Fara í efni  

Húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar samþykkt

Akranes.
Akranes.

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum þann 25. febrúar síðastliðinn Húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árin 2020-2026. Húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar er unnin samkvæmt reglugerð um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga nr. 1248/2018. Húsnæðisáætlunin er heildstæð áætlun sveitarfélagsins varðandi stöðu húsnæðismála í sveitarfélaginu og er til næstu sjö ára, frá árinu 2020 til og með 2026. Meginmarkmið áætlunarinnar að meta húsnæðisþörf á næstu fjórum til átta árum á Akranesi og hvernig bregðast eigi við og stuðla að auknu húsnæðisöryggi íbúa innan sveitarfélagsins.

Húsnæðisáætlunin hefur að geyma verðmætar upplýsingar fyrir samfélagið Akraness. Þar má lesa um stöðu húsnæðismála í sveitarfélaginu, nálgast upplýsingar um íbúaþróun og unnar nokkrar sviðsmyndir um íbúaaukningu næstu ára. Er þar einnig að finna gagnlegar upplýsingar um skipulagsmál og þá einna helst uppbyggingarsvæði á Akranesi til næstu ára svo sem á Langasandsreit og í Skógarhverfi ásamt greinargóðri umfjöllum um atvinnu- og efnahagsþróun á Akranesi þar sem sérstaklega er varpað ljósi á aukin atvinnutækifæri. „Hér viljum við sjá atvinnulífið vaxa og að íbúar hafi aukin tækifæri til atvinnuþátttöku í bæjarfélaginu. Akranes er góður staður fyrir fyrirtæki, hagstætt lóðaverð og fasteignagjöld eru lág. Þá eru innviðir samfélagsins sterkir, bæði fyrir fjölskyldur og fyrirtæki. Lífið á Akranesi er hreinlega einfaldara og betra í alla staði„ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri um nýsamþykkta húsnæðisáætlun.

Mikil þörf er á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu svo hægt sé að halda í við aukinn fjölda þeirra sem kjósa að búa á Akranesi en starfar í Reykjavík. Jafnframt eru unnið að ýmsum atvinnuþróunarverkefnum sem vonir standa til að efla atvinnulíf á Akranesi og á Grundartanga. Á næstu níu árum er gert ráð fyrir að þörf verði fyrir 588 íbúðir á Akranesi til viðbótar við það sem nú er eða að meðaltali 65 nýjar íbúðir á ári. Nokkur óvissa er þó um íbúðaþörfina og getur áætluð aukning á fjölda íbúa um 2% auðveldlega orðið minni eða meiri eftir hagvexti í samfélaginu, árangri af markaðssetningu Akraness, þróun atvinnuuppbyggingar, mögulegri sameiningu sveitarfélaga sem og hvernig úrbætur í samgöngumálum gagnvart höfuðborgarsvæðinu munu ganga eftir á næstu árum, s.s. 2+1 vegur Vesturlandsvegar um Kjalarnes, Sundabraut eða tvöföldun Hvalfjarðarganga. Brotthvarf leigufélagsins Heimavalla frá Akranesi af leigumarkaði kallar á sérstakt inngrip svo virkum leigumarkaði verði komið á að nýju á Akranesi.

Með hliðsjón af framangreindu eru helstu aðgerðir og tillögur húsnæðisáætlunarinnar eftirfarandi:

 • Akraneskaupstaður hyggst bregðast við óvissunni með því að skipuleggja lóðir fyrir nýtt íbúðarhúsnæði í Skógarhverfi, á Dalbrautarreit og á Sementsreit. Markmið sveitarfélagsins er að gatnagerð verði unnin í takt við eftirspurn  húsnæðis en áætlað er að kostnaði verði mætt með auknum tekjum af gatnagerðargjöldum.
 • Markaðssetning Akraness sem vænlegs kosts til uppbyggingar íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Sérstakur vefur fyrir markaðssetningu atvinnu- og íbúðalóða verði opnaður og sá vettvangur notaður í beinni markaðssetningu sem og auglýsingaherferð Akraneskaupstaðar.
 • Unnið verði markvisst áfram að atvinnusköpun og atvinnuþróun.
 • Í samstarfi við leigufélagið Bríet, Bjarg íbúðafélag, eða mögulega einkahlutafélög sem vinna samkvæmt lögum um óhagnaðardrifin leigufélög, verði leiguíbúðum fjölgað um a.m.k. 100 íbúðir á næstu fjórum árum.
 • Mikilvægt er að vera vakandi yfir þróun íbúafjölgunar á Akranesi og aldursdreifingu íbúa. Tvisvar á ári verða framkvæmdar úttektir í gegnum sérstaka íbúasýn og gerð grein fyrir íbúaþróun sveitarfélagsins. Einnig verður leitað leiða við birtingu rauntalna með samanburði við áætlaða spá um íbúafjölgun á vefsíðu Akraneskaupstaðar.
 • Gert er ráð fyrir að ljúka vinnu við endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins á árinu 2020. Þessari vinnu er ætlað að styðja við húsnæðisáætlunina og það deiliskipulag sem lýst er í þessari áætlun. Jafnframt er endurskoðun Aðalskipulags ætlað að styðja við frekari uppbyggingu bæjarfélagsins til ársins 2050.

