Fara í efni  

Skipulags- og umhverfisráði falið að finna lóð undir nýjan búsetukjarna

Á fundi bæjarráðs í dag, 2 mars var skipulags- og umhverfisráði falið að finna lóð undir byggingu nýs búsetukjarna fyrir fatlaða íbúa á Akranesi. Ennfremur var sviðinu falið að gera breytingar á fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2017 - 2020 til að standa straum af kostnaði við bygginguna.

Bæjaryfirvöld hafa um nokkurt skeið unnið að stefnumótun vegna búsetumála fatlaðra og stofnuðu starfshóp með fulltrúum úr velferðar- og mannréttindaráði og skipulags- og umhverfisráði. Upphaflega stóð til að gera endurbætur á fyrrum sambýlinu að Vesturgötu og útbúa þar íbúðir.  Þegar hönnun húsnæðisins lá fyrir var ljóst að það samrýmdist ekki nægilega vel kröfum og markmiðum um rúmgóðar íbúðir og vistarverur og var því fallið frá því að hefja endurbætur  þar og samþykkt að selja húsið. Starfshópurinn leitaði því samstarfs við styrktarfélagið Ás sem hefur reynslu og þekkingu á uppbyggingu slíks húsnæðis með það að markmiði að fá Ás til að byggja og reka búsetukjarna. Ás sá sér ekki fært að fjölga þeim verkefnum sem félagið er með að sinni en hefur lýst sig reiðubúið til að veita ráðgjöf við uppbygginguna.

Að sögn Einars Brandssonar formanns starfshópsins er það því næsta skref að taka ákvörðun um að bæjarfélagið byggi sjálft slíkan búsetukjarna og skipulags- og umhverfisráði falið að finna hentuga lóð fyrir íbúðirnar. Mikilvægt sé að vanda vel til verka og horfa til þess sem best gerist í þessum efnum á Íslandi. Þess vegna hafi hópurinn leitað sérfræðiþekkingar hjá Ás styrktarfélagi en þeir hafa byggt og rekið slíka búsetukjarna í Hafnarfirði, Reykjavík og Kópavogi. Nýjustu húsin sem Ás hefur byggt, að Klukkuvöllum í Hafnarfirði og Langagerði í Reykjavík  eru með 6 rúmgóðum og vel hönnuðum íbúðum sem hver hefur sína dyrabjöllu og póstlúgu. Í enda byggingarinnar er bjartur sólskáli og samverurými  þar sem hægt er að opna út á pall þegar vel viðrar. Hér má sjá upplýsingar um Ás.

Á fundinum var jafnframt lagt fram til kynningar samantekt fjármálastjóra á þróun kostnaðar við málefni fatlaðra á Akranesi. Þegar málaflokkurinn var tekinn yfir til sveitarfélagsins var heildarkostnaður um 40 % af fjárveitingu til velferðarmála á Akranesi en er í dag um 60 %. Hlutfall rekstrarkostnaðar vegna málefna fatlaðra vegur um 9,3 % af tekjum bæjarfélagsins í dag en var 6,3 % á árinu 2011. Hér má sjá nánar um þróun kostnaðar.

 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00