Fara í efni  

Gyða L. Jónsdóttir Wells er bæjarlistamaður Akraness árið 2015

Gyða L. Jónsdóttir Wells
Gyða L. Jónsdóttir Wells

Gyða Jónsdóttir við störf sín í London á 9 áratugnum.Hefð hefur skapast fyrir því að útnefna bæjarlistamann Akraness við hátíðlega athöfn á 17. júní.  Í ár er það Gyða L. Jónsdóttir Wells sem er bæjarlistamaður Akraness árið 2015.

Gyða L. Jónsdóttir Wells er Skagamaður í húð og hár en hún hefur starfað og búið í Englandi um langt skeið en er nýflutt á Akranes aftur. Gyða vinnur bæði stóra og litla skúlptúra og málverk í vinnuaðstöðu sinni í Sementsverksmiðjunni á Akranesi, þar sem hún starfar ásamt fleiri listamönnum. Saman kalla þau sig Samsteypuna. Gyða segist fyrst og fremst vera myndhöggvari, þar sé hún á heimavelli.

Gyða L. Jónsdóttir Wells átti og rak Tessera Designs í London á árunum 1980 – 1997. Á þeim tíma hannaði hún flísar fyrir einkahöll Soldánsins af Brunei í London fyrir 11 baðherbergi auk þess sem hún framleiddi skreytingar á fjölmargar lestarstöðvar og aðrar opinberar byggingar í London og nágrenni.

Það verk Gyðu sem er Skagamönnum að bestu kunnugt er stór brjóstmynd af Haraldi Böðvarssyni og Ingunni Sveinsdóttur sem stendur við Vesturgötuna en einnig hefur hún mótað brjóstmyndir af Pétri Ottesen og Hálfdáni Sveinssyni sem eru varðveittar á Byggðasafninu að Görðum á Akranesi en geta má þess að það var faðir hennar, sr. Jón M. Guðjónsson sem stofnaði byggðasafnið á Akranesi.

Gyða L. Jónsdóttir Wells stundaði nám við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík, Art Instruction School í USA, Sir John Cass College í London, Central School of Art í London, Konunglegu Lista Akademíuna í Kaupmannahöfn og Konunglegu Postulínsverksmiðjuna í Kaupmannahöfn. Hún var um tíma með vinnustofu og sýningarsal í Brautarholti í Reykjavík ásamt fleiri listamönnum og hefur hannað fjölda mynda fyrir bókakápur og teikningar í barnabækur. Gyða hefur meðal annars haldið sýningar á verkum sínum í Kaupmannahöfn, Vínarborg, Birmingham, í Reykjavík og á Akranesi.

Gyða L. Jónsdóttir Wells hyggur á stóra listsýningu á Vökudögum á Akranesi haustið 2015.

Ljósmynd 1: Gyða Jónsdóttir Wells eftir athöfnina í dag.
Ljósmynd 2: Gyða Jónsdóttir við störf sín í London á 9 áratugnum.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00