Fara í efni  

Vefurinn 300Akranes formlega opnaður

Vefurinn 300Akranes var formlega opnaður í dag þann 27. janúar. Vefurinn hefur verið í undirbúning og vinnslu í dágóðan tíma hjá Akraneskaupstað og er það fyrirtækið ONNO sem sér um uppsetningu og hönnun vefsins.

300Akranes er úthlutunarvefur atvinnu- og íbúðalóða á Akranesi og sýnir helstu svæði sem eru til uppbyggingar á Akranesi á næstu árum, þ.e. Sementsreitur, Flóahverfi, Dalbrautarreitur og Skógarhverfi. Vefurinn er enn í þróun og var verkefninu skipt upp í nokkra áfanga.

Fyrsti áfangi er það sem opnað var fyrir í dag, þ.e. heildarvefur sem er skilvirkur og aðlaðandi og kemur til skila gagnlegum upplýsingum um Akranes og byggingarsvæði. Í þessum fyrsta áfanga er hægt að skoða upplýsingar um atvinnulóðir í Flóahverfinu sem eru tilbúnar til úthlutunar. ONNO sá um gerð þrívíddarlíkans af svæðinu og er virknin þannig að auðvelt er að skoða upplýsingar um lóðir sem eru lausar og hefur verið úthlutað með því að smella á þær lóðir sem eru litaðar bláar og rauðar. Þá er einnig alltaf hægt að lesa upplýsingar um skipulag svæðisins. Í þessum áfanga er hægt að lesa um svæðin sem eru til uppbyggingar íbúðahverfa en sambærileg framsetning og í Flóahverfinu er í vinnslu um þau svæði og birtist í næstu áföngum verkefnisins.

Mikil áhersla var að byggja upp vef sem er aðgengilegur, nútímalegur og faglegur og er skalanlegur fyrir snjalltæki. Á vefnum er hægt að skoða ýmis þjónustusvæði á yfirlitskorti í nálægð við byggingarsvæði ásamt ýmsum upplýsingum og myndböndum um Akranes.

„300Akranes er liður í því að koma Akranes betur á framfæri bæði til sóknar á atvinnuuppbyggingu og fjölgun íbúa. Töluverður fjöldi íbúða er í uppbyggingu eða að fara í uppbyggingu í nokkrum hverfum og er spennandi byggingarland að bætast við til uppbyggingar á árinu. Við munum á næstu vikum og mánuðum vera í markvissu kynningarstarfi á þessu frábæra nýja atvinnulóðahverfi í Flóahverfi, góðum kjörum lóða og styrkleikum Akranes til atvinnuuppbyggingar. Hér er tækifæri fyrir fyrirtæki að flytja sig til Akraness og byggja upp starfsemi sína á nýjum stað þar sem grunnþjónusta og mannauður er framúrskarandi.“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri.

Hér er hægt að komast beint inn á vefinn


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00