Fara í efni  

Magnea Þórey formaður undirbúningsstarfshóps Jaðarbakkasvæðis

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, formaður undirbúningsstarfshóps
Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, formaður undirbúningsstarfshóps

Í viljayfirlýsingu Akraneskaupstaðar, Ísoldar fasteignafélags, ÍA og KFÍA, um uppbyggingu á Jaðarsbökkum er lögð áhersla á vandaða greiningu og stefnumörkun í ferðamálum á Jaðarsbakkasvæðinu. Þessi stefnumótunarvinna fyrir svæðið verður síðan nýtt áfram af hálfu Akraneskaupstaðar inn í vinnu við að móta heildstæða stefnu í ferðamálum fyrir sveitarfélagið sem ekki er til í dag. Markmiðið með stefnumörkun vegna verkefnisins er að uppbyggingin á svæðinu stuðli að aukinni ferðaþjónustu á Akranesi, auki aðdráttarafl bæjarins og styrki um leið innviði og lífsgæði fyrir heimafólk.

Til að leiða þetta verkefni farsællega hefur verið skipaður starfshópur þar sem eiga sæti Líf Lárusdóttir og Ragnar B. Sæmundsson, fulltrúar bæjarstjórnar Akraness, Guðmunda Ólafsdóttir, fulltrúi frá ÍA og Heimir Fannar Gunnlaugsson, fulltrúi frá KFÍA, auk Magneu Þóreyjar Hjálmarsdóttur og Daníels Rúnarssonar fulltrúar frá Ísold fasteignafélagi. Magnea er jafnframt formaður hópsins.

Magnea Þórey hefur gríðarlega reynslu af ferðaþjónustu, uppbyggingu og rekstri hótela. Hún var framkvæmdastjóri Icelandair hótela í 16 ár, en í hennar tíð voru byggð mörg ný hótel og eldri endurbætt frá grunni Hún hefur einnig verið í forsvari fyrir stór fjárfestingaverkefni eins og Reykjavík Marina hótel, Laugavatn Fontana, Canopy Hótel, Hótel Reykjavík Natura ásamt byggingu nýrra hótela á Akureyri og í Mývatnssveit svo nokkur verkefni sé nefnd. Magnea sat jafnframt um árabil í framkvæmdastjórn Icelandair Group. Það er gríðarlega mikill fengur fyrir uppbygginguna á Jaðarsbökkum að fá Magneu Þóreyju að verkinu með alla þá þekkingu og reynslu sem hún býr yfir.

Fyrsti fundur starfshópsins var í mars s.l. og er gert ráð fyrir að hópurinn ljúki störfum í sumar. Mikil áhersla og áhugi er á alvöru samráði í þessari vinnu, þó svo að stefnumörkunin nái eingöngu til Jaðarsbakkasvæðisins. Hópurinn telur mikilvægt að leita eftir samráði við íbúa sem og eftir vitneskju og ráðgjöf frá fagaðilum í ferðaþjónustu. Einnig verða nýtt nýleg gögn úr yfirstandandi stefnumótunarvinnu við heildarstefnu Akraneskaupstaðar, en þar hafa m.a. átt sér stað samtöl við ýmsa hagaðila, verið gerð íbúakönnun, starfsmannakönnun og farið framvinnustofur. Horft verður til langtímaþróunar á bættu samfélagi á Akranesi sem nýtir tækifæri í ferðaþjónustu til atvinnusköpunar og um leið styrkingu innviða öllum til hagsbóta.

Frekari upplýsingar veitir Magnea Þórey í síma 840-0140


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00