Fara í efni  

Íbúasamráð vegna hugmyndasamkeppni um Langasand - niðurstöður úr könnun

Fimm orð sem lýsa best upplifun svarenda á Langasandssvæðinu á myndrænu formi
Fimm orð sem lýsa best upplifun svarenda á Langasandssvæðinu á myndrænu formi

Í byrjun desember árið 2020 var send út rafræn íbúakönnun um Langasandssvæðið á Akranesi. Tilgangurinn var að gefa íbúum kost á að segja sitt álit á sem flestum sviðum sem tengjast svæðinu og safna um leið gagnlegum upplýsingum fyrir hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun svæðisins sem Akraneskaupstaður stendur fyrir um þessar mundir. Mikilvægt er að íbúar fái tækifæri til að láta sínar skoðanir, þarfir og áherslur í ljós, ásamt því að afla mikilvægra upplýsinga um viðhorf íbúa til breytinga á Langasandssvæðinu. Niðurstöður úr íbúakönnuninni fylgdu með samkeppnislýsingu í keppninni.  

Til þess að sem flestir gætu tekið þátt fór könnunin fram á netinu í staðinn fyrir á hefðbundnum íbúafundi í ljósi COVID-19 faraldursins. Alls voru 348 einstaklingar sem svöruðu könnuninni og var meðal svartími um 45 mínútur. Akraneskaupstaður vill fyrst og fremst þakka þeim sem gáfu tímann sinn í þetta verkefni þar sem svörin munu nýtast bænum vel í áframhaldandi ákvörðunartöku. Könnunin var ítarleg byggð upp af texta og myndum og fylgt úr hlaði með viðtali við Sævar Frey Þráinsson bæjarstjóra. Aðferðafræðin hefur vakið athygli annara sveitarfélaga til eftirbreytni við að auka íbúalýðræði og samráð. Myndbandið er aðgengilegt hér.

Heilt yfir voru íbúar Akraness frekar jákvæðir fyrir uppbyggingu og breytingum á Langasandssvæðinu, en að sjálfsögðu er margt sem íbúar vilja halda óbreyttu. Þeir sögðu að það helsta sem dregur þá að svæðinu er að fara í göngutúra á göngustígum og á sandinum, upplifun af náttúrunni, að fara í Guðlaugu og að leika á sandinum. Flestir voru sammála því að aðgengi og tenging á milli svæða á Langasandinum væri mjög góð fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur en mætti bæta þegar kemur að hjólastólaaðgengi og þess háttar. Svarendum fannst ýmislegt vanta á Langasandi, meðal annars meira skjól, fleiri staðir til að setjast og borða, og að það mætti bæta búningsklefaaðstöðuna við Guðlaugu. Einnig lýstu svarendur yfir ánægju með Bláfánavottunina og töldu hana mikilvæga fyrir svæðið og bæinn í heild sinni.

Spurt var út í tilfinningar svarenda þegar kemur að breytingum á Langasandssvæðinu og svörin voru mjög misjöfn. Heilt yfir voru svarendur jákvæðir fyrir að fá veitingastað eða kaffihús, leigu og geymslu á sjósportsbúnaði, sjávarfræðslusetur, fleiri útsýnispalla og heilsutengda ferðaþjónustu á Langasand. Hins vegar var viðhorfið neikvæðara gagnvart hótelbyggingu, íbúðum eða minjagripaverslun. Augljóst er að íbúum er mjög annt um að halda núverandi anda á Langasandi en eru samt tilbúnir að sjá breytingar sem munu lífga upp svæðið.  Annað sem kom fram var að fólk var frekar neikvætt fyrir að breyta grasæfingasvæði fótboltans, færa fótboltavöllinn eða stækka Akraneshöll.

Einnig var kannað hvað svarendum fannst vera helstu styrkleikar, veikleikar, tækifæri og ógnanir Langasandssvæðisins. Þegar kemur að styrkleikum var augljóst að íbúum finnst sandurinn sjálfur og fallega náttúran í kringum svæðið vera helstu styrkleikar svæðisins. Einnig má nefna útsýnið, Guðlaugu, hafið og staðsetninguna. Helstu veikleikar að mati íbúa voru skortur á hreinlætisaðstöðu (sturtur, klósett, o.s.frv.), lélegt aðgengi fyrir hreyfihamlaða og barnavagna, að þörf sé á að laga og breikka göngustíga og að það vanti meiri þjónustu eins og kaffihús eða veitingastað. Svo var spurt út í ógnanir svæðisins og þá voru langflestir sem nefndu uppbyggingu á svæðinu, t.d. íbúðablokkir, mannvirki, atvinnuhúsnæði og verslanir. Að lokum, þegar kom að tækifærum fyrir svæðið þá var aftur talað um að bæta þjónustu, auka notkun Langasandssvæðisins til útivistar og nýta svæðið betur sem kynningu fyrir Akranes.

Af könnuninni má sjá að að svæðið er gríðarlega mikilvægt í huga bæjarbúa og stór hluti af ímynd bæjarins.

 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00