Fara í efni  

Fjölmennur fundur um skipulagsmál

Mynd frá kynningarfundinum.
Mynd frá kynningarfundinum.

Skipulags- og umhverfisráð Akraness hélt opinn kynningarfund um deiliskipulagstillögur á Dalbrautarreit og Sementsreit í Grundaskóla í gærkveldi, 16. febrúar. Einar Brandsson formaður skipulags- og umhverfisráðs bauð gesti velkomna í upphafi fundar en síðan tók Rakel Óskarsdóttir formaður starfshóps um Sementsreit við fundarstjórn. Skipulagið við Dalbraut hefur verið unnið á hefðbundinn hátt en sérstakur starfshópur var skipaður um Sementsreitinn. Í starfshópnum voru auk formannsins, Rakelar Óskarsdóttur, þær Dagný Jónsdóttir og Bjarnheiður Hallsdóttir. Sigurður Páll Harðarson sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs starfaði með hópnum.

Árni Ólafsson arkitekt kynnti fyrst þá aðalskipulagsbreytingu sem deiliskipulag á Dalbrautinni hefur í för með sér og síðan kynnti hann tillögurnar að deiliskipulagi. Þær ábendingar sem bárust á fundinum voru aðallega varðandi hæð og stærð húsanna við Dalbrautina auk þess sem spurt var hvort ekki væri gert ráð fyrir starfsemi Feban á svæðinu. Kynningu Árna má skoða hér. Gert er ráð fyrir því að í einu fjölbýlishúsanna verði hægt að stækka jarðhæðina fyrir starfsemi á borð við félagsmiðstöð fyrir aldraða en það er um 1400 fm rými. Hér má sjá teikningu af jarðhæðinni.  

Árni kynnti einnig þá aðalskipulagsbreytingu sem er í auglýsingu vegna Sementsreitsins og er hún aðgengileg hér. Að því loknu tók Gunnar Örn Sigurðsson arkitekt við og kynnti tillögur að deiliskipulagi á Sementsreit, sem eru aðgengilegar hér. 

Á Sementsreitnum er gert ráð fyrir blöndu af íbúabyggð (70%) og atvinnustarfsemi (30%). Fjöldi íbúða gæti orðið um 360. Hótel er skipulagt á uppfyllingu á hafnarsvæðinu og möguleiki er á að stækka þá uppfyllingu síðar meir. Verkefnið verður áfangaskipt og ráðgert að úthluta fyrstu lóðunum við Jaðarsbrautina. Skipulagið gerir ráð fyrir niðurrifi á Efnisgeymslunni svokallaðri, Ofnhúsi og Kvarnarhúsi. Einnig kom fram að þar sem framkvæmdin mun taka mörg ár og jafnvel áratugi yrði lögð áhersla á snyrtilegan frágang á svæðinu. Sementsílóin eru í útleigu til ársins 2028 þannig að það er ekki tekin afstaða til niðurrifs á þeim. Hinsvegar er sementsstrompurinn látinn halda sér á teikningum. Húsin verða um 3 til 4 hæðir og lögð er áhersla á tengsl svæðisins við miðbæ, höfn og Langasand.

Töluverðar umræður spunnust eftir kynninguna. Meðal annars kom fram sú skoðun að það ætti ekki að byggja þar sem skeljasandsþróin er og láta Langasand ná inn að klettum á nýjan leik, eins og sandurinn var áður en Sementsverksmiðjan var byggð. Einnig kom fram sú skoðun að það þyrfti að rífa sementsstrompinn, hann væri hættulegur og best að gera það áður en svæðið yrði byggt upp. Í máli formanns starfshópsins um Sementsreitinn kom fram að Mannvit hafi gert úttekt á strompinum og kostnaði við að halda honum við en það væru 30 milljónir í upphafi og síðan 2-3 milljónir á nokkurra ára fresti. Það væri því ljóst að bæjaryfirvöld myndu horfa til þessa kostnaðar við ákvörðun um framhaldið.

Ábendingar varðandi skipulagstillögurnar eiga að vera skriflegar og berast fyrir 20. febrúar 2017 í þjónustuver Akraneskaupstaðar Stillholti 16-18 eða á netfangið skipulag@akranes.is.


Eldri fréttir í tengslum við þessa frétt:


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00