Fara í efni  

Bæjarstjórn

1384. fundur 12. desember 2023 kl. 18:00 - 21:35 í Miðjunni, Dalbraut 4
Nefndarmenn
  • Valgarður L. Jónsson forseti bæjarstjórnar
  • Einar Brandsson 1. varaforseti
  • Ragnar B. Sæmundsson 2. varaforseti
  • Líf Lárusdóttir aðalmaður
  • Guðmundur Ingþór Guðjónsson aðalmaður
  • Liv Aase Skarstad aðalmaður
  • Sædís Alexía Sigurmundsdóttir aðalmaður
  • Jónína Margrét Sigmundsdóttir aðalmaður
  • Kristinn Hallur Sveinsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá
Forseti býður fundarmenn velkomna til fundar.

Forseti óskar eftir, með vísan til c. liðar 15. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar nr. 696/2013, að tekið verði inn með afbrigðum mál nr. 2301005 Fundargerðir 2023 - skipulags- og umhverfisráð. 284. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 4. desember 2023 sbr. dagskrárlið nr. 10.

Dagskrárliðir þar fyrir aftan færast aftur um einn lið verði afbrigðin samþykkt.

Samþykkt 9:0

1.Höfði fjárhagsáætlun 2024 - 2027

2310307

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 7. desember sl. að vísa fjárhagsáætlun Höfða vegna ársins 2024 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2025 til og með 2027 til síðari umræðu í bæjarstjórn Akraness.
Forseti gerir tillögu um að mál nr. 1, nr. 2 og nr. 3 verði tekin til umræðu saman.
Gerð verði grein fyrir framvindu fundarins varðandi afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar undir dagskrárlið nr. 3 en einnig fært sérstaklega til bókar atkvæðagreiðsla á fjárhagsáætlun Höfða undir lið nr. 1 og fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun undir lið nr. 2.

Ekki var hreyft við andmælum við tillögu forseta.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir fjárhagsáætlun Höfða vegna ársins 2024 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2025 til og með 2027.

Samþykkt 9:0

2.Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2024 - 2027

2309268

Bæjarráð samþykkti á fundi þann 7. desember sl. að vísa fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun vegna ársins 2024 og þriggja árá áætlun vegna tímabilsins 2025 til og með 2027 til síðari umræðu í bæjarstjórn Akraness.
Bæjarstjórn Akraness samþykkir fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun vegna ársins 2024 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2025 til og með 2027.

Samþykkt 7:0 , 2 sitja hjá (EBr og KHS)

3.Fjárhagsáætlun 2024 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2025-2027

2306146

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 7. desember sl. að vísa fjárhagsáætlun ársins 2024 og þriggja ára áætlun vegna áranna 2025 til og með 2027 ásamt tillögum sem meðfylgjandi eru áætluninni til síðari umræðu í bæjarstjórn Akraness.
SA sem gerir grein fyrir helstu breytingum á milli umræðna sem og helstu forsendum fjárhagsáætlunarinnar.

Framhald umræðu:
LL, RBS sem leggur fram bókun Framsóknar og frjálsra:

Starf bæjarfulltrúa byggir á samvinnu, samvinnu við aðra kjörna fulltrúa, íbúa, atvinnulífið, ríkisvaldið og aðra hagaðila. Það er gefandi og lærdómsríkt þegar vel gengur en ekki síður þegar gefur á bátinn.

Sú fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun sem nú er til afgreiðslu er gott dæmi um samvinnu. Áætlunin er metnaðarfull en í henni er líkt og síðustu ár lögð megináhersla á áframhaldandi innviðauppbyggingu helstu grunnstoða samfélagsins og er hún því í takt við þær áherslur sem Framsókn og frjálsir hafa talað fyrir. Þar ber helst að nefna:

-
Endurbætur og stækkun á Grundaskóla.
-
Endurbætur á fyrstu hæð Brekkubæjarskóla.
-
Íþróttahús við Jaðarsbakka.
-
Endurbætur á sal íþróttahússins við Vesturgötu.
-
Samfélagsmiðstöð, en skv. áætlun er ráðgert að bjóða út byggingarrétt árið 2025 og að framkvæmdum verði lokið árið 2027.
-
Bygging íbúðakjarna í Skógarhverfi.
-
Uppbygging á Jaðarsbökkum til að styrkja svæðið til heilsueflingar og útivistar m.a. með endurbótum á aðalvelli og stúku, ný innisundlaug og uppbygging æfingasvæðis.
-
Gatnagerð í nýjum hverfum ásamt endurbótum í eldri hverfum.
-
Bygging hefst á nýjum leikskóla á Neðri Skaga á tímabilinu 2026-2028.

