Fara í efni  

Barna- og ungmennaþing á Akranesi

Dagana 2. og 3. nóvember var haldið barna- og ungmennaþing á Akranesi. Þingið er hluti af innleiðingu verkefnisins Barnvænt sveitarfélag sem Akraneskaupstaður vinnur að í samstarfi við UNICEF á Íslandi. Einnig er þingið hluti af undirbúningi ungmennaráðs fyrir bæjarstjórnarfund unga fólksins. Yfirskrift þingsins var „Barnvænt Akranes“.

Barna- og ungmennaþingið fór fram í frístundamiðstöðinni Þorpinu og voru þátttakendur fulltrúar nemenda úr 5.-10. bekk í Grundaskóla og Brekkubæjarskóla. Jafnframt tóku 16 nemendur úr framhaldsskólanum FVA þátt í þinginu og voru ritarar. Ungmennaráð Akraneskaupstaðar tók virkan þátt í skipulagningu þingsins og voru þau umræðustjórar á hverju borði. Alls tóku 124 börn og ungmenni þátt í þinginu.

Markmiðið með þinginu var að skapa vettvang fyrir börn og ungmenni á Akranesi til að koma saman og ræða þau málefni sem brenna á þeim. Á barna- og ungmennaþinginu fengu þau tækifæri til að tjá skoðanir sínar og viðhorf til sveitarfélagsins og þeirrar þjónustu sem það veitir. Umræðuefni þingsins voru eftirfarandi: skólamál; frítími og íþróttir á Akranesi; forvarnir; umhverfi og skipulag og að lokum draumabærinn Akranes, hvernig er hann?

Allir þátttakendur þingsins stóðu sig með mikilli prýði og voru til fyrirmyndar í hegðun og framkomu. Í röddum þeirra, viðhorfum og reynslu felast mikil verðmæti sem sveitarfélagið getur nýtt til þess að verða betra, öflugara og ekki síst barnvænna bæjarfélag.

 

 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00