Fara í efni  

Opnun sýningarinnar „Saga líknandi handa“

Regína, Sigurlín og Ólafur opna sýninguna.
Regína, Sigurlín og Ólafur opna sýninguna.

Í tilefni af því að í ár eru liðin 100 ár frá því að konur hlutu kosningarétt á Íslandi er saga formæðra okkar rifjuð upp, vítt og breytt um landið. Í Guðnýjarstofu í Görðum er myndum af sögu líknandi handa brugðið upp, en hjúkrun, yfirseta og öll ummönnun barna og aldraðra hefur að meira og minna leyti verið í verkahring kvenna í áranna rás, við mjög mismunandi aðstæður. Sýnt er örlítið brot af öllu því sem sagan geymir um þetta efni og með þessari sýningu er minningu allra þeirra kvenna heiðruð sem hafa með fórnfýsni og umhyggju líknað, huggað og grætt mein. Það var Sigurlín Gunnarsdóttir sem opnaði sýninguna ásamt Ólafi Adolfssyni formanni bæjarráðs og Regínu Ásvaldsdóttir bæjarstjóra. Sigurlín Gunnarsdóttir er frá Steinsstöðum á Akranesi, hún er önnur tveggja hjúkrunarkvenna sem hófu störf við opnun Sjúkrahúss Akraness árið 1952. Hún er fyrsti hjúkrunarforstjóri Borgarspítalans í Reykjavík og mótaði allt hjúkrunarstarf þar og skrifaði meðal annars sögu spítalans.

Sögu Sjúkrahúss Akraness má rekja allt aftur til ársins 1915, nánar tiltekið til 15. desember, er Metta Steinunn Hansdóttir, húsmóðir í Mörk, Akranesi, lagði fram tillögu á fundi í Stúkunni Akurblómi nr. 3, að nauðsyn bæri til að reisa sjúkraskýli á Akranesi. Flest félög sem hér störfuðu tóku drjúgan þátt í þessu brýna hagsmunamáli þótt Sjúkrahúss Akraness risi ekki sem slíkt fyrr en um 1950 en opnun þess var árið 1952.  Ingibjörg Pálmadóttir bæjarfulltrúi, hjúkrunarfræðingur og fyrrum heilbrigðisráðherra sagði í opnunarræðu sýningarinnar að sýningin væri sett upp með djúpri virðingu og þakklæti við allar líknandi hendur, þó að aðeins fárra þeirra væri getið á sýningunni. ,,Þeir sem hafa tekið saman sögu þessara og annarra skyldra þátta og varðveitt þá í tímans rás, eiga einnig skilið þakklæti okkar og virðingu, sagði Ingibjörg“. Ingibjörg Pálmadóttir var formaður undirbúningsnefndar en aðrir nefndinni voru Guðjón Brjánsson forstjóri HVE og Anna Leif Elídóttir verkefnastjóri menningarmála. Akraneskaupstaður þakkar þeim kærlega fyrir undirbúning þessarar sérlega vönduðu sýningar. Einnig er  starfsmönnum Byggðasafnsins í Görðum, Bókasafns Akraness, Ljósmyndasafnsins og Héraðskjalasafnsins færðar bestu þakkir sem og sérfræðingum frá Þjóðminjasafninu en safnið hefur lánað muni á sýninguna og vekja trúlega mesta athygli búningar hjúkrunarkvenna fyrri tíma og jafnvel farkostir þeirra. Loks ber að þakka Skagaleiksflokknum undir forystu Guðbjargar Árnadóttur vegna uppsetningar á stúkufundinum og síðast en ekki síst Haraldi Sturlaugssyni fyrir hans aðkomu að sýningunni. Sýningin er styrkt af menningarráði Vesturlands og stendur til 30. september og er opin alla daga frá kl. 10-17 í Guðnýjarstofu. Viðtöl við nokkra heilbrigðisstarfsmenn sem eiga sér langa og merka sögu verða tiltæk á skjá í sýningarsal.

Myndirnar tóku Ágústa Friðriksdóttir og Guðni Hannesson hjá Myndsmiðjunni á Akranesi


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00