Árið 2021 ákvað bæjarstjórn að farið yrði í úttekt á rekstri og stjórnsýslu kaupstaðarins með aðstoð KPMG, markmiðið var að stuðla að sjálfbærni í rekstri bæjarfélagsins. Þegar ársreikningur ársins 2022 var lagður fram hvöttu bæjarfulltrúar Framsóknar og frjálsra meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar til þess að vinna á grunni úttektarinnar og er sú vinna að hefjast að nýju, sem er góð ákvörðun og jafnframt mjög mikilvæg í ljósi erfiðrar rekstrarstöðu sveitarfélagsins. Það er ljóst að það þarf að gera betur, miklu betur. Að bíða og sjá hvort birti til um síðir er ekki ásættanlegt.

Framlegðarhlutfall ársins er undir viðmiðunarmörkum líkt og á síðasta ári og á það hefur Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitafélaganna bent. Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir því að hlutfallið muni ekki vænkast fyrr en við lok áætlunarinnar 2027. Ljóst er að þetta gefur því miður ekki góða mynd af greiðsluhæfni sveitafélagsins. Þá er launahlutfall Akraneskaupstaðar enn og aftur með því hæsta sem þekkist meðal sveitarfélaga og gjöld halda áfram, líkt og á síðasta ári, að vaxa umfram tekjur. Á þessari neikvæðu þróun þarf að taka á þegar í stað.

Mikilvægt er að lagt verði kapp á að hækka tekjur umfram kostnað, öfugt við þá þróun sem verið hefur á þessu kjörtímabili. Því er mikilvægt að ráðast strax í hverskonar aðgerðir sem stuðlað geta að sjálfbærni í rekstri kaupstaðarins sem fyrr segir, annars liggur það ljóst fyrir að sú framkvæmdaráætlun sem nú er til umræðu verður aldrei meira en metnaðarfullir draumar á blaði.

Hlutverk okkar kjörnu fulltrúa er að tryggja ábyrga fjármálastjórnun. Okkur ber skylda til þess að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að viðhalda stöðugleika í fjármálum kaupstaðarins, sýna skynsemi og varkárni í útgjöldum og stuðla sem fyrr segir að sjálfbærni í rekstri verði náð.

Tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Metnaðarfull innviðauppbygging síðustu ára og áætlun næstu ára, ætti að tryggja það að kaupstaðurinn sé í stakk búinn að takast á við töluverðan vöxt, á sama tíma og þjónusta við núverand íbúa sé tryggð. Áframhaldandi áhersla á gatnagerð í nýjum hverfum, þrátt fyrir að tímabundið hafi dregið úr eftirspurn eftir lóðum, skapar svo bæjarfélaginu ákveðna sérstöðu þegar litið er til framboðs lóða og uppbyggingu innviða í þeim sveitarfélögum sem við helst berum okkur saman við.

Bæjarfulltrúar Framsóknar og frjálsra kölluðu eftir því að mótuð yrði heildarstefna fyrir Akraneskaupstað. Meirihlutinn svaraði því kalli og fyrir það erum við þakklát. Nú hillir undir að þeirri vinnu ljúki á allra næstu vikum. Skýr stefna er eitt af lykilforsendum framfara. Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar 2024-2027 sem við ræðum hér í dag talar beint inn í stefnuna. Með öflugri og lifandi stefnumörkun, skýrari forgangsröðun verkefna í takt við fjárhagslega getu sveitarfélagsins á hverjum tíma, tryggjum við samfélagslega velsæld, stöðugan rekstur og sjálfbæra uppbyggingu til framtíðar.

Ragnar Sæmundsson (sign)
Liv Aase Skarstad (sign)
Sædís Alexía Sigurmundsdóttir (sign)

Framhald umræðu:
EBr, KHS, RBS, VLJ úr sæti forseta, JMS sem leggur fram bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar:

Í fjárhagsáætlun ársins 2024 er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma A- hluta bæjarsjóðs verði jákvæð um rúmar 208 milljónir króna og að rekstrarafkoma A- og B- hluta verði jákvæð um samtals rúmar 82 milljónir króna. Á sama tíma gerir fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun ráð fyrir fjárfestingum upp á rúmlega 3,4 milljarða króna sem sýnir glögglega metnað bæjarstjórnar til að halda áfram uppbyggingu mikilvægra innviða með það að markmiði að Akranes verði áfram í fremstu röð sveitarfélaga í að bjóða upp á góða þjónustu fyrir íbúa á öllum aldri.

