Fara í efni  

Samvinna, samheldni og mögnuð frammistaða

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri sendi svohljóðandi orðsendingu til starfsmanna Akraneskaupstaðar í gær þann 26. mars og er henni deilt hér meðal bæjarbúa. Hún lýsir þeirri framúrskarandi starfsemi og viðbrögðum innan stofnanna Akraneskaupstaðar á þessum fordæmalausum tímum sem Ísland og heimurinn allur er að ganga í gegnum. Við hvetjum ykkur eindregið til lesningar. 

- - - - - - - - - - - 

Á þeim tímum sem við búum við í dag er samvinna og samheldni allra í fyrirrúmi. Að finna það hvernig þið nálgist verkefnin fumlaust, af æðruleysi og hugvitssemi gerir mig stoltan. Stoltan að geta kallað ykkur samstarfsmenn mína. Við skulum vera hreykin af okkar frábæru úrvinnslu á þessum sérstöku tímum. 

Við höfum mikið að þakka fyrir t.d. hvernig starfsfólk okkar hefur brugðist við breyttum aðstæðum. Hvernig íbúar og aðrir sem treysta á þjónustu okkar hafa tekið vel í breytt skipulag á þjónustu.  Hvernig aðstandendur, foreldrar, nemendur hafa unnið í góðri samvinnu og aðstoð.  Fyrir samstarfsaðilum okkar fyrir góða samvinnu og stuðning. 

Við erum að fást við nýjar áskoranir sem hafa hvatt ykkur til að huga að nýjum leiðum og lausnum. Við erum komin með rafrænar félagsmiðstöðvar til að halda utan um unga fólkið okkar. Við hringjum í eldri borgara bæjarins og athugum hvernig fólk hefur það og tryggjum aðstoð ef eitthvað er. Við höfum fengið veitingahúsin í samstarf við okkur til að sinna stærri hópi.  Við erum búin að tileinka okkur nýja tækni og erum að eflast sem starfsmenn og nemendur okkar t.d. í fjarvinnu. Við erum að sýna magnaðan sveigjanleika til að koma til móts við foreldra sem þurfa að sækja vinnu og tryggja að börnin séu í öruggu umhverfi grunn- og leikskóla. Við erum komin fjarvinnu og fjarkennslu þar sem vinnu er sinnt innan veggja heimilisins. Við erum að sýna einstakt hjartalag og umhyggju fyrir okkar skjólstæðingum sem margir eru að fást við ótta og höfum aukið innlit, símtöl og persónulegan stuðning. 

Verkefnið er að verja okkar viðkvæmustu einstaklinga, draga úr smitleiðum en um leið tryggja áframhald á þjónustu Akraneskaupstaðar þ.a. heilbrigðiskerfið geti tekist á við að sinna þeim sem veikjast. Við erum í leiðinni að fást við að undirbúa að koma á móts við efnahagsleg og fjárhagsleg áhrif á heimili og fyrirtæki. Við hjá Akraneskaupstað ætlum að stuðla að öflugri viðspyrnu ásamt öðrum sveitarfélögum og ríkinu. 

Á þessum tímum hefur það reynst vel að við eigum til viðbragðsáætlanir sem nú reynast mikilvægar. Almannavarnir, sóttvarnalæknar og lögreglan hafa sömuleiðis verið öflugt bakland. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur staðið sig frábærlega að leiða saman aðgerðir allra sveitarfélaga sem og  í því að deila leiðbeiningum og ákvörðunum sem teknar eru frá degi til dags. Við höfum fengið margar ákvarðanir inn á okkar borð sem töluverð áskorun er í að fylgja eftir en það er okkar að vinna eftir þeim.  Það er aðdáunarvert hvernig þið hafið tekist á við þessa fordæmalausu tíma og nýtt þekkingu ykkar í því hvernig á að nálgast verkefnin. Hvort sem við erum að fást við verkefni starfsins að heiman eða á staðnum þá deilum við öll sömu upplifun að ákveðið frelsi og lífsgæði sem við erum vön eru takmörkuð og við erum því meira heima. Ég vil því mæla með eftirfarandi:

  • Hjálpumst öll að við að huga að andlegri og líkamlegri líðan okkar allra og styðjum hvert annað.
  • Eigum í virkum og góðum samskiptum við vinnufélaganna, bæði um vinnutengd málefni og önnur óformleg málefni.  Félagastuðningur er mikilvægur við þessar aðstæður. Notum símann, teams, snapchat, messenger, Instagram.
  • Eigið virk samskipti við ykkar næsta yfirmann um framgang vinnunnar og verkefni.
  • Þeir starfsmenn sem eru með ung börn eru að takast á við krefjandi verkefni um þessar mundir og mæli ég með:
    • Setjið upp góða dagskrá, sem er sambland af lærdómi, afþreyingu, tölvum, útiveru, hreyfingu og góðri samveru.
    • Skipuleggið hvern dag fyrir sig með öðrum fjölskyldumeðlimum.
    • Reynið að aðgreina vinnu og tíma með börnunum eins og hægt er.
    • Gerið eitthvað skemmtilegt og horfið á þetta sem tækifæri til að auka samveru með börnunum.

Bestu kveðjur til ykkar allra. Það eru stór verkefni framundan - einn dagur í einu og við færumst alltaf nær því að þessu ástandi ljúki!

Ykkar bæjarstjóri, Sævar Freyr Þráinsson


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00