Fara í efni  

Ályktun bæjarstjórnar Akraness um umferðaröryggi í Hvalfjarðargöngum

Á fundir bæjarstjórnar Akraness þann 26. febrúar var lögð fram svohljóðandi bókun og samþykkt einróma

Bæjarstjórn Akraness lýsir yfir verulegum áhyggjum af stöðu öryggismála í Hvalfjarðargöngum einungis örfáum mánuðum eftir að Vegagerðin tók við rekstrinum og mönnuð vakt við göngin hefur verið lögð af.

Þann 12. febrúar síðastliðinn varð árekstur í Hvalfjarðargöngum þar sem ekið var aftan á kyrrstæðan bíl með þeim afleiðingum að tveir menn slösuðust.  Í frétt Vísis frá 12. febrúar sl. og frétt Skessuhorns frá 20. febrúar sl. kemur fram að bíllinn sem ekið var á hafi verið kyrrstæður í 15-20 mínútur án þess að við því væri brugðist þar sem bíllinn var ekki sjáanlegur í myndavélakerfi ganganna.  Þá hefur einnig komið fram að verulegar brotalamir voru í framkvæmd viðbragðsáætlunar í kjölfar árekstursins, t.d. var slökkvilið ekki kallað út með forgangi þrátt fyrir mögulega eld- og sprengihættu.

Með vísan til framangreinds krefst bæjarstjórn Akraness þess að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra setji umferðaröryggi í Hvalfjarðargöngum í forgang.  Tekið verði að nýju upp mannað eftirlit við Hvalfjarðargöng og að viðbragðsáætlun vegna slysa verði tekin til gagngerrar endurskoðunar hið fyrsta."

 

Ályktunin er send samgönguráðherra, umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, þingmönnum Norðvesturkjördæmis og Vegagerðinni.



   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00