Engum dylst að á undanförnum árum hefur hægt verulega á vexti í íslensku efnahagslífi og enn sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Áhrif hækkandi verðbólgu og vaxta verða æ sjáanlegri í rekstri Akraneskaupstaðar og eins og áætlaðar afkomutölur sýna, þá er það orðið talsverð áskorun fyrir bæjarstjórn að láta enda ná saman frá ári til árs. Undir lok síðasta kjörtímabils fór fram vinna við greiningu á fjármálum kaupstaðarins þar sem ráðgjafafyrirtækið KPMG var fengið til að rýna í stöðuna. Á næsta ári fer í gang áframhaldandi vinna þar sem markmiðið er að fá aðgerðaáætlun fyrir okkur að taka afstöðu til, en til þess nota ráðgjafarnir meðal annars reynslu af sams konar verkefnum með öðrum sveitarfélögum. Viðbúið er að slíkt verði erfitt og kalli á erfiðar ákvarðanir, en það er líka nauðsynlegt. Grunnurinn að því að við getum haldið áfram að byggja upp samfélagið okkar er traustur rekstur. Við ætlum ekki að skorast undan því að styrkja reksturinn.

Gjaldskrár kaupstaðarins hækka almennt um 7% og einstaka gjaldskrár hækka meira en það. Undanfarin ár hefur bæjarstjórn komið til móts við heimilin á Akranesi með því að lækka álagningarprósentur fasteignagjalda, með það að markmiði að draga úr áhrifum hækkunar fasteignamats á upphæð fasteignagjalda. Einnig höfum við haldið aftur af öðrum gjaldskrárhækkunum og má þar nefna að í síðustu fjárhagsáætlun hækkuðu leikskólagjöld og gjaldskrá félagslegrar heimaþjónustu ekkert á milli ára. Því miður getur þetta ekki orðið raunin í ár og sjáum við okkur ekki annað fært en að þessar gjaldskrár hækki eins og aðrar. Náist samkomulag um þjóðarsátt á árinu, með aðkomu aðila vinnumarkaðarins, ríkis og sveitarfélaga, mun ekki standa á okkur að endurskoða okkar áætlanir og þar með talið gjaldskrárhækkanir.

Þar sem rekstur bæjarsjóðs hefur verið og verður áfram mikil áskorun til okkar bæjarfulltrúa, hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt nú að við sameinumst um framtíðarsýn og forgangsröðun verkefna ásamt því að styrkja tekjuöflun kaupstaðarins. Áfram munum við, rétt eins og önnur sveitarfélög, horfa til til leiðréttingar á fjármögnun ríkisins á málaflokki fatlaðs fólks, aukið fjármagn til rekstur hjúkrunarheimila og áhrif mögulegra breytinga á fyrirkomulagi Jöfnunarsjóðs.

Stærstu fjárfestingarverkefni næsta árs eru áframhald uppbyggingar á nýju íþróttahúsi við Jaðarsbakka, endurbygging á hluta húsnæðis Grundaskóla, endurbætur á húsnæði Brekkubæjarskóla og stórfelldar viðgerðir á íþróttahúsinu við Vesturgötu. Þá er áætlað að á næstu árum verði farið í byggingu á tveim nýjum íbúðakjörnum fyrir fatlaða, þar sem kaupstaðurinn veitir stofnframlag inn í þær framkvæmdir. Þá má einnig nefna að á næstu árum verður unnið að verulegum framkvæmdum í gatnagerð, en í fjárfestingaáætlun er gert ráð fyrir að á árinu 2024 verði lagðar nýjar götur fyrir um 660 milljónir króna og þeirri gatnagerð svo haldið áfram næstu ár þar á eftir.

Undirbúningur að byggingu Samfélagsmiðstöðvar, framtíðarhúsnæðis fyrir Fjöliðjuna, Hver og Þorpið heldur áfram á árinu 2024. Framkvæmdir við rýmingu á byggingarreit eru langt komnar. Ætlunin er að bjóða úr á árinu 2024 byggingarrétt á lóð samfélagsmiðstöðvar og er ætlunin að Akraneskaupstaður verði kaupandi að jarðhæð þeirrar byggingar.

