Fara í efni  

Skagamaður ársins 2022 er Tinna Ósk Grímarsdóttir

Á Þorrablóti Skagamanna sem haldið var þann 21. janúar síðastliðinn var Tinna Ósk Grímarsdóttir útnefnd Skagamaður ársins 2022. Það var Líf Lárusdóttir formaður bæjarráðs sem kynnti Skagamann ársins með eftirfarandi stökum sem Heiðrún Jónsdóttir þjónustufulltrúi á bæjarskrifstofunni orti af þessu tilefni:

Skagamaður skínandi og klár,

Skaganum að hrósa sérhvert ár

ekki séns að þreytast muni á því

þetta er besta pláss að vera í.

Segir líka öllum sí og æ,

sæktu gleði í þinn heimabæ.

 

Brandara- og bingófíkill er,

bestu hliðar lífsins alltaf sér.

Þykir svona eðalfyndni fín

Fóstbræðra- og Svínasúpu grín.

Í heitum pottum hlýjar hverri taug,

helst af öllu í Jaðarsbakkalaug.

 

Finnur upp á fullt af skemmtunum

í fjölskyldu- og vinahittingum.

Börnunum þá bannað ekkert er

í brjálað stuð þau fá að hella sér.

Þá gjarnan margar gefast stundirnar

sem góðar skapa og bjartar minningar.

 

Í bissness fór og búð upp úr því spratt

hún blómstraði og efldist nokkuð hratt

og ýmislegt þar flott er hægt að fá,

en finnst þar líka hræðilegt að sjá

hauskúpur og hrekkjavökudót

sem hentar fyrir sérstök mannamót.

 

Það endalaust má létta bæjarbrag

bæta og styrkja farsælt samfélag.

Talsvert hefur tekið vel því á

hún Tinna Ósk sem nefna hérna má

að titil þennan ber með sóma og sann.

Við sendum knús á ársins Skagamann.

 

Tinna er einstök fyrirmynd, bjartsýn og hvetjandi. Hún hefur í gegnum störf sín fyrir Krabbameinsfélag Akraness staðið fyrir viðburðum eins og Bingó-i, „Perlað af krafti“, haldið tónleika með Guðrúnu Árnýju, Spákvöldi með Siggu kling og ýmislegt fleira.

Tinna rekur verslunina Dótarí og hefur þar boðið upp á viðburði fyrir yngri kynslóðina s.s. töfrasýningar með Lalla töframanni.

Tinna glímir við stórt og erfitt verkefni sem hún hefur tekist á við af einskærri jákvæðni, ásamt því að veita styrk til annarra og hefur hún sannarlega hreyft við Skagamönnum.

Tinna Ósk fékk málverk eftir Bjarna Þór Bjarnason að gjöf og veglegan blómvönd. Vinkonur og stuðningshópur hennar “Team Tinna” tóku við viðurkenningu fyrir hennar hönd og fluttu hvetjandi ávarp í anda Tinnu til allra Akurnesinga.

Akraneskaupstaður sendir Tinnu Ósk hamingjuóskir með titilinn Skagamaður ársins 2022.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00