Eftirspurn eftir sérstökum húsnæðisúrræðum

 • Þjónustuíbúðir aldraðra: Bæjarstjórn Akraness áætlar að á næstu fjórum árum þurfi að fjölga íbúðum sem ætlaðar eru fyrir 67 ára og eldri. Umræða hefur farið fram í bæjarstjórn um að Akraneskaupstaður sæki um stofnframlag fyrir byggingu 35 nýrra íbúða á Dalbrautarreit. Áætlaður kostnaður við þær framkvæmdir er um 840 m.kr. Áætlað framlag sveitarfélagsins er 100 m.kr. en í því felst lóð, niðurfelling gatnagerðargjalda og beint framlag ef upp á vantar.
 • Húsnæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem eru undir eigna- og tekjumörkum og fyrir millitekjuhóp: Bæjarstjórn Akraness áætlar að á næstu fjórum árum verði 25 íbúðir eða 25% íbúða sem fyrirhugaðar eru fyrir almennan leigumarkað hugsaðar fyrir þennan hóp. Með þessu telur sveitarfélagið að eftirspurn eftir félagslegu húsnæði verði uppfyllt. Mögulegt er að þeir aðilar sem nú eru í félagslegu húsnæði hjá sveitarfélaginu hafi áhuga á að flytjast í nýtt húsnæði í samstarfi við félög á húsnæðismarkaði þ.e. húsnæðissjálfseignarstofnanir hses eða slíkt félag sem stofnað yrði af Akraneskaupstað. Það gæti gefið sveitarfélaginu tækifæri á að selja fasteignir eða hefja tímabært viðhald á húsnæði sem ætlað er til áframhaldandi leigu. Áætlaður kostnaður við þær framkvæmdir er um 840 m.kr. Áætlað framlag sveitarfélagsins er 72 m.kr. en í því felst lóð, niðurfelling gatnagerðargjalda og beint framlag ef upp á vantar.
 • Búsetuúrræði fatlaðra: Auka þarf fjölda íbúða fyrir fatlaða í sveitarfélaginu. Sú uppbygging sem nú er fyrirhuguð í samstarfi við Þroskahjálp og Hússjóð Brynju nær einungis að leysa úr húsnæðismálum þess fólks sem er að missa leiguíbúðir sínar á Holtsflöt 9 á Akranesi. Alls eru 27 einstaklingar á biðlista í ársbyrjun 2020 og er áætlað að um 15 einstaklingar bætist við á þann lista á næstu fjórum árum. Bæjarstjórn Akraness fyrirhugar að hefja uppbyggingu á samtals 20-24 íbúðum fyrir fatlaða á fjórum mismunandi stöðum á næstu fjórum árum. Er það í skoðun samstarf við Þroskahjálp, Brynju Hússjóð Öryrkjabandalagsins og Ás styrktarfélag, Leigufélagið Bríet og gert ráð fyrir „hses“ framlagi Akraneskaupstaðar svo þessari þörf verði mætt. Áætlaður kostnaður við þær framkvæmdir er um 600 m.kr. Áætlað framlag sveitarfélagsins er 96 m.kr. sem er hefðbundið 12% framlag auk 4% viðbótarframlags sem byggir einkum á skorti á uppbyggingu hentugs húsnæðis fyrir fólk með fötlun en í því felst lóð, niðurfelling gatnagerðargjalda og beint framlag ef upp á vantar.

Húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar er aðgengileg í heild sinni hér


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00