Við, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar þökkum bæjarfulltrúum Framsóknar og frjálsra fyrir gott samstarf í ráðum og nefndum við gerð fjárhagsáætlunar áranna 2024 - 2027. Jafnframt þökkum við bæjarstjóra og embættismönnum bæjarins fyrir afar gott samstarf og þeirra mikla vinnuframlag við gerð þessarar fjárhagsáætlunar.

Sú fjárhagsáætlun sem hér liggur fyrir færir okkur sannarlega áskoranir í hendur, en við vonum og vitum að við sem sitjum í bæjarstjórn getum tekist á við þær áskoranir með samstöðu, jákvæðni og heiðarleika að vopni, Akranesi og Akurnesingum öllum til heilla.

Valgarður L. Jónsson (sign)
Líf Lárusdóttir (sign)
Jónína M. Sigmundsdóttir (sign)
Guðm. Ingþór Guðjónsson (sign)
Kristinn Hallur Sveinsson (sign)
Einar Brandsson (sign)

Ekki frekari umræða og gengið til atkvæðagreiðslu.

Forseti ber upp eftirfarandi tillögur:

1. Álagning gjalda 2024.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að eftirfarandi forsendur verði lagðar til grundvallar álagningu útsvars, fasteignagjalda og lóðaleigu á árinu 2024:

a. Álagt útsvar verði 14,74% vegna launa ársins 2024.
Samþykkt 9:0

b. Álagningarprósentur vegna fasteignaskatts verða eftirfarandi á árinu 2024:

i. 0,2467% af álagningastofni íbúðarhúsa ásamt lóðarleiguréttindum erfðafestulanda og jarðeigna skv. a-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
Samþykkt 9:0

ii. 1,3200% af öllum fasteignum skv. b-lið 3. greinar laga laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
Samþykkt 9:0

iii. 1,4678% af öllum öðrum fasteignum skv. c-lið 3. greinar laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
Samþykkt 9:0

c. Gjald vegna meðhöndlunar úrgangs verður kr. 42.814 fyrir hverja íbúð.
Gjöldin verði innheimt með fasteignagjöldum.

Samþykkt 9:0
Tekið skal fram að vegna breyttar löggjafar og fyrirkomulags í málaflokknum verður gjaldskráin tekin upp á árinu í kjölfar niðurstöðu útboðs sorpmála sem er væntanlega nú á vormánuðum.

d. Lóðarleiga af nýjum lóðum og endurnýjuðum samningum verði 1,199% af fasteignamatsverði atvinnulóða og 0,3034% af fasteignamatsverði íbúðarhúsalóða og verði innheimt með fasteignagjöldum.
Samþykkt 9:0

e. Lóðarleiga af eldri lóðum (samningar dagsettir fyrir 1. janúar 2004) sem lögð er á hvern fermetra (m2) lóðar tekur viðmið af breytingum sem verða á byggingarvísitölu.
Samþykkt 9:0

f. Gjalddagar fasteignagjalda á árinu 2024 verði 15. janúar, 15. febrúar, 15. mars, 15. apríl, 15. maí, 15. júní, 15. júlí, 15. ágúst, 15. september og 15. október en eindagi gjaldanna verði 30 dögum síðar eða næsta virkan dag beri hann upp á helgidag.

Heildargjöld sem nema lægri fjárhæð en kr. 25.000 innheimtast með einum gjalddaga á ári, þann 15. apríl 2024.
Samþykkt 9:0

g. Veitt verði ívilnun á fasteignaskatti á árinu 2024, til elli- og örorkulífeyrisþega í samræmi við sérstakar reglur bæjarstjórnar um lækkun og niðurfellingu fasteignaskatts tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega.
Samþykkt 9:0

2. Þjónustugjaldskrár 2024.
Samkvæmt samþykktum bæjarstjórnar Akraness hækka þjónustugjaldskrár Akraneskaupstaðar 1. janúar ár hvert í samræmi við áætlaða hækkun vísitölu neysluverðs samkvæmt forsendum fjárhagsáætlunar sem byggir m.a. á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands, gögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og greiningargögnum viðskiptabankanna. Heimilt er með sértækri ákvörðun að víkja frá hinni almennu hækkun.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að þjónustugjaldskrár Akraneskaupstaðar hækki um 7,0% þann 1. janúar 2024 nema annað sé sérstaklega tilgreint í viðkomandi gjaldskrá.

