Fara í efni  

Vel heppnuð afmælishátíð

Á myndinni sem Jónas Ottósson tók má sjá Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra, Helgu Sjöfn Jóhannesdóttu…
Á myndinni sem Jónas Ottósson tók má sjá Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra, Helgu Sjöfn Jóhannesdóttur formann ÍA og dóttur hennar Uni Guðrúnu, Hörð Kára Jóhannesson forstöðumann íþróttamannvirkja og Hildi Karen Aðalsteinsdóttur framkvæmdastjóra ÍA

Á laugardaginn 26. nóvember var haldið upp á 40 ára afmæli Íþróttahússins við Vesturgötu, en það var vígt árið 1976, og 70 ára afmæli Íþróttabandalags Akraness. Bæjarbúum var boðið að skoða aðstöðuna í íþróttahúsinu og aðildarfélögin kynntu starfsemi sína. Einnig gafst gestum kostur á að spreyta sig í nokkrum greinum, eins og badminton, boccia, fimleikum, hnefaleikum, karate, keilu, klifri, kraftlyftingum, körfubolta og skotfimi.

Í erindi Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra Akraness á afmælishátíðinni kom meðal annars fram að bygging íþróttahússins hafi verið mikið stórvirki á sínum tíma og var annað stærsta íþróttahús á landinu þegar það var vígt en einungis Laugardalshöll var stærri. Í húsinu voru landsleikir, meðal annars vináttulandsleikur í handbolta við Dani árið 1981 sem Íslendingar unnu 32:21. Íþróttahúsið hafi einnig verið notað í menningarviðburði og þegar Akranesbær varð 50 ára árið 1992, þá spiluðu bæði hljómsveitirnar Black Sabbath og Jethro Tull í húsinu á tónleikunum Skagarokk.

Helga Sjöfn Jóhannesdóttir formaður Íþróttabandalags Akraness minnti á hið mikla gildi sem ÍA hefur í samfélaginu á Akranesi með bráðum 19 aðildarfélög og á þriðja þúsund iðkendur. Mikilvægt sé að halda merki ÍA á lofti og sem lið í því að gera bandalagið sýnilegra hafi þjónustumiðstöð ÍA verið flutt í endurbætta aðstöðu í íþróttahúsið við Vesturgötu.

Á opna deginum var afhjúpaður ljóðaveggur með myndum og ljóði eftir Skagakonuna Sigurbjörgu Þrastardóttur. Ljóðið má finna hér.

Bæjarstjóri þakkaði Herði Jóhannessyni forstöðumanni hússins og starfsfólkinu fyrir frábæran undirbúning að opna deginum í samstarfi við forsvarsmenn ÍA og færði Herði, Helgu Sjöfn Jóhannesdóttur formanni ÍA og Hildi Karen Aðalsteinsdóttur framkvæmdastjóra ÍA blómvendi í þakklætisskyni auk þess að færa Herði gjafabréf til að endurnýja öryggisbúnað í húsinu. Áður hafði bæjarstjórn fært Íþróttabandalaginu 500.000 kr. að gjöf til eflingar Minningarsjóðs Guðmundar Sveinbjörnssonar í tilefni af 70 ára afmælinu, en markmið sjóðsins er að styrkja íþróttalíf á Akranesi. Gjöfin var afhent á hátíðarfundi ÍA síðastliðið vor.

Nánar er fjallað um hátíðina á vef Íþróttabandalags Akraness


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00