Fara í efni  

Heilsa og líðan ungs fólks á Akranesi

Rannsókn og greining gaf nýverið út niðurstöður úr könnun á högum og líðan ungs fólks á Akranesi. Í skýrslunni kemur fram margt áhugavert og eru börnin okkar á Akranesi flest í góðum málum. Þau líta björtum augum til framtíðar og ánægjulegt að sjá hvernig þróun hefur orðið í neyslu vímuefna. Flest ungt fólk á Íslandi hefur tekið afstöðu gegn hvers konar vímuefnum og er ungt fólk á Akranesi engin undantekning þar. Börn á Akranesi eru undir meðaltali hvað varðar ölvun sl. 30 daga sem og yfir ævina. Strákunum okkar líður betur í skóla en meðaltalið segir til um og hjá stelpum eru samskipti við kennara betri en meðallag. Þá vinna börnin okkar verulega minna með skóla en landsmeðaltalið segir. Hér fyrir neðan eru nokkrar niðurstöður sem Heiðrún Janusardóttir verkefnastjóri æskulýðs- og forvarnarmála tók saman og neðst má finna skýrsluna í heild sinni.

Það má hins vegar ekki sofna á verðinum. Þannig eru verndandi þættir í lífi barnanna okkar eins og samvera með foreldrum, þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og nægur svefn nokkrir af þeim lykilþáttum sem skila okkur minnkandi neyslu og eru mikilvægustu þættirnir í forvörnum.

Eins og áður segir er eftirlit og stuðningur foreldra lykilþáttur í forvörnum. Þess vegna er ánægjulegt að sjá að börnin okkar fá skýr skilaboð frá foreldrum að þeir séu alfarið á móti því að þau reyki hass eða marijúana. Hins vegar virðast börnin ekki fá jafn skýr skilaboð varðandi það að þau drekka sig full. 88% barna telja foreldra algjörlega eða mjög mótfallin því að þau drekki sig full en hins vegar telja 12% foreldra vera frekar mótfallin eða alveg sama.

  

Alþjóðlegar ráðleggingar mæla með því að börn og unglingar sofi í 8 til 10 klukkustundir á sólarhring. Í þeim niðurstöðum sem hér voru kynntar kemur hins vegar í ljós að 12,2% nemenda í 8.bekk, 19,8% nemenda í 9.bekk og 25.6% nemenda í 10.bekk sofa 6 klukkustundir eða minna á nóttu. Þarna erum við fyrir ofan landsmeðaltal. Það gefur auga leið að það er allt of lítill svefn fyrir börn sem eru að vaxa.

 

Það sem helst  vekur áhyggjur hjá okkur er hversu mörgum stúlkum í 9. og 10 bekk virðist líða illa í skólanum. Þær skora líka langt yfir meðallag á kvíða og þunglyndiskvarða (sem merkir þó ekki að þær séu endilega með þunglyndi eða kvíða). Hins vegar er alveg ljóst að huga þarf að þessum þáttum og mun verða farið í að skoða hvað það er sem veldur og vinna með það.

Hægt að skoða skýrsluna í heild sinni hér.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00