Fara í efni  

Nýtt íbúaapp og breytingar í Gámu

Á komandi ári mun nýtt smáforrit eða app fyrir íbúa Akraness líta dagsins ljós. Appið mun meðal annars hýsa rafrænt klippikort í Gámu, en íbúar munu þar fá ákveðinn fjölda “klippa” sem nýtast til að henda úrgangi án þess að greiða sérstaklega fyrir það. Þeir sem klára sitt kort áður en árið er liðið geta keypt inneign í gegnum appið.

Rafræna klippikortið mun leysa núverandi fyrirkomulag af hólmi sem hefur verið í gildi undanfarið ár. Þar var unnið eftir hugmyndafræðinni “þau borga sem henda” og kostnaður vegna þess ekki innifalinn í sorphirðugjaldinu líkt og áður. Nokkur óánægja hefur verið með það fyrirkomulag og íbúar gerðu meðal annars athugasemdir við að ófyrirsjáanleiki væri of mikill varðandi gjaldtöku. Því tók bæjarstjórn ákvörðun um að koma til móts við óskir íbúa með því að taka aftur upp notkun klippikorta, en hafa þau rafræn til aukinna þæginda fyrir notendur.

Sem fyrr segir er appið í smíðum, en fyrirkomulagið hjá Gámu verður óbreytt þar til það er tilbúið. Íbúar verða upplýstir um leið og appið er tilbúið til prófana, en ýmsar spennandi nýjungar verður að finna í því auk klippikortsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu