Fara í efni  

Velheppnuð ráðstefna um nýsköpun og atvinnu á Vesturlandi

Akraneskaupstaður, Landbúnaðarháskóli Íslands og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi stóðu fyrir glæsilegri ráðstefnu laugardaginn 23. mars síðastliðinn. Ráðstefnan var með yfirskriftina nýsköpun, öflugt atvinnulíf og lifandi samfélag. Á henni voru mörg fræðandi örerindi frá öflugum aðilum sem hafa allir mismunandi bakgrunn og sýn á þessa þætti. 

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir ráðherra setti ráðstefnuna þar sem hún fjallaði um mikilvægi nýsköpunar. Nýsköpun á ekki að aðskilja frá öðrum þáttum þar sem hún tvinnast inn í allt sem við gerum og minnti hún á að enginn atvinnuvegur er þar undanskilinn. Á eftir fylgdu 11 örerindi sem voru öll með ólíka nálgun á efni ráðstefnunnar. Farið var yfir ólíkar nálganir til nýsköpunar, styrki til rannsókna, drifkraft, einkenni frumkvöðla, loftslagsmál, breyttar áherslur með komandi kynslóð og margt fleira. Viðmælendur voru sammála um mikilvægi nýsköpunar sem drifkraft inn í atvinnulífið. Það er greinilegt að Akranes, og Vesturland í heild sinni, býr yfir mörgum ónýttum tækifærum. Það verður gaman að fylgjast með því hvernig frumkvöðlar á Vesturlandi nýta sér þessi ófáu og spennandi tækifæri til að byggja upp atvinnu á svæðinu. 

Á ráðstefnunni undirrituðu Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Elkem Ísland, Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit og Þróunarfélagið Grundartanga samning um stofnun og rekstur Nýsköpunarseturs á Grundartanga. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir ráðherra vottaði samninginn. Tilgangur með stofnun og rekstri Nýsköpunarsetursins á Grundartanga er að styðja við nýsköpun í atvinnulífi. Nýsköpunarsetrinu er ætlað að auðvelda frumkvöðlum með hugmyndir að nýsköpun og raungera viðskiptahugmyndir sínar og hraða ferlinu frá því að hugmynd verður til og þar til rekstur hefst. Hugmyndirnar sem unnið verður með á Nýsköpunarsetrinu eiga að vera tengdar nýsköpun á sviði orku eða umhverfismála og hafa það að markmiði að leiða til verðmætasköpunar fyrir núverandi eða framtíðarstarfsemi á Grundartanga þjóðinni til heilla. 

Að loknum örfyrirlestrum voru pallborðsumræður þar sem rætt var hvaða búkosti fólk horfir á þegar það velur sér stað til að búa á, áhrif 4 Iðnbyltingar á samfélagið og hvað fyrirtæki og ríkisstofnanir geti gert til að auka uppbyggingu atvinnulífs. 

Akraneskaupstaður þakkar öllum þeim sem tóku þátt í þessum degi með okkur. 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00