Fara í efni  

Listaverkið Síbería sett upp hjá Akranesvita

Listaverkið Síbería og listakonan Elsa María Guðlaugsdóttir.
Listaverkið Síbería og listakonan Elsa María Guðlaugsdóttir.

Listaverkið Síbería á BreiðListaverkið Síbería hefur nú verið sett niður hjá Akranesvita á Breið. Listakonan Elsa María Guðlaugs Drífudóttir og faðir hennar Guðlaugur Maríasson settu listaverkið upp síðastliðna helgi en verkið var keypt af Akraneskaupstað. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 14. janúar 2016 að kaupa verkið að fenginni umsögn menningar- og safnanefndar. Einnig styrktu fyrirtækin Smellinn, sem steypti sökkull sem er undir verkinu og Vélaleiga Halldórs uppsetningu listaverksins en þeir gáfu sand sem einnig er notaður í undirstöðuna.   

Listaverkið var unnið sumarið 2015 norður í Árneshreppi á Ströndum úr rekaviði sem hafði verið tekinn þar úr fjörunni. Verkið var flutt suður og sýnt á Vökudögum á Akranesi sama haust. Talið er að bróðurpartur alls viðs sem rekur til Íslands komi frá Síberíu.  

Akranesviti er nú opinn allt árið um kring en Akraneskaupstaður hefur ráðið  Hilmar Sigvaldason í fullt starf allt árið 2017. Yfir vetrartímann er vitinn opinn 5 daga í viku frá kl. 11.00 til 17.00 en í sumar verður opið alla daga vikunnar, eins og undanfarin sumur. Um er að ræða tilraunaverkefni í eitt ár. Um áramót var hafin gjaldtaka í vitanum og kostar 300 krónur að skoða vitann og njóta útsýnisins.

Gestum hefur fjölgað mjög mikið frá því að Hilmar Sigvaldason vitavörður hóf að sýna vitann í frítíma sínum árið 2012. Akraneskaupstaður gerði samning við Hilmar í ársbyrjun 2014 og hefur vitinn verið opinn á sumrin frá þeim tíma.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00