Fara í efni  

Ruth fær viðurkenningu fyrir æskulýðsstarf

Ljósmynd frá Gaman Saman.
Ljósmynd frá Gaman Saman.

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg.Á ráðstefnunni Íslenskar æskulýðsrannsóknir sem fór fram föstudaginn 20. nóvember sl. voru veittar viðurkenningar fyrir æskulýðsstarf. Viðurkenning í flokki nýsköpun og þróun í æskulýðsstarfi hlaut Ruth Jörgensdóttir Rauterberg yfirþroskaþjálfi í frístundamiðstöðinni Þorpinu, fyrir vinnu sína við að þróa tómstundastarf fyrir alla. Ruth hefur frá árinu 2007 unnið í Þorpinu að því að efla þátttöku fatlaðra barna í tómstundastarfi. Aðalmarkmið hennar í starfi hefur verið að efla tengsl fatlaðra barna í klúbbastarfi Þorpsins við ófatlaða jafnaldra sína. Ruth hefur í gegnum árin þróað samvinnulíkan sem byggir á rannsóknum hennar á þeim tækifærum sem finna má í tómstundastarfi til að efla samvinnuferli. Frá 2009 hefur Ruth stýrt klúbbastarfi fyrir 10-12 ára börn á Akranesi eftir þessari hugmyndafræði undir heitinu ,,Gaman saman” en það er samvinnuverkefni þar sem áhersla er á tómstundir fyrir alla. Þar geta allir tekið þátt og notið sín á eigin forsendum, allir eru virkir og framlag hvers og eins er mikilvægt fyrir hópinn.

Svo vitnað sé til orða Ruthar sjálfrar í umfjöllun um eigin rannsókn þá læra börn um grunnþætti lýðræðislegs samfélags í gegnum virka þátttöku og samvinnu. Í tómstundastarfi gefst tækifæri til að skapa vettvang, þar sem allir geta verið virkir þátttakendur og öðlast þar með sjálfstraust, sjálfsþekkingu og félagslega viðurkenningu. Þar liggur kjarni öflugs æskulýðsstarfs að mati Æskulýðsráðs og Ruth því vel að viðurkenningunni komin. Þess má geta að Ruth fékk viðurkenningu frá Akraneskaupstað árið 2013 fyrir framúrskarandi starf að æskulýðsmálum fyrir verkefnið ,,Gaman saman".


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00