Fara í efni  

Sæmi virkur á heimasíðu Akraneskaupstaðar

Anna Björk Nikulásdóttir
Anna Björk Nikulásdóttir

SæmiVið stofnun Breið Þróunarfélags þann 2. júlí sl. þar sem nýsköpun, hátækni og ýmsar rannsóknir munu m.a. fara fram, þótti við hæfi að vígja formlega nýsköpunarverkefni sem fyrirtækið Grammatek hefur unnið að hörðum höndum sl. ár í samstarfi við Akraneskaupstað. Spjallmennið Sæmi var formlega tekið í notkun á heimasíðu Akraneskaupstaðar en það gegnir því hlutverki að svara hinum ýmsum spurningum sjálfvirkt í gegnum einskonar svarbox á heimasíðu kaupstaðarins. Lítið merki er neðst í hægra horni sem notendur vefsins geta smellt á og annað hvort talað beint við Sæma eða skrifað inn spurningu til hans.

Verkefnið sem hér um ræðir fékk styrk frá Rannís úr Markáætlun í tungu og tækni árið 2019. Markmið verkefnisins er að þróa frumgerð hugbúnaðar til sjálfvirkrar spurningasvörunar í gegnum heimasíðu Akraneskaupstaðar. Íbúar munu þannig geta fengið skjót svör við ýmsum spurningum er varða þjónustu kaupstaðarins í gegnum vefinn, óháð opnunartíma þjónustuvers. Grammatek er frumkvöðlafyrirtæki á sviði máltækni á Akranesi, en máltækni fæst við margs konar hugbúnaðarþróun sem gerir tölvum kleift að vinna með tungumál. „Akranes er á vegferð sem felur í sér að efla rafræna þjónustu til hagsbóta fyrir íbúa og fyrirtæki. Mikilvægt er að stuðla að því að íslenskt mál verði með í þeirri tæknibyltingu sem er að eiga sér stað. Ánægjulegt er að sjá ungt frumkvöðlafyrirtæki á Akranesi vera í fremstu röð í nýtingu gervigreindar og máltækni og vinna með þeim að þessu verkefni. Spennandi verður að sjá hvernig Sæmi spjallmenni mun læra hvernig á að svara spurningum og verða stöðugt betri í tilsvörum. Þeir sem fá þjónustu hjá Akraneskaupstað geta nú þegar nýtt sér þjónustu Sæma. Ég vil nota tækifærið og óska Grammatek og starfsmönnum til hamingju með þennan stóra áfanga og þakka fyrir gjöfult þróunarsamstarf.” segir Sævar Freyr bæjarstjóri Akraness. Í forsvari fyrir verkefnið er annar eigandi Grammatek, Anna Björk Nikulásdóttir og hefur fyrirtækið verið með aðsetur í Coworking Akranes við Suðurgötu 57 (gamla Landsbankahúsið). „Það er frábært að finna fyrir jákvæðni og stuðningi hjá bænum gagnvart nýsköpun og þessari mikilvægu tækniþróun, sem á að tryggja sess íslenskunnar í samskiptum við tölvur og tæki. Við erum auðvitað mjög ánægð með að Sæmi sé mættur til starfa, en hann á margt eftir ólært og treystum við á þolinmæði íbúa í samskiptum við hann. Sæmi mun læra hraðar eftir því sem hann fær fleiri spurningar og vonum við að hann þróist sem fyrst úr tilraunaverkefni í það að koma virkilega að gagni við upplýsingagjöf á heimasíðunni.“ segir Anna Björk.

Notendur vefs Akraneskaupstaður eru eindregið hvattir til að kynna sér Sæma og spyrja hann spurninga. Vakin er athygli á því að Sæmi er enn að læra og þróast hann með hverri spurningu sem notendur spyrja hann að.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00