Með vísan til framangreinds samþykkir bæjarstjórn eftirfarandi gjaldskrár vegna ársins 2024:

A. Gjaldskrá leikskóla, hækkun samkvæmt grunnforsendum, hækkun sem nemur 7%.
Samþykkt 9:0

B. Gjaldskrá vegna skólamáltíða, grunn- og leikskóla, sértæk ákvörðun um hækkun einstaka gjaldaliða umfram grunnforsendur.
Samþykkt 9:0

C. Gjaldskrá frístundar, hækkun samkvæmt grunnforsendum, hækkun sem nemur 7%.
Samþykkt 9:0

D. Gjaldskrá dagstarfs, hækkun samkvæmt grunnforsendum, hækkun sem nemur 7%.
Samþykkt 9:0

E. Gjaldskrá Tónlistarskóla Akraness, hækkun samkvæmt grunnforsendum, hækkun sem nemur 7%.
Samþykkt 9:0

F. Gjaldskrá íþróttamannvirkja, sértæk ákvörðun um hækkun einstaka gjaldaliða umfram grunnforsendur.
Samþykkt 9:0

G. Gjaldskrá Guðlaugar, sértæk ákvörðun um hækkun einstaka gjaldaliða umfram grunnforsendur.
Samþykkt 9:0

H. Gjaldskrá fyrir heimaþjónustu og heimsendingu matar, sértæk ákvörðun um hækkun einstaka gjaldaliða umfram grunnforsendur.
Samþykkt 9:0

I. Gjaldskrá Bókasafns Akraness, hækkun samkvæmt grunnforsendum, hækkun sem nemur 7%.
Samþykkt 9:0

J. Gjaldskrá Héraðsskjalasafns Akraness, hækkun samkvæmt grunnforsendum, hækkun sem nemur 7%.
Samþykkt 9:0

K. Gjaldskrá Ljósmyndasafns Akraness, hækkun samkvæmt grunnforsendum, hækkun sem nemur 7%.
Samþykkt 9:0

L. Gjaldskrá Byggðasafnsins í Görðum, hækkun samkvæmt grunnforsendum, hækkun sem nemur 7%.
Samþykkt 9:0

M. Gjaldskrá um hundahald á Akranesi, hækkun samkvæmt grunnforsendum, hækkun sem nemur 7%.
Samþykkt 9:0

N. Gjaldskrá um kattahald á Akranesi, hækkun samkvæmt grunnforsendum, hækkun sem nemur 7%.
Samþykkt 9:0

O. Gjaldskrá Akranesvita, sértæk ákvörðun um hækkun einstaka gjaldaliða umfram grunnforsendur.
Samþykkt 9:0


P. Gjaldskrá vegna meðhöndlunar úrgangs íbúðarhúsnæðis á Akranesi (sorpgjald), sértæk ákvörðun um hækkun einstaka gjaldaliða umfram grunnforsendur. sbr. lið 1. c. hér að framan.
Samþykkt 9:0


3. Stjórnmálasamtök á Akranesi 2024.
Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkir með vísan til 5. gr. laga nr. 162/2006 að ráðstafa 2,0 m.kr. til starfsemi stjórnmálaflokka á Akranesi.
Samþykkt 9:0

Bæjarstjórn Akraness samþykkir fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar vegna ársins 2024 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2025 - 2027, ásamt tillögum.

Samþykkt 9:0

Fjárhagsáætlun 2024 gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu samstæðu A- og B- hluta Akraneskaupstaðar að fjárhæð um 82,2 m.kr. og að handbært fé í árslok verði um 962,3 m.kr.

4.Húsnæðisáætlun 2024

2305204

Húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar 2024 lögð fyrir bæjarstjórn Akraness til endanlegar ákvörðunar.
Til máls tóku:
EBr, VLJ úr stóli forseta, RBS og EBr.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar vegna ársins 2024.

Samþykkt 9:0

5.Gámasvæði á Breið

2311024

Samningur Sæljóns, félags smábátaeigenda á Akranesi, Brims, Akraneskaupstaðar og Faxaflóahafna varðandi afnot og rekstur lóðanna Hafnarbrautar 15 og Breiðargötu 3 (gámasvæðið á Breið).
Bæjarstjórn Akraness samþykkir fyrirliggjandi samning með framkomnum athugasemdum varðandi efni samkomulagsins og ábendingum um nauðsynlegar textaleiðréttingar.

