Fara í efni  

Engar íbúðir á Jaðarsbökkum – breyting frá skipulagslýsingu

Íbúðabygging á Sementsreit – hótel, heilsulind og baðlón á Jaðarsbökkum

Síðan í mars hefur verið unnið að stefnumótun fyrir Jaðarsbakkasvæðið á grundvelli viljayfirlýsingar milli Akraneskaupstaðar, Ísoldar fasteignafélags ehf., Íþróttabandalags Akraness og Knattspyrnufélags Í.A. Einnig hefur farið fram vinna við að undirbúa frumhönnun deiliskipulags fyrir svæðið líkt og fram kemur í fyrrgreindri viljayfirlýsingu. Nú er komið að þeim tímapunkti að þrjár hönnunarstofur fara að hefja vinnu við frumhönnun svæðisins sem byggir á afurðum ofangreindrar vinnu.

Á bæjarráðsfundi fimmtudaginn 24. ágúst s.l. var samþykktur samningur við Ísold um úthlutun lóða á sementsreit að því gefnu að uppbygging hótels, baðlóns og heilsulindar verði á Jaðarsbökkum samanber fyrrgreinda viljayfirlýsingu. Í kjölfarið fundaði skipulags- og umhverfisráð í gær, 28. ágúst og samþykkti að leggja til við bæjarstjórn Akraness að samþykkja tillögu ráðsins um að fella út möguleika á þéttingu íbúðabyggðar á Jaðarsbökkum í þeirri vinnu á breytingu aðalskipulags sem nú fer fram. Þessi tillaga er komin til samþykktar vegna þeirra umsagna sem bárust á kynningartíma skipulagslýsingarinnar. Þar með er lagt til að hugmyndir um íbúðabyggð á Jaðarsbökkum verði lagðar til hliðar og Ísold muni þess í stað byggja íbúðir á Sementsreitnum.

Þessi breyting er gerð á grunni samráðs og samstarfs við íbúa Akraness og aðra hagsmunaaðila um uppbyggingu á svæðinu til framtíðar með að markmiði að nýta svæðið á sem bestan hátt.

Hönnunarstofurnar eiga að skila sínum hugmyndum þann 10. október næstkomandi og fljótlega í kjölfarið verður haldinn kynningarfundur fyrir íbúa þar sem farið verður yfir afurðir starfshóps um stefnumótun fyrir svæðið ásamt því að hönnunarstofurnar þrjár kynna sína hönnun.

,,Það er gleðiefni hversu margir íbúar og aðrir hafa látið sig skipulagið varða og komu athugasemdum og ábendingum á framfæri. Það undirstrikar áhuga á svæðinu, hvaða sess það skipar hjá bæjarbúum og hversu miklu máli skiptir að vel takist til“ sagði Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri.

„Það er okkur mikið keppikefli að vinna verkefnið í sátt og samlyndi við íbúa bæjarins enda sjáum við uppbyggingu okkar á Akranesi sem langtímaverkefni þar sem hagsmunir okkar og íbúanna fara saman. Við höfum nú í samstarfi við bæjaryfirvöld tekið tillit til helstu athugasemda við skipulagslýsingu Jaðarsbakkasvæðisins og hlökkum til þess að sýna betur frá metnaðarfullum áformum hópsins“ sagði Daníel Rúnarsson, fulltrúi Ísoldar fasteignafélags.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00