Fara í efni  

Írskir dagar í næstu viku

Mest skreytta gatan 2019, Dalsflöt
Mest skreytta gatan 2019, Dalsflöt

Dagana 2.-5. júlí munu Írskir dagar fara fram í 21. skipti. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu munu fjölmennustu viðburðirnir ýmist vera með breyttu sniði eða falla niður en sem fyrr verður dagskrá hátíðarinnar fjölbreytt og ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi. 

Meðal fastra liða má nefna grillveislu Húsasmiðjunnar, karnival á Merkurtúni, götugrillin, Helgasund, sandkastalakeppni, hálandaleikana og Leikhópinn Lottu en að þessu sinni verða tvær sýningar í Garðalundi á sunnudeginum. Ókeypis er á sýningar Lottu en vinsamlega athugið að til þess að tryggja að fjöldi gesta sé innan marka sóttvarnaryfirvalda þurfa einstaklingar fæddir árið 2004 og fyrr að nálgast miða á sýninguna dagana 1.-3. júlí á Bókasafni Akraness milli kl. 12-18.

Á laugardeginum verður nýr snjallsímaratleikur um Akranes tekinn í gagnið. Leikurinn verður áfram opinn öllum en frá kl. 10 verða veitt þátttökuverðlaun við lokastopp leiksins á meðan birgðir endast. Annað á dagskrá í ár er hindrunarbraut við Kirkjubraut, froðurennibraut, töfraskóli, vatnaboltar, veltibíll, listsýningar og ýmislegt fleira.

Þá verða veitt verðlaun fyrir mest skreyttu götuna og ekki má gleyma valinu á rauðhærðasta íslendingnum. Skráning er á irskirdagar@akranes.is en þar er jafnframt tekið við skráningum á útimarkað og fyrir þau götugrill sem óska eftir óvæntri heimsókn.

Óvæntir atburðir geta alltaf sett strik í reikninginn og dagskráin tekið breytingum. Nýjustu upplýsingar verður ávallt að finna á skagalif.is og á Fésbókarsíðu Írskra daga.

Og að lokum. Verum góð hvert við annað og munum að hlýða Víði.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00