Fara í efni  

Jens Heiðar nýr slökkviliðsstjóri slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar

Á fundi bæjarstjórnar Akraness þann 14. janúar síðastliðinn var samþykkt einróma að ráða Jens Heiðar Ragnarsson slökkviliðsstjóra slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar.

Jens Heiðar hefur starfað í slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar frá árinu 1998. Hann hlaut löggildingu sem slökkviliðsmaður árið 2002 og hefur auk þess reykköfunarréttindi, lokið námskeiði fyrir stjórnendur hlutastarfandi slökkviliða og þjálfunarstjóra II. Hann hefur gegnt ýmsum ábyrgðarstörfum fyrir Félag íslenskra rafvirkja og Rafiðnaðarsamband Íslands. Jens Heiðar hefur starfað sem stjórnandi á vettvangi, þjálfað og stýrt aðgerðum sem flokkstjóri klippuflokks í björgun fólks úr bílslysum frá árinu 2008.  Hann hefur starfað sem þjálfunarstjóri og skipulagt og stýrt æfingum slökkviliðsins og hefur lagt fram æfingaráætlanir ásamt því að kenna nýliðum í slökkviliðinu. Jens Heiðar hefur sveinsbréf og meistararéttindi í rafvirkjun. Hann hefur jafnframt fagréttindi sem raflagnahönnuður og raffræðingur. Hann býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á virkni vélbúnaðar, viðhaldi og viðgerðum. Hann hefur unnið með fyrirbyggjandi viðhaldskerfi hjá m.a. Sementsverksmiðjunni, Norðuráli og Verkís. Sem starfsmaður hjá Verkís vann hann fyrir fjölda iðnfyrirtækja við hönnun, uppsetningu, verkeftirlit og prófanir á ýmsum búnaði.  Jens Heiðar hefur auk þess lokið meiraprófi og vinnuvélaréttindi. Jens er kvæntur Sonju Sveinsdóttur leikskólakennara og eiga þau þrjú börn.

Auglýsing um starfið var birt um miðjan nóvember síðastliðinn og var umsóknarfrestur til og með 9. desember.  Alls bárust 11 umsóknir um starfið en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka. Umsjón með ráðningunni höfðu sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs og sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs hjá Akraneskaupstað. Hagvangur veitti ráðgjöf við ráðningaferlið.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00