Fara í efni  

Unga fólkið fær áheyrnarfulltrúa í skóla- og frístundaráð

Bæjarstjórnarfundur unga fólksins.
Bæjarstjórnarfundur unga fólksins.

Þann 17. nóvember síðastliðinn kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar. Í bæjarstjórn unga fólksins eru þau Jón Hjörvar Valgarðsson fulltrúi nemenda í Fjölbrautaskóla Vesturlands, Þuríður Ósk Magnúsdóttir fulltrúi nemenda í Brekkubæjarskóla, Atli Teitur Brynjarsson fulltrúi nemenda í Grundaskóla, Aldís Lind Benediktsdóttir nemandi í Fjölbrautaskóla Vesturlands og fulltrúi Hvíta hússins og Oliver Konstantínus Hilmarsson fulltrúi nemenda í Brekkubæjarskóla og Arnardals. Á fundinum sátu einnig bæjarfulltrúar og bæjarstjóri og stýrði Sigríður Indriðadóttir forseti bæjarstjórnar fundinum. Í upphafi fundarins kynnti forseti samþykkt bæjarstjórnar um að fulltrúar í ungmennaráði Akranes tilnefni áheyrnarfulltrúa sem taki sæti í skóla- og frístundaráði þegar málefni ungmenna eru á dagskrá ráðsins.  Áheyrnarfulltrúinn hafi málfrelsi og tillögurétt. Tillaga um áheyrnarfulltrúa kom einmitt upp á bæjarstjórnarfundi unga fólksins á síðasta ári.

Fulltrúar unga fólksins í bæjarstjórn lögðu fram ýmsar tillögur og fyrirspurnir til kjörinna bæjarfulltrúa. Meðal þess sem þau komu inn á var hugmynd um að stofna  hverfaráð sem m.a. geti séð um leikvelli bæjarins, að fá sérútbúinn körfuboltavöll, bætta aðstöðu fyrir fimleika, ástand gatna, ósk um iðnaðareldhús fyrir grunnskólana þannig að hægt sé að elda mat frá grunni og einnig að koma upp salatbar í skólunum, róbótabörnin sem forvarnarverkefni, skólalóðir grunnskólana, stytting framhaldsskólans, neikvæða umræðu um FVA en þau vildu minna á að það mætti ræða líka um allt það jákvæða sem gert er í skólanum, Írska daga og ýmsar fleiri tillögur til úrbóta.

Unga fólkið var ekki bara með óskalista því þau þökkuðu fyrir það sem vel hefur verið gert og hvöttu bæjarstjórn áfram í verkefnum. Myndir frá fundinum má skoða hér.

 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00