Fara í efni  

Afhending umhverfisviðurkenninga fyrir árið 2016

Handhafar umhverfisviðurkenninga 2016 ásamt fulltrúum í skipulags og umhverfisráði, bæjarstjóra og S…
Handhafar umhverfisviðurkenninga 2016 ásamt fulltrúum í skipulags og umhverfisráði, bæjarstjóra og Sindra Birgissyni sem hafði veg og vanda að undirbúningi athafnarinnar.

Umhverfisviðurkenningar voru veittar í Tónlistarskólanum á Akranesi fyrr í dag. Einar Brandsson formaður skipulags- og umhverfisráðs bauð gesti velkomna og gerði grein fyrir vali ráðsins á þeim einstaklingum, samtökum og stofnunum sem fengu umhverfisviðurkenningar 2016. Í ár voru veittar viðurkenningar í flokkunum: ,,falleg einbýlishúsalóð“, ,,snyrtileg fyrirtækjalóð“, ,,hvatningarverðlaun“, ,,samfélagsverðlaun“ og ,,tré ársins“ sem er nýr flokkur.

Í flokknum ,,falleg einbýlishúsalóð“ varð fyrir valinu lóðin við húsið Bjarg að Laugarbraut 7. Þar búa þau Kristín Guðbjörg Eyjólfsdóttir og Þórólfur Ævar Sigurðsson. Í umsögn nefndarinnar segir meðal annars: ,,Ævar og Stína eins og þau ætíð kölluð, hafa sinnt viðhaldi og umhirðu húss síns og lóðar í gegnum tíðina með miklum sóma og eru öðrum til mikillar fyrirmyndar. Garðurinn er opinn, fallegur og laglega skipulagður. Hann er skjólsæll en þó með opnun út að götu, þannig að húsið nýtur sín vel séð frá Laugarbrautinni. Heilleiki í tengingu húss og lóðar er mikill og virðing borin fyrir tíðaranda hússins.  Að framanverðu er pallur og verönd á mismunandi hæðum og hengirúm strengt á milli espitrjáa í miðjum garðinum. Að aftanverðu eru svo snyrtilegir matjurtargarðar í anda sjálfbærni. Húsið heitir Bjarg og því viðeigandi að sökkull hússins er klæddur með grjóti. Til gamans má geta þess að grjótið er annars vegar fengið úr Hafnarfjalli og hins vegar Akrafjalli, en fjöllin eru þeim hjónum einkar hugleikin og safnaði Ævar meðal annars saman ánum þar dægrin löng sem hjarðsveinn"

Í flokknum ,,snyrtileg fyrirtækjalóð“ hlaut HB Grandi viðurkenningu og kemur fram í vali ráðsins að  HB Grandi hafi verið framúrskarandi þegar kemur að viðhaldi og umhirðu bygginga og lóða sinna og eru öðrum til mikillar fyrirmyndar. Í ár hefur fyrirtækið sinnt almennu viðhaldi á byggingum sínum af stakri prýði og unnið mikið og gott starf við snyrtingu á lóðum sínum niður á Breið. 

Í flokknum ,,hvatningarverðlaun“ var ákveðið að veita tveimur verkefnum viðurkenningu fyrir fallegar og vel heppnaðar endurbætur á húsum og lóðum og voru viðurkenningarhafar hvattir til að halda áfram á sömu braut enda bæði verkefnin til mikils sóma. Þessa viðurkenningu fengu Garðar H. Guðjónsson og Kristín Líndal Hallbjörnsdóttir á Grenigrund 30 og Ólafur Páll Gunnarsson á Sunnuhvoli við Skólabraut 33. 

Við ákvörðun um viðurkenningu í flokknum ,,samfélagsverðlaun“ er horft til hópa eða einstaklings sem hafa unnið óeigingjarnt starf í að efla og hugsa vel um nærumhverfi sitt og bæta þannig hæði þess. Í ár voru þau tvennskonar, viðurkenning til hóps og viðurkenning til einstaklings. Skipulags- og umhverfisráð ákvað að veita Þóru Elísabetu Hallgrímsdóttur viðurkenningu fyrir framúrskarandi elju og þrautseigju þegar kemur að snyrtingu bæjarins og segir í umsögn ráðsins að hún sé ,,sannarlega íbúum Akraness til fyrirmyndar". Einnig ákvað skipulags- og umhverfisráð að veita Skógræktarfélagi Akraness viðurkenningu í sama flokki. Í umsögninni segir: ,,Skógræktarfélagið var stofnað árið 1942 og eru félagsmenn rúmlega 70. Árið 2016 hefur verið viðburðaríkt hjá Skógræktarfélagi Akraness. Mikið og þarft umbóta- og uppbyggingarstarf var unnið við Slögu, skógræktar og útivistarsvæði félagsins upp í Akrafjalli og voru meðal annars gróðursett á annan tugþúsund trjáa þar í sumar. Öll vinna á vegum Skógræktarfélags Akraness er sjálfboðavinna og hafa þeir haft fasta vinnudaga vikulega í allt sumar. Tilgangur skógræktarfélagsins fyrir utan að græða land, endurheimta skóglendi, sporna við jarðvegseyðingu og nýta áður ónothæf landsvæði er að bæta útivistaraðstöðu almennings og er Garðalundur frábært dæmi um afrekstur frumkvöðlastarfs Skógræktarfélags Akraness".

Í ár ákvað Akraneskaupstaður að veita umhverfisverðlaun fyrir tré ársins í fyrsta skipti og fyrir valinu varð einkar falleg og sérstök alaskaösp við Vogabraut 44. Í umsögninni segir: ,,Íbúar og eigendur lóðar við Vogabraut 44 eru hjónin Guðlaug Bergþórsdóttir og Sigurjón Hannesson og reiknast þeim til að öspin sé frá 1981 og því 35 ára gömul. Alaskaöspin á Vogabrautinni er með öfluga greinasetningu og einkar fallega og mikla trjákrónu sem sést vel frá Kalmannsbrautinni. Alaskaösp er ein algengasta trjátegundin á Akranesi. Hún veitir okkur gott skjól fyrir veðri og vindum en hún er ekki síður öflugur fangari aðskotaagna sem stafa af umferð. Aspirnar í bænum þjóna því íbúum hans með margvíslegum hætti auk þess sem þær auka á fjölbreytni og setja mark sitt á bæjarmyndina með áberandi hætti það er litskrúði, tónum og angan, - sumar, vetur, vor og haust".

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri afhenti þeim sem fengu viðurkenninguna skilti til að setja utandyra ásamt viðurkenningarskjali og gjafabréfi til kaupa á ávaxtatré  hjá Jóni Guðmundssyni garðyrkjubónda á Akranesi. Nemendur og kennarar við tónlistarskólann glöddu gesti með samsöng og jasssveiflu.

Akraneskaupstaður óskar viðurkenningarhöfum innilega til hamingju!
Hér má skoða nokkrar myndir frá afhendingu umhverfisviðurkenninganna


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00