Fara í efni  

Rekstur Akraneskaupstaðar stendur styrkum fótum

Guðlaug á Langasandi
Guðlaug á Langasandi

Rekstur Akraneskaupstaðar stendur styrkum fótum

  • Rekstrarafgangur ársins var 826 milljónir króna fyrir A- og B- hluta bæjarsjóðs.
  • Skuldaviðmið samstæðu lækkar niður í 44%.
  • Heildartekjur ársins hjá samstæðu voru 8,5% yfir áætlun eða 597 milljónir króna.
  • Veltufé frá rekstri hjá samstæðu var 19,5% af heildartekjum eða 1.490 milljónir króna.
  • Fjárfest var fyrir 563 milljónir króna á árinu.

Ársreikningur Akraneskaupstaðar fyrir árið 2018 var lagður fram í bæjarráði fimmtudaginn 4. apríl síðastliðinn og var vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn Akraness sem fór fram þann 9. apríl. Ársreikningurinn sýnir að bæjarfélagið stendur sem fyrr styrkum fótum.

Rekstrarniðurstaða ársins er jákvæð um 826 milljónir króna sem er 631 milljónum króna betri afkoma en ráð var fyrir gert í fjárhagsáætlun ársins með viðaukum. Það skýrist af 668 milljóna króna hærri tekjum en áætlað var vegna hærri launatekna íbúa, meiri umsvifa í sveitarfélaginu og söluhagnaði eigna. Rekstrargjöld voru 59 milljónir króna hærri en áætlað var sem að stærstum hluta skýrist af gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga.

Skatttekjur voru 424 milljónum króna hærri en á fyrra ári. Framlög Jöfnunarsjóðs hækkuðu um 155 milljónir króna frá fyrra ári. Aðrar tekjur jukust um 123 milljónir króna á milli ára en að auki var tekjufærsla meðal óreglulegra liða vegna söluhagnaðs eigna 71 milljón króna. Fjármagnsliðir voru í takt við fyrra ár. Rekstur málaflokka var í takti við fjárhagsáætlun. Heildareignir í lok árs námu samtals 14.192 milljónum króna og jukust um 1.102 milljón milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 6.683 milljónum króna og hækkuðu um 193  milljónir króna á milli ára. Langtímaskuldir jukust um 167 milljónir króna, lífeyrisskuldbinding hækkaði um 240  milljónir króna en skammtímaskuldir lækkuðu um 214 milljónir króna.

„Ársreikningur Akraneskaupstaðar sýnir ábyrga fjármálastjórn og trausta fjárhagsstöðu. Ljóst er að Akraneskaupstaður hefur fulla ástæðu til þess að vera sveitarfélag í sókn. Fjárhagsstaða bæjarins hefur styrkst með hverju ári sem líður og nú eru tvö ár í röð þar sem afkoma gefur tilefni til að auka við þjónustu, í viðhaldi innviða og frekari fjárfestinga í uppbyggingu.  Á næstu árum munum við sjá afrakstur þess en mikil uppbygging er í bæjarlandinu um þessar mundir og gefum við ekkert eftir á næstu misserum.  Guðlaug við Langasand hefur slegið í gegn, opna á frístundamiðstöð við golfvöllinn í þessum mánuði, uppbygging á fimleikahúsi er í fullum gangi og styttist í byggingu reiðhallar. Uppbygging er að hefjast á þjónustumiðstöð fyrir aldraða á Dalbrautarreit og það styttist í að niðurrif á Sementsreit ljúki og uppbygging hefjist.“ sagði Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri sem fór yfir helstu niðurstöður ársreikningsins í upphafi fundarins.

Rekstrarafgangur ársins var jákvæður um 814 milljónir króna fyrir A hluta og jákvæð um 11 milljónir króna fyrir B- hluta.  Heildartekjur ársins voru 597 milljónum króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir eða 8,5% yfir áætlun.  

Fjárfesting í mikilvægum innviðum og þjónustu

„Fjárfestingar á árinu námu 563 milljónum króna. Meðal helstu framkvæmda voru breytingar í Brekkubæjarskóla fyrir 23 milljónir króna, uppbygging Guðlaugar við Langasand fyrir 71 milljón króna, uppbygging frístundamiðstöðvar og kaup vélaskemmu við golfvöll samtals 203 milljónir króna og fimleikahús fyrir 61 milljón króna.  Fjárfest var í götum, gangstígum fyrir 39 milljónir króna en auk þess var gjaldfærð töluvert vegna gatnaframkvæmda s.s. á Vesturgötu.

Rekstur Akraneskaupstaðar er agaður og borin er virðing fyrir skattfé bæjarbúa. Fjölgun íbúa kallar á nauðsynlega uppbyggingu innviða samhliða mikilvægu viðhaldi á öllum eignum bæjarins. Með ábyrgum rekstri undanfarinna ára eru allar undirstöður rekstrar bæjarfélagsins í góðu lagi og bærinn hefur burði til að takast á við þær áskoranir sem kunna að felast í  kælingu efnahagslífsins ef þess gerist þörf. Við horfum því bjartsýn fram á veginn“ segir Sævar Freyr.

Helstu rekstrartölur og lykiltölur A-hlutans

EBITDA framlegð eykst verulega milli ára og nemur 11,7% á árinu 2018 en nam 12,5% á árinu 2017. Veltufjárhlutfall er enn mjög sterkt og nemur 2,75 í árslok 2018 og er sveitarfélagið því vel í stakk búið til að inna af hendi nauðsynlegar greiðslur á næstu 12 mánuðum.

Skuldahlutfall fer áfram lækkandi og er 92% í árslok 2018 en var 98% í árslok 2017. Eiginfjárhlutfall er í árslok 55% og hækkar frá árinu 2017 eða um 3,0%. Veltufé frá rekstri er 21% og er það töluvert betra við meðaltal síðustu ára, þ.e. tímabilið 2012-2017 sem nemur 14,3%. Á árinu var tekið lán að fjárhæð 372 milljónir króna og afborganir langtímalána voru 231 milljón króna.

Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga miðast meðal annars við að:

  • Skuldaviðmið sveitarfélaga þ.e. að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu í reikningsskilum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum sveitarfélagsins. Skuldaviðmið samstæðu Akraneskaupstaðar í árslok 2017 er 44%.
  • Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga tilgreina einnig að rekstrarjöfnuður á hverju þriggja ára tímabili sé jákvæður og er þessi rekstrarjöfnuður hjá Akraneskaupstað jákvæður sem nemur 2.080 milljónum króna.

Fundargerð bæjarstjórnar ásamt fylgigögnum má nálgast hér


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00