Fara í efni  

Bæjarstjórn Akraness 75 ára í dag

Fulltrúar í fyrstu bæjarstjórn Akraness
Fulltrúar í fyrstu bæjarstjórn Akraness

Í dag, 26 janúar, eru 75 ár frá fyrsta bæjarstjórnarfundinum á Akranesi. Bærinn fékk kaupstaðaréttindi 1. janúar og í kjölfarið var fyrsti bæjarstjórnarfundurinn haldinn 26. janúar. Ólafur B. Björnsson var kjörinn forseti bæjarstjórnar og Jón Sigmundsson ritari. Arnljótur Guðmundsson var kosinn bæjarstjóri en hann átti ekki sæti í bæjarstjórn.

Bæjarstjórnarkosningar fóru fram deginum áður eða þann 25. janúar. Í fyrstu bæjarstjórnina voru kjörnir af A lista (Alþýðuflokkurinn) þeir Hálfdán Sveinsson, Guðmundur Kr. Ólafsson og Sveinbjörn Oddsson. Af B lista (Framsóknarflokkurinn) Þórhallur Guðmundsson og af C lista (Sjálfstæðisflokkurinn) þeir Guðmundur Guðjónsson, Haraldur Böðvarsson, Jón Árnason, Jón Sigmundsson og Ólafur B. Björnsson.  Í ávarpi sínu þakkaði Ólafur B. Björnsson fyrir þann heiður sem honum var sýndur að kjósa hann í þetta ábyrgðarmikla starf. ,,Mér er ljóst að þetta starf er vandasamt og vafalaust vanþakklátt" sagði Ólafur. Hann bætti við að framundan væru stór skipulagsverkefni sem myndu kalla á átök. Einnig að tímarnir framundan væru illir og óráðnir en þegar bæjarstjórnin var stofnuð geisaði seinni heimsstyrjöldin (1939-1945). Ólafur lauk ræðu sinni með þeirri von að tekið yrði á verkefnunum af karlmannlegri festu.

Engar konur voru í bæjarstjórn fyrstu árin en Sigríður Auðuns var fyrst kvenna til að sitja í bæjarstjórn en hún var skipuð í bæjarstjórn árið 1959 er Ólafur B. Björnsson féll frá. Á kjörtímabilinu 1982 til 1986 voru þrjár konur í bæjarstjórn, þær Ragnheiður Ólafsdóttir, Steinunn Sigurðardóttir og Ingibjörg Pálmadóttir. Ingibjörg varð síðan forseti bæjarstjórnar 1986. Forseti bæjarstjórnar í dag er Sigríður Indriðadóttir (D listi, Sjálfstæðismenn) en Ólafur B. Björnsson var langafi hennar. Aðrir bæjarfulltrúar eru Ólafur Adolfsson, Einar Brandsson, Rakel Óskarsdóttir og Þórður Guðjónsson frá D lista, Vilborg Þórunn Guðbjartsdóttir Æ lista (Björt framtíð), Ingibjörg Valdimarsdóttir og Valgarður Lyngdal Jónsson frá S lista (Samfylking) og Ingibjörg Pálmadóttir B lista (Framsóknarflokkurinn). Bæjarstjóri er Regína Ásvaldsdóttir og er hún fyrsta konan til að gegna stöðu bæjarstjóra en hún hóf störf 1. janúar 2013.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00