Fara í efni  

Ráðstafanir í Grundaskóla vegna Covid-19 og samkomubanns

Svohljóðandi tilkynning var send til foreldrasamfélags Grundaskóla um ráðstafanir vegna samkomubanns sem tók gildi á miðnætti 15. mars sl. 

Íslenskt samfélag mætir nú nýjum áskorunum

Gripið hefur verið til aðgerða sem eiga sér engin fordæmi á lýðveldistímum sem meðal annars snúa að skólastarfi í landinu. Öllum er ljóst mikilvægi þess að farið verði að öllu með gát, bregðast við og fylgja fyrirmælum stjórnvalda.

Öryggi og heilsa nemenda og starfsfólks er fyrir öllu

Við þessar aðstæður er eðlilega ekki hægt að halda uppi hefðbundnu skólastarfi. Það verður með gjörbreyttu sniði og takmarkað. Á meðan á neyðarstigi stendur er verkefni okkar allra að halda börnum og ungmennum virkum, bæði andlega og líkamlega. Kennarar Grundaskóla og annað starfsfólk munu gera sitt besta til þess að skóla- og heimanám nemenda verði eins markvisst og árangursríkt og aðstæður leyfa. Hvert árgangateymi skólans hefur nú undirbúið slíka sviðsmynd og úrlausnirnar eru margar og mismunandi allt eftir aldri nemenda og þroska. Við grípum nú til neyðaáætlunar skólans sem er sambland skólasóknar og heimanáms.

Upplýsingar í skólatöskum og tölvupósti

Upplýsingar og gögn hafa verið sett í skólatöskur hjá sumum árgöngum meðan þau munu berast foreldrum eða forráðamönnum í tölvupósti síðar í dag. Afar mikilvægt er að kennarar séu í sem bestu sambandi við foreldra og nemendur. Ég vil einnig hvetja foreldra til að vera ekki bara þiggjendur í þeim samskiptum heldur senda fyrirspurnir og hugmyndir til baka um það sem betur má fara. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að skólafólk og foreldrar vinni vel saman og skapi sterka liðsheild. Þetta óvissuástand mun sem betur fer ganga yfir og þrátt fyrir allt þá er bjart framundan. Skipulag okkar í Grundaskóla miðast við það að allir eiga að halda áfram í náminu þó hefðbundin skólasókn allra árganga riðlist um tíma.

Mötuneyti, ávaxtastund og brauðsala lokuð

Mötuneyti skólans er lokað og ávaxtastund sem og brauðsala á unglingastigi. Foreldrar þurfa því að útbúa skólanesti fyrir börnin sín. Uppgjör gjalda vegna matarskráningar og frístundar verða endurreiknuð í ljósi þess sem nú hefur verið ákveðið.

Skólabyggingunni skipt upp í lokaðar einingar

Skólabyggingu Grundaskóla er skipt upp í einingar eða sóttkví þannig að engin krosstengsl eiga að verða á milli árganga. Einnig er öllu starfsfólki skipt upp í tíu sjálfstæð teymi sem sinna hvert einum árgangi. Þannig reynum við að tryggja að ef veiran kemst að einum hóp, sem þarf þá hugsanlega að hætta skólasókn, halda hinir níu hóparnir áfram.

Starfstími skóla og frístundar

  • Hver skóladagur er frá kl. 8 – 12.
  • Frístund opnar kl. 13 og heldur úti þjónustu til kl. 16:15.
  • Á neðangreindri töflu má sjá hvenær einstakir árgangar eiga að mæta í skóla. Fylgt er skv. rúllukerfi þannig að hver árgangur er í skólanum tvo daga af hverjum sex.
  • Reynt er að mæta þeim yngstu með því að tryggja nemendum í 1. bekk þjónustu í Frístund þrjá daga á móti skóla og nemendur í 2. bekk tvo daga.
  • Engin kennsla fer fram í íþróttahúsinu að Jaðarsbökkum.
  • Ef færi gefst til að auka skólasókn eða breytingar verða vegna nýrra upplýsinga mun ykkur berast tilkynning um það tafarlaust.

Skipulag skólastarfsins

Kæru vinir

Við sem stöndum að skólasamfélaginu í Grundaskóla tökum nú höndum saman í því verkefni sem blasir við. Við göngum fumlaust til verks og ætlum að leysa verkefnið í góðri samvinnu heimilis og skóla.

Skólastjórnendur og teymi kennara í hverjum árgangi standa áfram vaktina og reyna að leiðbeina í gegnum fjarnám þá daga sem ekki er skólasókn. Ef eitthvað er óljóst eða frekari aðstoðar er þörf þá bendum við á að alltaf má leita upplýsinga í gegnum netföng skólans eða senda póst á netfangið grundaskoli@grundaskoli.is.

Símsvörun á skrifstofu skólans er einnig opin sem fyrr í síma 433-1400.

Nú skulum við gefum okkur tíma til að ræða málin saman og styðja hvert annað í lífsins leik.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00