Fara í efni  

Vökudagar hefjast í dag

Helga Ólöf Oliversdóttir tekur þátt í Vökudögum í ár með ljósmyndasýninguna Kaffibolli á kóvidtímum …
Helga Ólöf Oliversdóttir tekur þátt í Vökudögum í ár með ljósmyndasýninguna Kaffibolli á kóvidtímum - Ein á ferð í heimsfaraldri í gluggum Tónlistarskólans á Akranesi

Menningarhátíðin Vökudagar hefst í dag. Það er einkennileg tilviljun að Covid-19 skuli setja strik í reikninginn einmitt þegar hátíðin er haldin í 19. sinn en Vökudagar fóru fyrst fram árið 2002. 

Dagskrá hátíðarinnar, sem stendur til 8. nóvember, er talsvert frábrugðin dagskrá fyrri ára. Samt sem áður gætir fjölbreytni í efnistökum og aldursdreifing þátttakenda er mikil, allt frá leikskólabörnum til eldri borgara. Reynt er eftir fremsta megni að stefna fólki ekki saman á þröngum tímaramma svo auðvelt sé að virða bæði fjöldatakmarkanir og nálægðarreglur hverju sinni. Svokallaðar gluggasýningar setja sterkan svip á hátíðina í ár og geta gestir hátíðarinnar því skoðað fjölda sýninga vítt og breytt um bæinn óháð opnunartímum. Á Bókasafni Akraness, Gallerí Bjarni Þór og Leirbakaríinu verða jafnframt sýningar sem hægt er að sækja á opnunartíma safnsins. Þá verður jafnframt boðið upp á listsýningar á netinu, tónleika, skipulagðar göngur og söngstund í streymi og svo eitthvað sé nefnt. Bókmenntakvöld Bókasafns Akraness verður á sínum stað en í streymi að þessu sinni. Þá má nefna að kveikt verður óvenju snemma á jólaljósum víða um bæinn í ár.

Meðal nýjunga í ár er útiljósmyndasýning Friðþjófs Helgasonar en hann er sá fyrsti sem sýnir á nýjum undirstöðum sem kaupstaðurinn festi nýverið kaup á. Sýning Friðþjófs er staðsett við þann hluta Langasands sem næstur er Dvalarheimilinu Höfða.

Það verður ekki ítrekað of oft að í núverandi ástandi geta orðið breytingar á viðburðum eða þeir fallið niður með stuttum fyrirvara. Nýjustu upplýsingar um hvern viðburð er ávallt að finna á viðburðadagatali Akraness á Skagalíf. Fyrir þá sem þekkja þá síðu ekki þá birtast viðburðir á forsíðu og til að sjá alla skráða viðburði skal velja" SJÁ ALLA VIÐBURÐI".

Að lokum minnum við á að við erum öll almannavarnir. Fylgjum tilmælum sóttvarnaryfirvalda og verum góð hvert við annað.

Góða skemmtun!

Dagskrá Vökudaga

 

 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00