Fara í efni  

Ásmundur Ólafsson hlýtur Menningarverðlaun Akraness 2018

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri, Ásmundur Ólafsson handhafi Menningarverðlauna Akraness 2018 og Ól…
Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri, Ásmundur Ólafsson handhafi Menningarverðlauna Akraness 2018 og Ólafur Páll Gunnarsson formaður menningar og safnanefndar. Mynd: Myndsmiðjan.

Ólafur Páll Gunnarsson, formaður menningar- og safnanefndar setti menningarhátíðina Vökudaga við upphaf tónleikanna Af fingrum fram sem fram fóru í Tónbergi, sal Tónlistarskóla Akraness, í kvöld. Af því tilefni veitti hann jafnframt Ásmundi Ólafssyni Menningarverðlaun Akraneskaupstaðar 2018 en þau eru veitt ár hvert í tengslum við Vökudaga og voru í kvöld veitt í tólfta skipti. 

Menningarverðlaun Akraness eru almennt veitt þeim sem hefur skarað fram úr á einhverju sviði menningar í bæjarfélaginu. Þau eru m.a. veitt þeim er staðið hafa vörð um menningararfleifð Akraness og haldið sögu bæjarins á lofti.  

Ásmundur hefur um langt skeið lagt stund á greinaskrif um merka atburði og framfaramál í sögu Akraness og birt m.a. í útvarpi, tímaritum og blöðum. Árið 2016 var gefin út bókin Á Akranesi: Þættir um sögu og mannlíf með úrvali úr greinarsafni hans um þar sem í forgrunni er atvinnusaga og mannlíf á Akranesi á tuttugustu öld. Þá hefur hann einnig grúskað í ættfræði og samið niðjatöl.

Viðfangsefnin í greinaskrifum Ásmundar eru einstaklega fjölbreytt en hann hefur þó kannski fyrst og fremst fengist við að lýsa þróun samfélags á Akranesi þegar nútíminn hélt innreið sína með umbyltingu atvinnuhátta. Umfjöllun hans um áfanga í tæknivæðingu landbúnaðar og útgerðar er ómetanlegt framlag í skráningu á sögu Akraness og þar ber sérstaklega að geta samantekt hans um frumkvöðla og annað drífandi fólk af öllum stigum sem sett hefur mark sitt á bæinn.

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri afhendi Ásmundi Ólafssyni viðurkenningu þessu til staðfestingar ásamt verðlaunagrip eftir listakonuna Kolbrúnu Kjarval.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00