Fara í efni  

Nýtt gervigras og lýsing endurbætt í Akraneshöll

Síðastliðið sumar hófust framkvæmdir við endurnýjun á gervigrasi í Akraneshöll. Umsjónaraðili verksins var Metatron ehf. og lauk framkvæmdum í lok ágúst. Framkvæmdin fólst fyrst og fremst í því að fjarlægja eldra gervigras, sand og gúmmí. Gervigrasið sem var fjarlægt er frá árinu 2006 og var það fyrirtækið Polytan sem lagði það á þeim tíma. Gervigrasið var þá fyllt með EPDMR og silicasandi og var SBR gúmmípúði settur undir grasið sem var áfram nýttur við framkvæmdina í ár. Gerð voru skilyrði um að nýtt gervigras skildi vera framleitt af viðurkenndum aðila sem væri með leyfið FIFA Preferred Producer sem og einnig voru gerðar kröfur um uppfyllingarefni gervigrassins, þ.e. að gúmmíið skildi vera vottað af viðurkenndri rannsóknarstofu um að það uppfylli alþjóðakröfur, varðandi heilsu- og umhverfisáhrif og samþykkt sem uppfyllingarefni á gervigrasvelli. Prófun hefur verið gerð á grasinu sem sýnir að það uppfyllir FIFA Quality Pro samkvæmt áliti eftirlitsaðila SportVerk ehf., eftir er hins vegar að fá endanlegt skírteini því til staðfestingar frá FIFA og má vænta þess á næstu mánuðum.

Samhliða framkvæmdinni hefur verið unnið að endurbættri lýsingu inn í höllinni. Ástæða þess er fyrst og fremst orkusparnaður og tækifæri til að stilla lýsingu innan hallarinnar sem og einnig var lýsingin að valda blandi af þreytu og minniháttar sjóntruflunum þjálfara og iðkenda. Liska lýsingar- og raflagnahönnunarfyrirtæki sá um ráðgjöf við lýsingu, verðkönnun á LED ljósgjafa lömpum og hvaða kröfur voru settar um lýsinguna.  Gengið var til samninga við fyrirtækið Ískraft hf. um kaup á áðurnefndum lömpum og var það fyrirtækið Straumnes sem sá um uppsetningu þeirra. Lamparnir eru komnir í notkun en eftir er endanlegur frágangur í töflu og að setja upp Dali stýringar við þá, stefnt er að klára verkið á næstu dögum.

Þjálfarar og fótboltaiðkendur er yfir sig ánægðir með endurnýjun á gervigrasinu og bætta lýsingu. „Framkvæmdirnar í Akraneshöll hafa tekist mjög vel að mínu mati. Nýja gervigrasið er virkilega gott og þá er nýja lýsingin margfalt betri en sú sem fyrir var. Þjálfarar og iðkendur eru almennt mjög ánægðir með hvernig til hefur tekist.“  er haft eftir Lúðvík Gunnarssyni yfirþjálfara yngri flokka Knattspyrnufélagsins.  

Nú um helgina fór fram hið árlega árgangsmót í fótbolta sem var það stærsta hingað til eða um 250 leikmenn í samtals 23 liðum. Leikið var í þremur deildum,  þ.e. svokallaðri Lávarðadeild karla, Ungliðadeild karla og Kvennadeild. Að sögn Helenu Ólafsdóttur þjálfara meistaraflokks kvenna og ein af sigurförum 1975 árgangsins í kvennadeildinni eru „aðstæður til að keppa og til þjálfunar eru alveg hreint framúrskarandi í höllinni eftir þessa framkvæmd. Fékk það tækifæri að keppa um helgina á grasinu og er einnig að þjálfa þar og er lýsingin mun hlýrri og stillanleg að auki og grasið einstaklega gott fyrir fótboltann“.

Hér má skoða myndir frá árgangsmótinu sem Guðmundur Bjarki Halldórsson og Gunnar Viðarsson tóku.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00