveitarfélagsins enn frekar.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00