Samþykkt 9:0

6.Barnaþing 2023

2311335

Ályktun barna- og ungmennaþings, sem haldið var dagana 7. til og með 9. nóvember 2023, lögð fyrir bæjarstjórn Akraness.
Til máls tóku:
Forseti les upp ályktun barna- og ungmennþings.
JMS.

Bæjarstjórn Akraness þakkar öllum þeim börnum og ungmennum sem þátt tóku nýafstöðnu barna- og ungmennaþingi, fyrir þeirra framlag til þessa mikilvæga málefnis og fyrir þá brýningu sem fram kemur í ályktuninni.

Bæjarstjórn Akraness er vel meðvituð um mikilvægi þess að ábendingarnar í ályktuninni skili sér í sem mestum mæli í aðgerðaráætlun vegna innleiðingar Barnasáttmálans hjá Akraneskaupstað og að þær verði unnar í samráði við fulltrúa barna- og ungmenna.

Ályktunin lögð fram.

7.Fundargerðir 2023 - bæjarráð

2301002

3549. fundur bæjarráðs frá 30. nóvember 2023.

3550. fundur bæjarráðs frá 7. desember 2023.
Til máls tóku:
SAS um fundargerð nr. 3549, fundarliði nr. 4 og nr. 7.
LL um fundargerð nr. 3549, fundarlið nr. 7.
VLJ úr stóli forseta um fundargerð nr. 3549, fundarlið nr. 7.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynnningar.

8.Fundargerðir 2023 - skóla- og frístundaráð

2301004

228. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 20. nóvember 2023.

229. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 6. desember 2023.
Til máls tóku:
JMS um fundargerð nr. 228, dagskrárliði nr. 1, nr. 2 og nr. 3.
JMS um fundargerð nr. 229, dagskrárlið nr. 7.
LÁS um fundargerð nr. 228, dagskrárlið nr. 1.
EBr um fundargerð nr. 223, dagskrárlið nr. 1.
SAS um fundargerð nr. 228, dagskrárliði nr. 1 og nr. 6.
SAS um fundargerð nr. 229, dagskrárlið nr. 7.
VLJ úr stóli forseta um fundargerð nr. 229, dagskrárlið nr. 7.
LÁS um fundargerð nr. 229, dagskrárlið nr. 7.
JMS um fundargerð nr. 228, dagskrárlið nr. 2.
JMS um fundargerð nr. 229, dagskrárlið nr. 7.
EBr um fundargerð nr. 229, dagskrárlið nr. 7.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynnningar.

9.Fundargerðir 2023 - velferðar- og mannréttindaráð

2301003

215. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 5. desember 2023.
Til máls tók:
KHS um dagskrárliði nr. 1., nr. 5 og nr. 7.

Fundargerðin lögð fram til kynnningar.

10.Fundargerðir 2023 - skipulags- og umhverfisráð

2301005

284. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 4. desember 2023.
Til máls tóku:

GIG um dagskrárlið nr. 1.
SAS um dagskrárliði nr. 1, nr. 2. og nr. 5.
LÁS um dagskrárlið nr. 1.
SA um dagskrárlið nr. 1.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

11.Fundargerðir 2023 o.fl. - Höfði hjúkrunar- og dvalarheimili

2301024

Fundargerð stjórnar Höfða frá 27. nóvember 2023 ásamt fylgiskjölum.
Fundargerðin lögð fram til kynnningar.

12.Fundargerðir 2023 - Faxaflóahafnir

2301018

236. fundargerð stjórnar Faxaflóahafna frá 23. október 2023.
Fundargerðin lögð fram til kynnningar.

13.Fundargerðir 2023 - Heilbrigðisnefnd Vesturlands og fylgiskjöl

2301017

187. fundargerð heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 4. desember 2023.
Fundargerðin lögð fram til kynnningar.

14.Fundargerðir 2023 - Samband íslenskra sveitarfélaga tilkynningar

2301031

938. fundur stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 24. nóvember 2023.

939. fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 5. desember 2023.
Til máls tók:
EBr um fundargerð nr. 939, dagskrárlið nr. 1.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynnningar.
Forseti óskar bæjarfulltrúum og fjölskyldum þeirra sem og öllum bæjarbúum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Forseti þakkar bæjarfulltrúum fyrir samstarfið á árinu 2023 og hlakkar til áframhaldandi samstarfs á nýju ári.

Fundi slitið - kl. 21:35.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00