Fara í efni  

Írskir dagar halda áfram að blómstra!

Gríðarlega góð stemmning í Brekkusöngnum / Ljósmynd: Jón Gautur Hannesson.
Gríðarlega góð stemmning í Brekkusöngnum / Ljósmynd: Jón Gautur Hannesson.

Fjölskylduhátíðin Írskir dagar fór fram dagana 2. – 7. júlí í blíðskaparveðri. Hátíðin var vel sótt af heimafólki, fráfluttu skagafólki og öðrum góðum gestum.

Gera má ráð fyrir að um 4000 manns hafi sótt setningarhátíð Írsku daganna á fjölskyldutónleikunum á fimmtudeginum. Fjölmennasti viðburðurinn var eins og áður Brekkusöngurinn á laugardeginum og má áætla að um 12.000 manns hafi tekið þátt. Mikil þátttaka var á öllum viðburðum og ánægjulegt að sjá svona mikið líf í bæjarfélaginu. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda gekk hátíðin einstaklega vel fyrir sig, án alvarlegra atvika. Því má þakka miklu skipulagi og samstarfi milli allra aðila sem koma að hátíðinni.

Svipmynd af fjölskyldutónleikunum á fimmtudegi - Setningarhátíð Írskra daga.

Í upphafi ársins 2024 var settur saman starfshópur Írskra daga og var verkefni hópsins að greina ógnir og tækifæri hátíðarinnar eins og hún hefur litið út síðastliðin ár. Hátíðin er byggð á sterkum grunni, hún er vel þekkt, hefur upp á margt að bjóða – en það þýðir ekki að gott geti ekki orðið enn betra. Ljóst var eftir hátíðina 2023 að breyta þurfti heildarbrag hátíðarinnar. Töluvert mikil vandræði komu upp og ljóst að við því þyrfti að bregðast.

Hófst vinna starfshópsins á uppbyggilegu samtali við viðbragðs- og hagaðila hátíðarinnar, íbúa á öllum aldri, fyrirtæki og verslunareigendur um þeirra upplifun af hátíðinni. Hópurinn skilaði í kjölfarið af sér skýrslu og lagði til ýmsar breytingar sem yrði ráðist í strax. Þar má nefna:

  • 20 ára aldurstakmark á Lopapeysuballið.
  • Skilvirkari verkferla hjá kaupstaðnum hvað varðar verkefni hátíðarinnar.
  • Aukna gæslu á tjaldsvæði.
  • Sérstaka útivakt hjá barnavernd og frístundamiðstöðinni Þorpinu.
  • Fjölskyldutónleika og setningarhátíð sem tók við af föstudagstónleikum í miðbænum, til þess að aðgreina betur fjölskylduskemmtun frá gleðskap fullorðinna og lofa götugrillum föstudagsins að njóta sín betur.

Viðburðastjórar Írskra daga þeir Hjörvar Gunnarsson og Valdimar Ingi Brynjarsson leystu verkefnið með stakri prýði annað árið í röð. Dagskráin var glæsileg og nýir skemmtilegir dagskrárliðir halda áfram að bætast við. Vikan var í raun undirlögð af fjölbreyttum viðburðum og sáu viðburðastjórar til þess að allir aldurshópar fengju að njóta hátíðarinnar. Við viljum þakka öllu því fólk sem hélt viðburði á hátíðinni kærlega fyrir sitt framlag. Án slíks framtaks og samvinnu væri hátíðin ekki til staðar.

Mikið fjör var á fjölskylduskemmtuninni þegar Gunni og Felix stigu á stokk.

Vinir hallarinnar halda áfram að fínpússa Lopapeysusvæðið og skemmtunina á hafnarsvæðinu - Tónlistarhátíðin Lopapeysan var að venju vel sótt og skipulagið til mikils sóma. Í ár voru tónleikar frá miðvikudegi til sunnudags og á allt það fólk sem kom að Lopapeysunni mikið hrós skilið fyrir þeirra framlag til hátíðarhalda á Írskum dögum.

Sérstakar þakkir fá einnig foreldrar og forráðamenn ungmenna á Akranesi sem virtu aldurstakmörk og sýndu mikla samvinnu og ábyrgð yfir helgina – slíkt skiptir sköpum fyrir andrúmsloft og öryggi hátíðarinnar.

Lögreglan, HVE, slökkviliðið, gæslufólk, Flotinn flakkandi félagsmiðstöð, útivakt Þorpsins og barnaverndar, starfsfólk tjaldsvæðisins, áhaldahús kaupstaðarins og allir þeir viðbragðsaðilar sem sáu til þess að gestir hátíðarinnar og íbúar væru í öruggum höndum fá mikið lof fyrir sín störf.

Það má segja að hátíðin í fyrra hafi markað ákveðin tímamót í þróun hátíðarinnar til hins betra, því má þakka þeim breytingum sem ráðist var í í fyrra og öflugu og uppbyggilegu samstarfi allra sem koma að hátíðinni.

Takk fyrir ánægjulega samveru um helgina.

Við tökum öllum ábendingum fagnandi á netfang hátíðarinnar irskirdagar@akranes.is.

Þau voru glæsileg sandlistaverkin á Langasandi í sandkastalakeppninni.

Hvolpasveitin sló heldur betur í gegn.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00