Fara í efni  

Fullt hús í 70 ára afmæli Tónlistarskólans

Bæði kennarar og nemendur létu ljós sitt skína í afmælisgleðinni í gær.
Bæði kennarar og nemendur létu ljós sitt skína í afmælisgleðinni í gær.

Í gær kom fjöldi Skagamanna saman til að fagna 70 ára afmæli Tónlistarskólans á Akranesi með pompi og prakt. Gestum var boðið upp á lifandi tónlist, glæsilegar veitingar og hátíðleg orð í tilefni dagsins.

Haraldur Benediktsson bæjarstjóri ávarpaði samkomuna en í ræðu sinni vitnaði hann í Bæjarblaðið sem kom út fyrir 70 árum. Í því kom meðal annars fram að “ný og áður óþekkt menntastofnun” væri að hefja störf í bænum. Þegar skólinn var settur í annað sinn voru íbúar í bænum um 3.700 og nemendur skólans 60 talsins. Í dag eru nemendurnir 340 og íbúar rúmlega 8.500.

“Ég leyfi mér að segja að þær væntingar sem Skagamenn höfðu um tónlistarskólann hafa sannarlega gengið eftir og rúmlega það. Skólinn hefur auðgað líf okkar og er ómissandi hluti af menntun og menningarlífi okkar,” sagði Haraldur. “Starfsmönnum skólans þökkum við á þessum tímamótum af heilum hug fyrir starf þeirra. Þau eru tónlistarlífi okkar Akurnesinga afskaplega dýrmæt og leggja fram ómælda vinnu og áhuga til að gera líf okkar allra betra og litríkara. Fyrir það skal ekki síst þakkað við þetta tækifæri.”

Jónína Erna Arnardóttir skólastjóri TOSKA sagði að starf skólans hefði alla tíð einkennst af miklum metnaði enda hefðu margir tónlistarmenn og -konur komið frá Skaganum. Hún nefndi í því samhengi Davíð Þór Jónsson, Karl Sighvatsson, Andreu Gylfadóttur, Andrés Helgason, Óla Palla, Rósu Guðrúnu Sveinsdóttur, Halla melló, Önnu Halldórs, Þorvald Gauk, Hönnu Þóru og organistana Björn Steinar Sólbergsson og Eyþór Inga Jónsson.

Í dag eru einnig í kennarahópnum fyrrverandi nemendur sem hafa skarað fram úr í tónlistarlífinu; Eðvarð Lárusson, Heiðrún Hámundardóttir, Rut Berg Guðmundsdóttir, Flosi Einarsson, Hrefna Berg Pétursdóttir, Anna Björg Nikulásdóttir, Arnþór Snær Guðjónsson, Birgir Þórisson og Valgerður Jónsdóttir. “Hvílíkur mannauður,” sagði Jónína Erna og uppskar mikið lófaklapp.

Á meðfylgjandi myndum má sjá hluta þeirra nemenda og kennara sem stigu á stokk í tilefni dagsins og hluta þeirra gesta sem mættu til að samfagna þeim.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00