Fara í efni  

Ráðstafanir á Vesturlandi vegna kórónaveirunnar

Á Vesturlandi hafa starfsmenn Heilbrigðisstofnunarinnar HVE fengið fræðslu um kórónaveiruna og hafa leiðbeiningar verið settar upp fyrir almenning innan stofnanna. Sjúkrahúsið á Akranesi og heilsugæslustöðvar á Vesturlandi hafa fundið úrræði varðandi skoðunaraðstöðu og fyrir einangrun ef svo bæri að.

Kórónaveirur eru þekkt orsök kvefs og þær geta einnig valdið alvarlegri lungnabólgu og jafnvel dauða. Veiran sem um ræðir núna er áður óþekk. Faraldsfræðilegar upplýsingar eru enn takmarkaðar og því er margt óljóst varðandi útbreiðslu sjúkdómsins. Það er ekkert bóluefni til gegn þessari veiru og því ekki hægt að bólusetja við henni. Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta o.s.frv. Veiran getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4-8 degi veikinda.

Enginn einstaklingur hefur hingað til greinst með veiruna hér á landi en embætti landlæknis og sóttvarnalæknir hafa lýst yfir óvissustigi í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vegna hinnar nýju kórónuveiru.

Umdæmis- og svæðislæknar sóttvarna og sóttvarnalæknir hafa samstarf um framkvæmd nauðsynlegra sóttvarna og njóta aðstoðar lögregluyfirvalda ef með þarf. Umdæmislæknir sóttvarna í umdæminu er Þórir Bergmundsson yfirlæknir hjá HVE. 

Hvað get ég gert til að forðast smit?

Handþvottur og spritt er mikilvægast til að forðast smit. Einnig skal varast úðasmit.

Viðbrögð ef grunur er um að einstaklingur sé smitaður:
 • Hafa samband í síma 1700 til að fá ráðleggingar um til hvaða ráða skuli gripið.
 • Almennt er ekki ráðlagt að flytja einstaklinginn strax á heilbrigðisstofnun nema um alvarleg veikindi sé að ræða. 
 • Ef einstaklingur er grunaður um smit skal setja á hann sóttvarnagrímu til að hindra frekara smit.
 • Ef einstaklingur er grunaður um smit skal einnig huga að sóttkví þeirra sem eru í nánast umhverfi og hafa skal samráð við fagaðila í síma 1700.
 • Hver og einn þarf að huga að smitleiðum og koma í veg fyrir að smit berist. 
Almennar ráðleggingar um hreinlæti gilda og eru afar mikilvægar til að draga úr dreifingu veirunnar:
 • Endurtekinn handþvottur og notkun handspritts reglulega.
 • Ef einstaklingur hóstar ber að halda fyrir munn/nef og þvo sér á eftir.
 • Ef mögulegt er, forðast að vera í < 2 metra fjarlægð frá hugsanlega sýktum einstaklingi.
 • Notkun hanska getur hjálpað til. Ástandið er vaktað á hverjum degi.

Gagnlegar upplýsingar er að finna á heimasíðu embættis landlæknis og hjá almannavörnum.  Beinir Akraneskaupstaður því til íbúa að fylgjast með upplýsingum þar.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00