Fara í efni  

Sterk fjárhagsstaða Akraneskaupstaðar - 3,1 milljarður í fjárfestingar og framkvæmdir á næstu fimm árum

ok :L):)Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2019 og þriggja ára áætlun 2020 til 2022 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Akraness þriðjudaginn 11. desember síðastliðinn. Einnig var fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun samþykkt.

Í fjárhagsáætlun 2019 er gert ráð fyrir óbreyttu útsvari á árinu 2018, eða 14,52% og að gjaldskrár hækki í samræmi við áætlaða vísitöluhækkun neysluverðs, eða um 2,9%. Sorphreinsunar- og eyðingargjald verður óbreytt á árinu 2019 og álagningarprósentur fasteignaskatts lækka. Stofn íbúðarhúsnæðis lækkar um 7,6%, fer úr 0,3100% í 0,2865% og  stofn fyrirtækjahúsnæðis lækkar um 2,4%  og fer úr 1,62% í 1,5810%. Lóðarleiga af nýjum lóðum og endurnýjuðum samningum verður 1.265% af fasteignamatsverði atvinnulóða (álagningarprósenta lækkuð um 2,7% frá fyrra ári) og 0,3815% af fasteignamatsverði íbúðarhúsalóða (álagningarprósenta lækkuð um 4,6% frá fyrra ári) og er þetta annað árið í röð sem álagningarprósentur fasteignaskatts og lóðaleigu lækka hjá Akraneskaupstað.

Rekstrarafkoma Akraneskaupstaðar á árinu 2019 er áætluð 424 m.kr. eða sem nemur 5,0% sem hlutfall af tekjum sveitarfélagsins. Rekstrarafkoma næstu ára þ.e. á árunum 2020 til 2022 er áætluð að meðaltali 458 m.kr. og er rekstrarframlegð sama tímabils að meðaltali 5.4%. Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar gerir ráð fyrir áframhaldandi lækkun skulda samstæðunnar og gerir fjárhagsáætlunin ráð fyrir því að langtímaskuldir við lánastofnanir lækki um 675 m.kr. á tímabilinu þ.e. frá árslokum 2018 til ársloka 2022.  

Akraneskaupstaður mun viðhalda ábyrgri fjármálastefnu og sjá til þess að vera vel innan þeirra fjárhagslegu viðmiða sem gerð eru til sveitarfélaga, þ.e. að rekstrarjöfnuður síðustu þriggja ára (samanlögð rekstrarafkoma á þriggja ára tímabili) verður jákvæður sem nemur 1.675 m.kr. í árslok 2018. Fjárhagsáætlunin gerir jafnframt ráð fyrir því að rekstrarjöfnuður muni nema rúmum 1.388 m.kr. í árslok 2022 þrátt fyrir umtalsverðar fjárfestingar í innviðum bæjarins á þeim tíma.

Skuldaviðmið sveitarfélagsins, þ.e. heildarskuldir og skuldbindingar A- og B- hlutans sem hlutfall af reglulegum tekjum mun einnig fara áfram lækkandi samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarins. Áætlað skuldaviðmið sveitarfélagsins í árslok 2018 mun nema 71,8% en hámark sveitarfélaga er 150% af reglulegum tekjum þess, fjárhagsáætlun Akranes gerir ráð fyrir því að skuldaviðmiðið fari áfram lækkandi og muni nema rúm 55% í lok árs 2022. Veltufjárhlutfall samstæðunnar er jafnframt mjög sterkt og nemur 2,2 en veltufjárhlutfall segir til um hversu vel í stakk búið sveitarfélagið er til þess að mæta nauðsynlegum greiðslum á næstu 12 mánuðum og á helst ekki að vera undir 1,0 til lengri tíma litið. Veltufjárhlutfall sveitarfélagsins mun þá fara lækkandi á tímabili fjárhagsáætlunarinnar í samræmi við aukna fjárfestingu en verður þó áfram yfir 1,0 og áætlað er að veltufjárhlutfallið nemi 1,7 í árslok 2022.

Meðal framkvæmda á árinu 2018 eru gatnaviðgerðir við Esjubraut frá Þjóðbraut að svokölluðu spæleggi, hluta af Garðagrund ásamt Suðurgötu.  Bygging fimleikahúss, ljúka byggingu frístundahúss við golfvöllinn, bygging reiðskemmu hjá Hestamannafélaginu Dreyra, uppbygging á Dalbrautarreit og þar með talin þjónustumiðstöð fyrir aldraða, Skógarhverfi og á Sementsreit, klára hönnun Jaðarsbakkasvæðis og endurbætur í Brekkubæjarskóla, undirbúningur fjölgunar leikskólaplássa svo fátt eitt sé nefnt. Áætlað er að setja um 3,1 milljarða í fjárfestingar og framkvæmdir á næstu fimm árum.

Að sögn Sævars Frey Þráinssonar bæjarstjóra er fjárhagsstaða Akraneskaupstaðar sterk og stefnir í að rekstrarafkoma ársins í að vera afar góð líkt og á liðnu ári.  Mikilvægt að viðhalda þeim árangri næstu árin en jafnframt treysta enn frekar grunnrekstur aðalsjóðs sem þarf að styrkja á komandi árum.  Gangi þær fyrirætlanir eftir má sækja enn frekar fram og efla grunnþjónustu fyrir íbúa.„Sóknarfærin okkar hér á Skaganum eru gríðarleg. Til að mynda tækifæri til að fjölga íbúum með að gera nýja íbúðarreiti byggingarhæfa og með lækkun álagningarstofna fasteignaskatta ætti það að takast vel til að laða að ný fyrirtæki. Þá er gert er ráð fyrir uppbyggingu á 5 íbúðum í samstarfi við Þroskahjálp fyrir fatlaða einstaklinga og 5 íbúða á Dalbrautarreit í samstarfi við hússjóð Brynju. Íbúaþing um menntamál verður haldið á árinu þar sem meðal annars verður unnið að stefnumörkun til undirbúnings menntunar leik-, grunn- og fjölbrautarskóla vegna fjórðu iðnbyltingarinnar.  Jafnframt er áhersla hjá bænum að efla þjónustu við bæjarbúa og viðhalda og bæta ferðamannasegla s.s. Guðlaugu og Vitasvæðinu á Breið ásamt því að stíga fyrstu skref í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Jaðarsbökkum. Tækifærin eru fyrir hendi á Akranesi og nú er okkar allra að nýta þá til fullnustu.“


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00