Fara í efni  

Nýr sviðsstjóri velferðar- og mannréttindasviðs ráðinn til starfa

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á aukafundi sínum í gær, þann 3. febrúar tillögu bæjarráðs um að ráða Jón Hróa Finnsson í starf sviðsstjóra velferðar- og mannréttindasviðs. Starfið var auglýst í nóvember með umsóknarfrest til 14. desember síðastliðinn. Tuttugu og fimm umsækjendur voru um starfið en fjórir drógu umsóknir sínar tilbaka.

Jón Hrói er með meistaragráðu í stjórnsýslufræðum frá Háskólanum í Árósum í Danmörku frá árinu 2004 og lauk BA námi í stjórnsýslufræði við sama háskóla árið 2000. Lokaritgerð Jóns Hróa í meistaranáminu fjallaði um íslenska velferðarkerfið í alþjóðlegum samanburði. Jón Hrói starfaði sem sveitarstjóri Svalbarðsstrandahrepps á árunum 2010 til 2014, þróunarstjóri Fjallabyggðar á árunum 2007 til 2010 og ráðgjafi hjá ParX, viðskiptaráðgjöf árin 2004 til 2007. Í starfi sínu sem sveitarstjóri hafði Jón Hrói yfirumsjón með verkefnum sveitarfélagsins og daglegri starfsemi þess, m.a. stefnumótun, fjármálagerð og starfsmannamálum. Þá kom hann að endurnýjun þjónustusamninga og undirbúningi að yfirtöku málefna fatlaðra til sveitarfélagsins og sat sem fulltrúi Svalbarðsstrandarhrepps á samráðsvettvangi þeirra sveitarfélaga í Eyjafirði sem standa sameiginlega að þjónustu við fatlaða.

Meðal helstu verkefna sem þróunarstjóri í Fjallabyggð var umsjón með samþættingu verkefna í kjölfar sameiningar Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, þ.m.t. endurskipulagning rekstrar og stjórnskipulags.  Helstu verkefni hjá ParX voru á sviði stefnumótunar og stjórnskipulags, bestun verkferla og mannauðsstjórnun. Velferðar-og mannréttindasvið varð til í kjölfar stjórnkerfisbreytinga hjá Akraneskaupstað í haust og annast verkefni á sviði  félagsþjónustu, mannréttindamála, þjónustu við fatlaða og aldraða og barnavernd. 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00